Aumingjaskapur stjórnvalda á örlagastundu

Fróðlegt var að sjá söguna á bakvið samskiptin við Bretland örlagadagana eftir hrunið í október 2008 í þætti Þóru Arnórsdóttur í kvöld. Sú spurning er áleitin hvers vegna íslensk stjórnvöld tóku ekki slaginn við Bretland í upphafi málsins, þegar einhver vörn var í boði. Auðvitað áttu stjórnmálamenn hér heima að fara með mál sitt fyrir NATÓ - ekki átti að sætta sig við að eitt NATÓ-ríki beitti hryðjuverkalögum gegn bandalagsþjóð.

Í staðinn var hummað og hóstað máttleysislega. Ekkert var gert. Íslenskir ráðamenn horfðu þegjandi á Gordon Brown vega að Íslandi og veita því mikið og þungt högg með orðum sínum á SKY 9. október 2008. Kippt var í einhverja diplómatíska spotta með því að kalla sendiherrann til forsætis- og utanríkisráðherra en ekkert meira var gert. Íslenskir ráðamenn höfðu ekki það í sér að taka til sinna ráða, ekki einu sinni tala við bresku pressuna.

Sumum fannst ég djarfur þegar ég sagði í bloggfærslu 9. október 2008, eftir viðtalið við durtinn Brown á Sky þar sem hann jós skít og skömmum yfir Ísland, að Ísland ætti að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Æ betur sést að það hefðum við átt að gera. Íslensk stjórnvöld áttu að svara fullum hálsi og taka málið föstum tökum frá fyrsta degi í stað þess að lympast niður.

Við höfum með þögn og aðgerðarleysi okkar í alþjóðasamfélaginu, t.d. með því að mótmæla ekki harðlega á leiðtogafundi NATÓ fyrr á þessu ári, vanið Bretana á að sparka í okkur án þess að svara í sömu mynt. Ég held að síðar meir verði þetta hik og aðgerðarleysi metið sem mikil og taktísk mistök. Slíkt blasir reyndar við öllum sem sjá þessa sögu nú ári síðar.

Þegar ein þjóð í NATÓ-samstarfinu beitir annarri hryðjuverkalögum og reynir að sparka henni til helvítis með því að eyðileggja orðspor hennar með vísvitandi hætti á slíkt heima innan NATÓ til umræðu.

Eitt annað var merkilegt í þessum þætti: mótmælin fyrir ári þegar allt var að fuðra upp. Ekki verður séð að mikið hafi breyst á þessu ári sem liðið er. Kosningarnar í vor skiluðu engum marktækum breytingum.

Ráðaleysið er enn algjört og leyndin engu minni, jafnvel meiri ef eitthvað er. Við vitum enn mjög lítið hvað er að gerast, erum enn í algjöru myrkri í lykilmálum.

Eina sem hefur breyst er kannski það að vinstrimenn eru hættir að mótmæla og eru á bömmer yfir því að stjórnin sem þeir kusu til valda er alveg máttlaus.

mbl.is Telja hollensk stjórnvöld líka bera ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband