Byggt til framtíðar með lottóvinningi

Ég vil óska milljónamæringnum unga til hamingju með lottóvinninginn á laugardag. Vinningssaga hans er eilítið notaleg og gott að hann ætlar að ávaxta auðinn í framtíðinni á skynsamlegan hátt. Þetta er góð afstaða til peninga að nota þá til að byggja til framtíðar en ekki sólunda peningum hratt og illa eins og sumir hafa því miður gert.

Hugarfar þeirra sem vinna hafa nefnilega áhrif til framtíðar. Sumir hafa spilað stórum vinningi úr höndum sér fljótt og farið illa með auðinn. Þetta hugarfar unga mannsins er heilbrigt og gott, sérstaklega á þessum tímum sem við lifum á.

mbl.is Lottóvinngshafinn kominn fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Bjarni Ármannsson að flytjast til Akureyrar?

Ein kjaftasagan sem maður heyrir er að Bjarni Ármannsson, fyrrum bankastjóri Íslandsbanka og Glitnis og stjórnarformaður REI, sé að hugleiða að flytjast til Akureyrar. Honum telji sér ekki vært á höfuðborgarsvæðinu eftir ágang að undanförnu og börnum hans leiðist í Noregi þar sem þau ætluðu sér að búa. Varla er við því að búast að tilveran sé jákvæð fyrir mann sem hefur haft allt en misst allt að því æruna og um leið orðið einn hataðasti maður landsins á mjög skömmum tíma.

Ég sá fjölda hinna svokölluðu útrásarvíkinga hér á Akureyri helgina sem pollamótið var haldið. Ef setið var á Bláu könnunni og gengið um miðbæinn mátti rekast á allnokkra og ég rakst á Sigurð Einarsson í Kaupþingi. Þetta var örugglega hann, varla var hann í sumarbústaðnum sínum í Borgarfirði. Varð var við að þessir útrásarvíkingar vöktu athygli fólks. Veit svosem ekki hvort eitthvað var vegið að þeim, en ég heyrði mikið talað um heimsókn þeirra dagana á eftir.

Skil svosem vel að Bjarni vilji flytja út á land og telji það rólega vist. En ég er viss um að ólgan vegna útrásarvíkinganna er litlu minni þar.

Ómerkileg framkoma

Mér finnst það vægast sagt ómerkilegt hjá Fortis-banka að frysta peninga til Íslands vegna skulda föllnu íslensku bankanna. Þetta er eitt dæmið um hversu ómerkilega er sótt að Íslandi á þessum erfiðu tímum. Við erum beitt mjög vægðarlausum hnefarétti og það versta er að við eigum fáa vini á alþjóðavettvangi. Greinilegt er að það á að pynda og berja Íslendinga til að sætta sig við eitthvað sem engin þjóð í alþjóðlegu samstarfi myndi sætta sig við.

Æ betur sést að við eigum að taka á okkur miklar byrðar gegn því að fá aðgöngumiða inn í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Verst af öllu er að þeir stjórnmálamenn eru til hér á Íslandi sem eru tilbúnir að semja Ísland í vonlausa stöðu til að eygja von á nokkrum skrefum í áttina að gömlum pólitískum draumi, sem hefur verið mjög fjarlægur lengi. Ekki þarf að undra að Samfylkingin gengur þar fremst í flokki.

Framkoman við Ísland í Fortis-banka er lýsandi um hvernig staða Íslands er. Þar er eflaust mörgum um að kenna, en mikill ábyrgðarhluti er að taka eina þjóð af kortinu fyrir afglöp nokkurra.

mbl.is Sitja á hundruðum milljóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband