Aumingjaskapur Þorgerðar Katrínar

Ég missti allt álit á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, áðan þegar hún ákvað að sitja hjá í mikilvægri atkvæðagreiðslu um aðildarumsókn í Evrópusambandið.... tók bara enga afstöðu. Greinilegt er að hún studdi aðildarumsókn en þorði ekki að gera það. Þetta er ekta heigulsháttur sem einkennir afstöðu varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Ég ákvað að kjósa Þorgerði Katrínu sem varaformann á landsfundi í vor, vildi veita henni annan séns eftir að hún hafði brugðist flokksmönnum á mikilvægu augnabliki enda taldi ég lengi vel að hún ætti að fara úr forystunni með Geir H. Haarde. Bæði brugðust algjörlega þegar á reyndi. Ég sé eftir þeirri ákvörðun.

Svona fólk vil ég ekki sjá í pólitík og þaðan af síður styðja.


mbl.is Þorgerður Katrín greiddi ekki atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi hafnar því að þjóðin kjósi um ESB

Mér finnst það alveg gríðarleg hneisa fyrir Alþingi og stjórnarflokkana sem mynda þar meirihluta, einkum vinstri græna, að þar hafi verið hafnað að þjóðin hafi fyrsta og síðasta orðið hvað varðar viðræður við Evrópusambandið, bæði að fara í aðildarviðræður og eins að taka ákvörðun um þann samning sem komið yrði með heim. Lágmarkskrafa er að þjóðin hafi bindandi lokaákvörðunarvald.

Þessu hefur nú verið hafnað. Þeir sem hafa skreytt sig með því að fólkið í landinu eigi að fá meira vald, leita álits þjóðarinnar í lykilmálum og færa valdið nær fólkinu hafa nú gleypt þennan boðskap fyrir völdin og afhjúpað sig sem algjöra hræsnara.

mbl.is Atkvæðagreiðslan í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svínaflensa eða fjölmiðlaflensa?

Auðvitað var bara tímaspursmál hvenær svínaflensan myndi berast hingað til Íslands. Ekki við því að búast að við myndum komast hjá því að velta henni fyrir okkur. Gárungarnir hafa hinsvegar sagt að svínaflensan sé hálfgerð fjölmiðlaflensa. Augljóst er að ástandið hefur verið svolítið yfirdramatíserað í fjölmiðlum og reynt að gera fólk hrætt eða óttaslegið.

Óttinn er skiljanlegur að vissu marki, en samt sem áður verður ástæðan til að óttast undarlegri eftir því sem meira liggur fyrir varðandi flensuna og staðreyndirnar verða meira áberandi í umræðunni. Þetta minnir að sumu leyti á umræðuna um fuglaflensuna fyrir nokkrum árum. Reynt var að gera fólk um allan heim svo óttaslegið að það þyrði varla að ferðast.

Er á reyndi var fuglaflensan aðeins fjölmiðlaflensa. Nokkuð er um liðið síðan talað var um fuglaflensuna í fjölmiðlum, en um tíma var þetta í öllum fréttatímum, öllum blöðum og tímaritum.

Fjölmiðlar segja oft mikilvægar fréttir og miðla upplýsingum. Þeir geta þó stundum yfirdramatíserað hlutina. Gott ef svínaflensan fer ekki í sömu kategóríu og fuglaflensan bráðlega.

mbl.is Mæðgur fárveikar af svínaflensu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband