Flosi Ólafsson látinn



Við andlát Flosa Ólafssonar, leikara, minnist þjóðin eins besta grínista síns, föður Áramótaskaupsins og einstaks gleðigjafa, sem alltaf átti auðvelt með að létta lund þjóðarinnar. Flosi naut mikilla vinsælda og hann átti vísan sess í þjóðarsálinni. Hann var alltaf einlægur og traustur í húmor sínum og aldrei að þykjast vera eitthvað annað en hann var. Einn af þeim húmoristum sem var fyndinn bæði prívat og á sviði.

Tengsl Flosa við Akureyri eru órjúfanleg, tel ég, þó hann hafi reyndar ort einn kaldhæðnasta brag um bæinn fyrr og síðar. Hann nam hér og tók oft þátt í leiklistarstarfinu hér og var tíður gestur á leiksýningum hér. Hann var snillingur bæði í tjáningu og skrifum, hafði þá miklu náðargáfu að tala á mannamáli og vera sannur sagnamaður sem alltaf náði til fólks. Gamansögur hans í ræðu og riti urðu ógleymanlegar.

Hver mun nokkru sinni gleyma laginu um að það sé svo geggjað að geta hneggjað, húsverðinum Sigurjóni Digra, Eiríki hinum digra í Hrafninum flýgur (sem er veginn af eigin fóstbróður eftir mikil klækjabrögð gestsins), Varða varðstjóra í Löggulífi og rulluna í Hvítum mávum, svo og öllum hlutverkum hans og skrifum í Skaupinu, sem hann skapaði í kringum 1970 og gerði ódauðlegan hlut í áramótagleðinni.

Sjónvarpið ætti að taka sig til og heiðra nú minningu þessa meistara íslenska grínsins með því að gera þátt honum til minningar með öllum brotunum þar sem hann hefur farið á kostum bæði í eigin hlutverki sem og við að tjá allar hinar eftirminnilegu rullur sem hans verður minnst fyrir. Skaupið er 40 ára um þessar mundir og það er við hæfi að minnast þess um leið og Flosi er kvaddur.



Já, og að lokum: hver getur nokkru sinni gleymt auglýsingunni sem Flosi lék í fyrir Hreyfil við símanúmerabreytinguna árið 1996 um númerið í miðjunni: 5 88 55 22.... pjúra klassík.

Blessuð sé minning meistara Flosa.

Bloggfærslur 25. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband