Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri ákveður prófkjör

Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins á Akureyri ákvað í kvöld að efna til prófkjörs til að velja á framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí á næsta ári. Kjörnefnd flokksins lagði fram tillögu um uppstillingu á fundinum en hún hlaut ekki hljómgrunn. Sigurður J. Sigurðsson, fyrrum leiðtogi flokksins í bæjarmálunum, lagði fram tillögu um prófkjör sem mótvægi við hana og hlaut hún góðan stuðning á fundinum.

Ég fagna því að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri ákveði prófkjör. Annað hefði verið ótækt með öllu - afleit skilaboð eftir gjörningaveður síðustu mánaða í landsmálum. Fólk kallar eftir uppstokkun og breytingum. Þeir sem fyrir eru á fleti verða að sækja sér endurnýjað umboð vilji þeir halda áfram. Reyndar var þessi tillaga kjörnefndar stórundarleg því leiðtogi kjörinn í prófkjöri 2006, Kristján Þór Júlíusson, ætlar að hætta og annar bæjarfulltrúi til, Hjalti Jón Sveinsson, lýst því einnig yfir.

Í einu orði sagt var ég undrandi á skilaboðum frá kjörnefnd og fannst tillagan í engu samræmi við tíðarandann og stöðuna. Enda var ekki hljómgrunnur fyrir henni - engin rök sem héldu henni á floti. Enda er nauðsynlegt að stokka upp hópinn, virkja nýtt fólk til starfa og taka til hendinni. Þeir sem vilja taka þátt fara þá bara í framboð og flokksmenn taka svo ákvörðunina um hvað gerist.

Hvað varð um opnu og gegnsæju stjórnsýsluna?

Vinstrimenn hafa um árabil talað fjálglega um mikilvægi opinnar og gegnsærrar stjórnsýslu. Eftir tæpt ár sést árangur vinstristjórnar í ráðningum í stjórnkerfinu án auglýsingar, þar sem búið er að raða 42 starfsmönnum á garðann, flokksgæðingum í flestum tilfellum. Vinstrimenn hafa fallið á prófinu, hafa ekki iðkað það sem þeir hafa talað um árum saman. Þeir hafa verið gripnir í bólinu, eru ekkert betri en þeir sem gagnrýndir voru áður.

Þarf þetta að koma einhverjum á óvart? En hvernig stendur á því að forsætisráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir sem margoft hefur flutt predikanir um opin og gegnsæ vinnubrögð, auk fleiri ráðherra vinstrimanna snýst í hring þegar komið er í valdastóla og byrjar að gera eitthvað allt annað en áður var sagt?

Er það kannski svo að valdið spillir og þetta fólk er ekki merkilegra en svo að það gleymir öllu sem áður var sagt?

mbl.is Gagnrýna ráðningar án auglýsinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband