Áramótakveðja

Flugeldar
Í þessari síðustu bloggfærslu minni á árinu 2009 vil ég færa lesendum vefsins og vinum mínum og kunningjum, nær og fjær, mínar innilegustu nýárskveðjur, með þakkir fyrir allt hið gamla og góða.

Óska ég þeim farsældar á nýju ári og þakka þeim samfylgdina á árinu sem er að líða. Kærar þakkir fyrir allt hið góða.

Hafið það gott á nýju ári - vonandi verður það okkur öllum gjöfult og gott!

nýárskveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson



Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.

En hvers er að minnast? Og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.

Hún birtist á vori sem vermandi sól,
sem vöxtur í sumarsins blíðum,
í næðingum haustsins sem skjöldur og skjól,
sem skínandi himinn og gleðirík jól
í vetrarins helkuldahríðum.

Hún birtist og reynist sem blessunarlind
á blíðunnar sólfagra degi,
hún birtist sem lækning við böli og synd,
hún birtist þó skærast sem frelsarans mynd,
er lýsir oss lífsins á vegi.

Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof, því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breyttist í blessun um síðir.

Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.

Valdimar Briem


Þjóðin hugsar hlýlega til Eddu Heiðrúnar



Valið á Eddu Heiðrúnu Backman, leikkonu, sem manni ársins 2009 er traust og gott. Hún er algjör hetja og hefur leitt baráttuna fyrir því að efla Grensás með miklum sóma og vakið athygli á góðu málefni. Íslendingar sýndu með myndarlegum hætti í september að þeir standa vörð um það sem mestu skiptir með því að styðja við bakið á Grensás. Á þessum síðustu og verstu tímum sýnir þjóðin hvar hjartalagið er... þrátt fyrir stöðuna í samfélaginu styðjum við traust málefni alla leið.

Edda er sönn íslensk hvunndagshetja. Ég dáist að viljastyrk hennar og festu í baráttunni við sjúkdóminn... hún er glæsilegur fulltrúi í forystusveit þeirra sem berjast fyrir því að Grensás haldi velli í kreppunni og þar sé byggt upp en ekki rifið niður þegar mestu skiptir að verja grunngildin í þessu samfélagi.




Sómi hefði verið að því að tímaritið Nýtt líf hefði valið Eddu Heiðrúnu sem konu ársins, enda hefur afrek hennar og forysta fyrir Grensás í erfiðu veikindastríði sínu verið aðdáunarverð og hún á allt gott skilið. Þjóðin hugsar hlýlega til hennar og metur verk hennar fyrr og nú mjög mikils.


mbl.is Edda Heiðrún maður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamleg ákvörðun hjá forsetanum

Ólafur Ragnar Grímsson tekur skynsamlega á málum með því að hugleiða næstu skref um Icesave. Hann er í vægast sagt mjög þröngri stöðu, hefur sjálfur sett sér viðmið með framgöngu sinni í fjölmiðlamálinu fyrir fimm árum og á erfitt með að snúa því við í þessu máli.

Nú hafa tæplega 50.000 Íslendingar skrifað undir áskorun um að fara með Icesave í þjóðaratkvæði og eðlilegt að forsetinn hlusti á þær raddir og hugleiði næstu skref. Vandséð er hvernig hann geti gengið framhjá þeim áskorunum, sé hann sjálfum sér samkvæmur.

Ég var alla tíð viss um að forsetinn hefði tekið ákvörðun um að staðfesta lögin. En það er erfitt fyrir forseta sem vill hlusta á þjóðarsálina að sniðganga afgerandi ákall um þjóðaratkvæði í lykilmáli. Nú reynir á hvernig hann vill ljúka forsetaferli sínum.

Þetta verður honum erfitt mál á hvorn veginn sem fer, en ég tel blasa við að það verði mjög erfitt fyrir hann að sniðganga þjóðaratkvæði í þessu máli. En nú reynir á þennan húsbónda á Bessastöðum og hver hann vill að arfleifð sín sé.

mbl.is Forseti tekur sér frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband