Obama hopar - byrjendaklúður í Hvíta húsinu

Obama
Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, varð heldur betur illa á í messunni þegar hann réðst að lögreglumanni í Massachusetts á blaðamannafundi í vikunni og sakaði hann um heimskulegt athæfi í starfi þegar hann sinnti aðeins sinni vinnu. Til að bæta gráu ofan á svart sagðist Obama ekki þekkja staðreyndir málsins allar nógu vel. Obama ætlaði sér að blása til sóknar til að bjarga heilbrigðisfrumvarpi sínu frá því að stefna í Waterloo-baráttu en blaðamannafundurinn drukknaði alveg í þessum byrjendamistökum hans.

Eftir að hafa átt góða sex mánuði í Hvíta húsinu er nýjabrumið að fara af Obama. Honum hefur tekist illa upp í forystu sinni með heilbrigðisfrumvarpið og virðist vera að tapa fylgi. Könnun Rasmussen í dag mælir Obama með innan við 50% stuðning í fyrsta skipti á forsetaferlinum. Hann mælist neðar en Jimmy Carter, eins kjörtímabils líberal forseti demókrata, gerði sumarið 1977. Nú reynir á forystuhæfileika Obama. George W. Bush er ekki lengur leikari í atburðarásinni og nú þurfa demókratar að fara að leiða mál.

Obama gerði alvarleg mistök á þessum blaðamannafundi með orðavali sínu um lögreglumanninn. Hann missti stjórn á sér og hefur kallað yfir sig reiði lögreglumanna um öll Bandaríkin og hann hefur ekki grætt á þessu í einu sterkasta líberal ríki Bandaríkjanna, Massachusetts, ríki Kennedy-anna. Svona mikil byrjendamistök hlýtur að vekja spurningar um hvort Obama sé að mistakast í forystu sinni og sé að missa gríðarlega trausta stöðu í upphafi kjörtímabilsins úr höndum sér.

mbl.is Obama hringir í lögreglumann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sættir Steingrímur J. sig við aðför að Íslandi?

Hvað er að gerast í fjármálaráðuneytinu þegar það sættir sig við að Norræni fjárfestingabankinn hætti að lána Íslendingum og setji þeim afarkosti? Skilaboðin þar eru einföld og hótanirnar augljósar - Icesave-samningurinn fari í gegn ella allt sett í salt. Annars er Steingrímur J. löngu hættur að koma fólki að óvörum. Dugleysi hans og þvermóðska er algjör.

Þetta bætist ofan á þann aumingjaskap, sem varð opinber í gær, að láta íslenska ríkið borga lögfræðikostnað breskra stjórnvalda vegna Icesave. Afglöp íslensku samninganefndarinnar í því máli verða æ augljósari og ekki hægt að tala um neinn samning lengur. Allt fellur á Íslendinga.

Þetta er versti samningur sem hefur verið gerður af hálfu Íslendinga. Geti vinstriflokkarnir ekki stöðvað hann samviskusamlega og tekið þetta klúður sitt úr sambandi ber að fella þessa ríkisstjórn með öllum tiltækum ráðum.

Þeim hlýtur að líða illa sem treystu vinstri grænum fyrir atkvæði sínu í vor. Enginn flokkur hefur samið af sér kosningaloforðin og pólitíska samvisku sína fyrir völd og mjúka stóla með meiri hraða og aumingjabrag en þeir.


mbl.is Hættir að lána Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband