Svartur dagur í sögu þjóðarinnar

Þetta er svartur dagur í sögu þjóðarinnar - samþykkt Icesave-frumvarpsins er dapurleg endalok á sorglegu ferli þar sem ríkisstjórnin hefur haldið illa á málum og ekki verið vandanum vaxin, unnið gegn hagsmunum Íslands og samið herfilega af sér. Atkvæði féllu samt nokkuð í takt við atkvæðagreiðslu í annarri umferð og fátt sem kemur mjög að óvörum, umfram það hversu aum rök margra þingmanna voru fyrir samþykkt þessa lélega samnings sem Svavar Gestsson klúðraði svo gríðarlega fyrir íslensku þjóðina.

Helstu vonbrigðin eru þau að Ásmundur Einar Daðason hafi ekki þorað að kjósa gegn Icesave. Tilraunir hans til að koma með eitthvað statement á móti samþykktinni voru máttlausar og vandræðalegar. Miklu heiðarlegra er að menn taki afstöðu og berjist fyrir hana með kjafti og kló frekar en spila sig svo vitlausan að vera handbendi annarra, vera að kjósa til að hafa aðra góða við sig. Ásmundur Einar tók þennan valkostinn og kom vægast sagt illa út.

Mér finnst það varla boðlegt að hann sem formaður Heimssýnar taki þessa afstöðu. Þetta er máttvana tilraun til að hafa alla góða og dæmd til að mistakast. Ég hef ekki hug á að styðja Heimssýn eða vera félagsmaður þar meðan hann gegnir þar formennsku og hyggst segja mig úr þeim félagsskap. Þegar formaðurinn er svo máttlaus sem raun ber vitni er ekki boðlegt að skrifa undir leiðsögn hans. Heimssýn á skilið betri formann.

Ólafur Ragnar Grímsson fær nú Icesave-málið sent til Bessastaða, væntanlega með hraðpósti Jóhönnu og Steingríms strax í fyrramálið. Hef ekki mikla trú á að hann sé sjálfum sér samkvæmur og muni það sem hann sagði árið 2004 um fjölmiðlalögin, tel að hann verði þægur sem hundur í bandi vinstriflokkanna. Þetta er tækifærissinnað skoffín, ferðafélagi útrásarvíkinganna sem kann ekki að skammast sín.

En þetta er svartur dagur, en kannski verður morgundagurinn sorglegri þegar eins prósents sameiningartáknið reynir að réttlæta sinnaskiptin frá því þegar hann reddaði félögum sínum í einkaþotunum sigri í deilu sem hefði getað bjargað fjölmiðlum landsins undan oki auðmannanna sem lögðu landið í rúst.

En þið sem sitjið heima ósátt eigið samt ekki að sætta ykkur við orðinn hlut. Farið á indefence.is og skrifið undir gegn Icesave. Þar hafa 40.000 skrifað undir, nokkur þúsund á þessum svarta degi. Sendum útrásarforsetanum, sameiningartákni auðmannanna sem lögðu landið í rúst, sterk skilaboð!

mbl.is Alþingi samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svavar þorir ekki að standa fyrir máli sínu

Mér finnst það merkilegt að Svavar Gestsson geti ekki staðið fyrir máli sínu og mætt á fund fjárlaganefndar til að svara einföldum en krefjandi spurningum af gefnu tilefni um Icesave-samninginn, klúðrið mikla, sem hann ber fulla ábyrgð á.

Enn eru að koma fram ný gögn sem sýna að hann var ekki starfi sínu vaxinn, setti gögn undir stól og leyndi jafnvel ráðherra og þingmenn mikilvægum staðreyndum um samningagerðina. Þetta er grafalvarlegt mál.

Á þessu verður að fá svör - sem enginn annar en Svavar Gestsson sjálfur getur svarað. Það er mjög vandræðalegt að hann skuli ekki geta séð sér fært að mæta á fund nefndarinnar til að svara fyrir sig.

Þetta gera aðeins þeir sem hafa vondan málstað að verja, kannski mun frekar hafa engan málstað að verja. Þeir fara í felur og reyna að stóla á að allir gleymi klúðrinu sem fyrst.

Gleymum því ekki að fyrir nokkrum mánuðum, kortéri fyrir kosningar, sagði Steingrímur J. að það væri í sjónmáli að þessi maður landaði glæsilegri niðurstöðu í Icesave-málinu!

Botnlaust klúður.... í boði vinstri grænna. Ætlar maðurinn að hundskast til að mæta á nefndarfundinn eða ætla vinstri grænir sem völdu hann til verksins að taka þetta á sig?

mbl.is Svavar neitaði að mæta á fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikhús fáránleikans á Alþingi

Leikhús fáránleikans á Alþingi náði nýjum lægðum seint í kvöld þegar Steingrímur J. sagðist trúa Össuri betur en sérfræðingunum hjá Mischon de Roya. Aumingja Steingrímur var reyndar mjög áttavilltur í umræðunni - talaði áfram eins og haninn á haugnum.

Hrokinn og stærilætin voru algjör þó innistæðan fyrir því væri harla lítil. Þessi ráðherra virðist algjörlega viss um að hann sé frábær og hann og samstarfsmenn hans hafi alltaf rétt fyrir sér. Held að flestir aðrir efist æ meir um færni hans til að leiða þessi mál.

Stjórnleysið í þinginu var algjört í kvöld. Algjör fjarstæða að það eigi að fara að keyra þetta mál áfram innan hálfs sólarhrings í atkvæðagreiðslu þegar enn berast gögn sem varpa ljósi á málið.

Forsendubrestur hefur orðið og málið er í óvissu. Æ betur sést hversu afleitlega þessi ríkisstjórn hefur haldið á málinu öllu, haldið gögnum leyndum og unnið gegn þingræðinu.


mbl.is Steingrímur segist trúa Össuri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband