Guðfríður Lilja hafnar ráðherrastól vegna Icesave

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir getur verið stolt af því að hafa hafnað ráðherrastól vegna Icesave. Hún kemur sterkari frá þessari ákvörðun, rétt eins og Ögmundur Jónasson. Hún treystir sér ekki frekar en hann til að taka sæti í ríkisstjórn þar sem valtað er yfir hugsjónir, pólitíska sannfæringu þingmanna. Það er ekki á hverjum degi sem stjórnmálamaður tekur þessa afstöðu, en þetta eru heldur ekki venjulegir tímar í íslenskum stjórnmálum.

Þessi ríkisstjórn er mjög völt í sessi og lafir á einhverjum óljósum þræði, kannski traustu samstarfi Jóhönnu og Steingríms. Þegar lykilmenn innan stjórnarflokkanna treysta sér ekki til að taka sæti í henni vegna vinnulagsins og verkstjórnar forsætisráðherrans má öllum ljóst vera að ríkisstjórnin er ekki á vetur setjandi eða í besta falli mjög ótraust... hún er brothætt og aum.

mbl.is Guðfríður Lilja hafnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikt umboð Steingríms J. til verka

Vinstristjórnin lifir eftir atburði síðustu 24 klukkustunda... en hún er veik í sessi. Steingrímur J. fær umboð frá þingflokknum til að vinna í Icesave... en veikt er það og hver þingmaður sem hefur verið í andstöðunni við málið frá því í júní virðist hafa fulla fyrirvara við samþykkt sína til Steingríms. Þetta er mjög brothætt staða og alls óvíst hversu traust umboðið er til að gera eitthvað í Icesave.

Eðlilegt er að spyrja hvað gerist þegar málið fer á næsta ákvörðunarpól.. mun þá hver þingmaður sem kom með fyrirvara við sína afstöðu taka hana og beita henni inni í þinginu? Þessi ríkisstjórn hefur ekki augljósan þingmeirihluta í þessu lykilmáli og vandséð hvernig allir haldi andlitinu þegar á reynir.

Að lokum er fundurinn svo kórónaður með því að velja einn umdeildasta stjórnmálamann vinstri grænna í ríkisstjórnina, til að taka við af Ögmundi. Ekki er ég viss um að hún hafi marga hveitibrauðsdaga í nýju verkefni.


mbl.is Álfheiður verður ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlagafundur hjá vinstri grænum

Eflaust finnst einhverjum það kaldhæðnislegt að vinstri grænir velji eftirmann Ögmundar og ákveði framtíð Icesave-málsins í skjóli nætur - mér finnst það aðallega táknrænt um alla atburðarásina. Vinstri grænir skreyttu sig alltaf með því í stjórnarandstöðu að vera flokkur hugsjónanna, standa og falla með sínum hjartans málum. Hlutskipti þeirra hefur þó verið í ríkisstjórn með Samfylkingunni að láta valta yfir sig og gleyma hugsjónunum.

Ögmundur lét hugsjónir og sannfæringu ráða för þegar á reyndi. Eflaust hefur hann þó látið beygja sig áður eða vikið af leið, allt fyrir flokkshagsmuni og hag þeirra sem ráða för í flokknum. Á meðan hafa sumir sætt sig við meira en hann gerði nokkru sinni. Brotthvarf Ögmundar markar þau þáttaskil fyrir vinstri græna að augljós vík hefur orðið milli vina - innanmeinin í flokki hugsjónanna hafa komið fram á yfirborðið.

Eflaust má telja þetta örlagafund fyrir vinstri græna. Þar verða mörkuð skref til framtíðar, hvort flokkurinn láti endalaust beygja sig af Samfylkingunni og skrifa undir allar hótanir Jóhönnu Sigurðardóttur. Ögmundur lýsti yfir frati á verkstjórn Jóhönnu með því að fara frá borði. Eflaust eru margir hugsi í grasrót og forystu vinstri grænna með þá ákvörðun, enda tel ég að margir séu hugsi yfir för forystunnar.

Steingrímur J. hefur afhjúpað sig sem valdastjórnmálamann á undanförnum vikum. Þetta kom vel fram í kvöld þegar hann þreytulegur og vandræðalegur reyndi að tala um hversu sterkur flokkurinn væri nú þrátt fyrir að einn lykilmanna flokksins hefði ekki séð sér fært að vinna í ríkisstjórn sem flokkurinn styður og hefði lýst hreinu vantreysti á forsætisráðherrann. Völdin virðast það eina sem er eftir fyrir SJS.

Verður VG sami valdaflokkurinn og þeir nefndu Framsóknarflokkinn forðum daga eða mun flokkurinn koma út af fundinum sem flokkur hugsjónanna þar sem allir fá að láta sannfæringuna ráða för. Þetta er stóra spurningin - þarna ræðst úr hverju VG er gerð... svona þegar á reynir.

mbl.is Þingflokkur VG á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband