Guð blessi Ísland

Geir H. Haarde
Ég fór í bíó í kvöld og sá heimildarmyndina Guð blessi Ísland eftir Helga Felixson - vel við hæfi ári eftir að Geir H. Haarde lét hin fleygu orð falla þegar hann færði fólkinu í landinu hin válegu tíðindi að allt væri að hrynja. Myndin er lífleg deigla og heiðarleg tjáning um ástandið eftir hrunið og þar til efnahagskreppan varð að stjórnmálakreppu með falli ríkisstjórnar í skugga átakanna á Austurvelli þegar allt fór úr böndunum.

Í myndinni er fléttað saman, mjög traust, svipmyndum frá þessum örlagatímum í sögu þjóðar í krísu, viðtölum við útrásarvíkingana umdeildu sem breyttust úr goðum í djöfla í huga fólksins í landinu, pólitískum innslögum þegar atburðarásin tók á sig æ drastískari mynd og hugleiðingum stjórnmálamanna í miðju átakanna og hrunsins mikla. Stærsti og mikilvægasti þátturinn er innsýn í hugarheim þeirra sem misstu allt sitt í þessum ólgusjó.

Merkilegasti punkturinn í myndinni að mínu mati er spennufallið sem var hjá fólki þegar ríkisstjórninni var bolað frá með mótmælum. Sumir önduðu léttar, aðrir sáu framtíðina fyrir sér sem jákvæða eða neikvætt upphaf hins sanna uppgjörs. Þegar við sjáum myndina og upplifum janúarbyltinguna vitum við að í raun erum við á sama punkti og fyrir ári þegar Geir bað Guð að blessa þjóðina. Hvað hefur breyst? Ekki neitt.

Kerfið er enn hið sama, stjórnmálamennirnir veita enn jafn loðin og undarleg svör. Þjóðin var illa upplýst fyrir ári og við erum enn í sama myrkrinu - ljósu punktarnir eru í það minnsta fáir. En myndin gerir meira en sýna okkur að við erum enn í sama feninu - hún sýnir okkur hugarheim útrásarvíkinganna í fókus og eins í spjalli þegar þeir halda að enginn hlusti á nema spyrillinn. Merkileg sýn í það minnsta - umdeild. En er þetta ekki fín viðbót? Held það.

Myndin verður eflaust umdeild.... hver metur eins og hann vill þetta sjónarhorn. Ég held að það sé samt mjög heiðarlegt.... þetta er lítið kíkjugat frá merkilegu sjónarhorni. Örlagatímar eru það.... og við veltum eflaust fyrir okkur þegar myndinni lýkur hvort og hvað hefur breyst til góðs eða ills. Ég held að við bíðum enn eftir nýjum og heiðarlegum tímum... margir urðu fyrir vonbrigðum með afrakstur byltingarinnar.

En svona er þetta bara.... fókusinn er altént stórmerkilegur - ég tel að þetta sé skylduáhorf fyrir alla. Svo metum við hvert og eitt okkar hvort myndin sé meistaraverk. Mér finnst hún heiðarleg innsýn og góð fyrir sinn hatt. Þarna fá tilfinningar að njóta sín frá öllum hliðum.... tónlistin og umgjörðin kallar fram tilfinningar þeirra sem horfa á, bæði jákvæð og neikvæð. Hið besta mál.

mbl.is Mörgum spurningum ósvarað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hannes Smárason missir húsið

Eflaust þykir einhverjum það kaldhæðnislegt að Hannes Smárason missi húsið við Fjölnisveg nákvæmlega ári eftir bankahrunið. Napurt hlutskipti fyrir mann sem fjárfesti mikið og lifði hátt í bransanum uns allt hneig til viðar og digrir sjóðir pappírspeninga urðu að sífellt hnignandi og morknum pappír á niðurleið.

Þetta þýðir væntanlega að mótmælendur geta hætt að sletta málningu á Fjölnisveginum.

Er þetta Steingrímur J. á leið til Bessastaða?

Steingrímur?
Ég hélt þegar ég sá myndina fyrir ofan að þetta væri Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á leið til Bessastaða, en svo virðist ekki vera - hann hefur verið þekktur fyrir að draga fram gamla Volvóinn sinn á tyllidögum og þeysa á honum til funda á forsetabústaðnum.

Sjálfur talsmaður loftslagsmála og umhverfisverndar - sýnir gott fordæmi, eða hvað?

mbl.is Skiptar skoðanir um loftslagsmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur lætur sverfa til stáls

Ekki fer framhjá neinum að Ögmundur Jónasson hefur látið sverfa til stáls í baráttunni innan VG - gefur hvergi eftir og kemur með stóru sprengjuna daginn sem Steingrímur J. kemur heim frá Istanbúl. Eftir tæplega vikulangar samningaviðræður Steingríms þar sem hann hefur puðað við að þoka samstarfinu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn áfram sparkar Ögmundur fótunum undan formanni sínum.

Eðlilegt að spyrja hvernig Steingrími muni takast að vinna þeirri áherslu fylgis innan VG að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist með samstarfið við IMF. Ögmundur dissar allar tilraunir Steingríms og gerir lítið úr honum... tímasetningin auðvitað engin tilviljun. Hvernig verður hægt að sætta þessar tvær gjörólíku áherslur?

Nú reynir á alla pólitíska lagni Steingríms. En eflaust skiptir það engu máli. Þessi ríkisstjórn er auðvitað feig. Pólitíska kreppan heldur áfram og ekki þarf að efast um glundroðakenninguna um vinstristjórnir.

mbl.is Höfum ekkert við AGS að gera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þokkagyðjan Liz

Ekki verður um það deilt að Elizabeth Taylor er ein af skærustu stjörnum kvikmyndabransans. Hún lifði hátt, en hún átti sínar sorgir og sigra, skilnaðirnir eru fyrir löngu orðnir sögufrægir og umdeildir. Þessi forna barnastjarna og þokkadís hefur þó helst verið í fréttum fyrir veikindi sín og heilsuleysi síðustu ár. Hún hefur ekki leikið í mörg ár, en leiksigrar hafa þó fjarri því gleymst, þó margir muni eftir henni sem umdeildri stjörnu í sviðsljósinu.



Enda hver getur nokkru sinni gleymt senunni flottu í Ketti á heitu blikkþaki, hinni yndislegu mynd byggðri á sögu Tennessee Williams, þar sem hún fór á kostum með Paul Newman, en hún lék í myndinni á tímamótum í lífi sínu, rétt eftir að eiginmaðurinn Mike Todd fórst í flugslysi. Stóra umfjöllunarefnið var þar í senn ástin og dauðinn.



Risinn var eitt hinna ógleymanlegu meistaraverka undir lok gullaldartíðar Hollywood, sem lýsti hinum geysilegu þjóðfélagsbreytingum sem áttu sér stað í Texas, er það breyttist úr mikilvægu nautgriparæktarhéraði í stærsta olíuiðnarfylki Bandaríkjanna á fjórða og fimmta áratug 20. aldarinnar. Samleikur Liz með Rock Hudson og James Dean er rómaður, öll áttu þau stjörnuleik. Þetta var síðasta myndin hans Dean. Alveg yndisleg... og Liz túlkaði kjarnakonu í gegnum aldarfjórðung ævi hennar með bravúr.



Stóra perlan hennar er þó auðvitað Martha í Who´s Afraid of Virginia Woolf... leiftrandi og öflug í sjóðandi heitri mynd. Hrein snilld... og hver getur nokkru sinni gleymt þessari senu? Taylor og Burton, dýnamíska dúóið í stuði.

mbl.is Elizabeth Taylor í hjartaaðgerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband