Málningu slett hjá auðmönnum

Ekki fer á milli mála að útrásarvíkingarnir hafa breyst úr hálfguðum í hötuðustu menn samfélagsins á skömmum tíma. Ekki þarf að undrast reiði landsmanna. Mér finnst það samt einum of að sletta málningu á hús auðmannanna. Þeir eiga eftir að fá sína refsingu, sú hin mesta er reyndar sú að þeir eru í raun ærulausir hér heima á Íslandi. Þeir munu ekki geta látið sjá sig hér á meðan þrifin er upp óreiðan eftir þá.

Reiðin er mikil. Einhvern veginn verður hún að fá útrás. Þetta er ein leiðin, sú dapurlegasta að mínu mati. Miklu betra er að ráðast að þessum mönnum eða gagnrýna þá með skrifum og mætti málefnalegra skoðanaskipta heldur en með skemmdarverkum. Þeir hafa sjálfir unnið mikil skemmdarverk á samfélaginu og hafa misst bæði æruna og veldi sitt vegna eigin græðgi fyrst og fremst.

mbl.is Málningu skvett á hús auðmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarar undan hinu gamaldags vinstrapari

Könnun Gallups gefur til kynna að mjög fjari nú undan Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, vinstraparinu gamalreynda sem hefur verið á þingi í um eða yfir þrjá áratugi. Þau hafa að sjálfsögðu ekki komið með neinar breytingar í íslenskum stjórnmálum, andlit hinna gömlu og liðnu tíma, fólkið sem heldur áfram formannaveldinu í þinginu sem þau gagnrýndu áður og stýra Alþingi sem afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins.

Fjölmargir sem kusu þau hafa verið illa sviknir og eflaust ekki séð fyrir endann á fylgishruni vinstriflokkanna. Þeir eiga eftir að taka væna dýfu á næstu mánuðum þegar gríman fellur endanlega, hafi hún svosem ekki tekið næga niðursveiflu fyrir. Þetta var allt svo fyrirsjáanlegt en samt sem áður gerist þetta hrun þeirra hraðar en ég átti von á. En svona verða víst örlögin fyrir þeim.

Steingrímur J. hefur sérstaklega látið á sjá að undanförnu... er aðeins skugginn af stjórnarandstöðuleiðtoganum sem hafði uppi stór orð en stundar nú aðallega það að borða þau í öll mál. Stóra spurningin nú er hvort þau þrauki af kjörtímabilið eða hrökklist frá bráðlega. Þessi stjórn felur feigðina í sér rétt eins og hin lánlausa stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem aldrei var neitt.

Framtíðin er þeirra sem eru nýjir á sviðinu. Endurnýjun íslenskra stjórnmála er ekki lokið. Hún er aðeins rétt að byrja. Nú munum við hinsvegar fara að sjá hana gerast á vinstrivængnum þegar VG og Samfylking fara í hendur nýrra formanna.

mbl.is Fylgi stjórnarflokkanna minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband