Fréttablaðið fikrar sig á áskrifendamarkaðinn

Ákvörðun eigenda Fréttablaðsins um að skerða dreifingu blaðsins á landsbyggðinni gefur til kynna að blaðið sé að fikra sig á áskrifendamarkaðinn - fyrstu merkin um að fríblað gangi ekki upp lengur. Grundvöllurinn sé ekki til staðar. Þarf svosem varla að koma að óvörum, allir vita að þetta er ekki beint blómlegur tími fyrir fjölmiðla.

Eins og árar þarf það ekki að koma á óvart. Í raun er það stórmerkilegt hvernig fríblað af þessu tagi hefur gengið þetta lengi án þess að gera miklar breytingar eða hreinlega að hafa haldist á floti mánuðum saman eftir kreppuna, þegar auglýsingatekjur hafa dregist stórlega saman.

Fréttablaðið hefur verið í forystusessi fyrst og fremst vegna þess að því er dreift um allt land og fólk fær það heim hvað sem gerist. Þeir tímar eru liðnir að fjölmiðlar geti gengið með þeim hætti að fólk fái þá ókeypis. Allar aðstæður kalla á nýja tíma.

Eflaust er þetta fyrsta merki þess að blaðið sé feigt... við sjáum hvað setur.

mbl.is Fréttablaðið selt úti á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir þora ekki að ræða átakamálin

Mér finnst það stórmerkilegt að þingmenn vinstri grænna hafi haldið þingflokksfund án þess að ræða Icesave-málið og fara ítarlega yfir ferð Steingríms J. til Istanbúl. Vissulega nokkuð pólitískt afrek að sitja á fundi þegar eitt stykki ríkisstjórn er varla starfhæf vegna innri átaka í flokki og ræða ekki málin sem skekja undirstöðurnar. Kannski er ekki við öðru að búast en fundurinn gangi vel þegar ekki er þorað að tala um umdeildu málin.

Þetta hljómar jafn traustvekjandi og síðasti þingflokksfundur vinstri grænna þar sem Steingrímur fékk umboð fullt af fyrirvörum andstöðuhópsins í Icesave-málinu innan þingflokksins. Fundurinn var túlkaður í fyrstu sem mjög merkilegur og formaðurinn hefði fengið fullt umboð... síðar kom í ljós að hann fékk í besta falli umboð til að fara, en ekki fullan stuðning til að gera eitt né neitt.

Enda hefur það komið á daginn... allt er í lausu lofti í stærstu málum þessarar ríkisstjórnar og ekki augljóst hvort það sé þingmeirihluti innan ríkisstjórnarinnar um IMF og Icesave.... varla svosem. Yfirlýsingar síðustu daga hafa sýnt og sannað að flokkurinn er klofinn í herðar niður. Við völd situr minnihlutastjórn varin af Ögmundarhópi. Það loga neistar víða.

Eðlilegt að vel gangi og allt sé í góðum fíling þegar ekki er snert á hitamálunum. Nú eigum við eftir að sjá hvað verður úr þessu. En ég hlakka til að sjá hvernig Jóhanna, Steingrímur og Ögmundur leysa úr þessum ágreiningsmálum. Sé eitthvað orðið augljóst eftir atburðarás síðustu daga er það að Ögmundur er orðinn einn leiðtoga þessa stjórnarsamstarfs.

Hann leiðir þriðja arminn í samstarfinu, arminn sem ræður hvort stjórnin lifir eða deyr. Svo verður að ráðast hvort þau geti öll dansað tangó saman.

mbl.is Fundi VG lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband