Þorgerður Katrín á að víkja sem varaformaður

Mér finnst að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir eigi að víkja sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins eftir hjásetu í atkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild. Ekki er hægt að bjóða almennum flokksmönnum upp á aumingjaskap af þessu tagi og skort á pólitískri forystu og leiðsögn. Mér finnst það mesti heigulsháttur sem hægt er að bjóða umbjóðendum sínum í pólitískri baráttu að sitja hjá og hafa enga afstöðu, enga skoðun, sóa atkvæði sínu í raun.

Ég held að margir sjálfstæðismenn séu á þeirri skoðun að Þorgerður Katrín eigi að finna sér eitthvað annað að gera og leyfa Sjálfstæðisflokknum að eflast til nýrra verka án tenginga bæði við hennar umdeildu fortíð í hruninu og annarra. Þegar við bætist að hún situr hjá í einu umdeildasta máli samtímans er ekki að sjá að það sé þörf fyrir hana í forystu flokksins.

Hún ætti að hugleiða sína stöðu og víkja af velli að mínu mati.

mbl.is Staða Þorgerðar Katrínar veikist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málningu slett hjá auðmönnum

Ekki fer á milli mála að útrásarvíkingarnir hafa breyst úr hálfguðum í hötuðustu menn samfélagsins á skömmum tíma. Ekki þarf að undrast reiði landsmanna. Mér finnst það samt einum of að sletta málningu á hús auðmannanna. Þeir eiga eftir að fá sína refsingu, sú hin mesta er reyndar sú að þeir eru í raun ærulausir hér heima á Íslandi. Þeir munu ekki geta látið sjá sig hér á meðan þrifin er upp óreiðan eftir þá.

Reiðin er mikil. Einhvern veginn verður hún að fá útrás. Þetta er ein leiðin, sú dapurlegasta að mínu mati. Miklu betra er að ráðast að þessum mönnum eða gagnrýna þá með skrifum og mætti málefnalegra skoðanaskipta heldur en með skemmdarverkum. Þeir hafa sjálfir unnið mikil skemmdarverk á samfélaginu og hafa misst bæði æruna og veldi sitt vegna eigin græðgi fyrst og fremst.

mbl.is Málning á hús Bjarna Ármanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband