Dramatísk endalok hjá Björgólfi

Gjaldþrot Björgólfs Guðmundssonar er dramatískur endapunktur á brösóttum viðskiptaferli. Innan við ári eftir fall Landsbankans er veldi hans fallið og stendur ekki steinn yfir steini. Vissulega er Björgólfur einlægur og vandaður maður að mörgu leyti. En ég hef miklar efasemdir um hann sem bissnessmann eftir alla þessa hringekju sem við höfum verið í og fylgst með síðustu árin. Enda ekki óeðlilegt að hugleitt sé hvort leiðsögn hans hafi verið farsæl.

Þar var gamblað langt um efni fram og þeir sem tóku þar mestan þátt fóru langt fram úr sjálfum sér. Björgólfur er einn þeirra sem bera þar mikla ábyrgð. Björgólfur birtist eftir sem hinn einlægi baráttumaður gegn ósómanum, einum of seint. Afneitun hans var ekki trúverðug þá og ég efast um að margir vorkenni honum, þó fallið sé hátt. Hann talaði mikið um ábyrgð í Kastljósviðtali fyrir nokkrum mánuðum en bar hana ekki.

Í sannleika sagt trúi ég ekki Björgólfi - ímynd hans, sem hann reyndi að endurreisa, er í algjörri rúst og verður ekki púslað saman svo trúverðugt sé. Svo er það bara öllum öðrum en honum að kenna hvernig fór. Bara ef Seðlabankinn hefði látið hann fá meiri pening, þá hefði allt gengið - svo sagði Björgólfur.

Eitt er víst: Björgólfur, hinn iðrandi syndari, lenti í móðu, algjörum villigötum, og týndi sjálfum sér í græðginni. Hann hefði getað gert margt til að snúa málum á annan veg fyrir þónokkru en gerði ekki neitt, sukkaði í botn og iðraðist yfir falli sínu.

Ekki veit ég hvort Björgólfur eða aðrir yfirstjórnendur hrunsins muni rétta sinn hlut eða rísa upp úr öskustónni. En þeir eru ærulausir í þessu samfélagi. Svo mikið er ljóst.

mbl.is Björgólfur gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálft ár vinstristjórnar - óleystu verkefnin

Ekki verður séð að vinstristjórnin hafi náð miklum árangri í verkum sínum, en sex mánuðir eru á morgun liðnir frá því að hún tók við völdum. Ekki er beinlínis hægt að segja að stórkostlegur árangur hafi náðst og vandamálin séu nær algjörlega óleyst. Afleitur samningur um Icesave, þar sem illa var staðið að málum og komið með heim með samning sem ómögulegt er fyrir þjóðina að sætta sig við.

Ekki verður séð að vinstristjórnin hafi staðið fyrir miklum þáttaskilum í íslenskum stjórnmálum. Yfirgangur framkvæmdavaldsins í garð löggjafarvaldsins hefur aldrei verið meiri en í þessari ríkisstjórn. Sannfæring þingmanna er völtuð niður miskunnarlaust, eins og sást í ESB-málinu og hefur glitt í hvað varðar Icesave-málið.

Vinstri grænir eru orðnir sérfræðingar í að taka þátt í því að gleypa sannfæringu sína í lykilmálum fyrir völdin á mettíma. Hverjum dettur í hug nú að segja að Steingrímur J. standi við sannfæringu sína og pólitískar hugsjónir, sé staðfastur baráttumaður og standi í lappirnar. Hann hefur staðið sig illa og fallið á prófinu hvað eftir annað.

Fyrsti mánuður vinstristjórnarinnar fór í að moka út úr Seðlabankanum. Endurvinna þurfti trúverðugleika var sagt. Hvar er staðan þar? Jú, sá sem mótaði stefnuna sem Seðlabankinn hefur unnið eftir í fjöldamörg ár var ráðinn seðlabankastjóri. Mikið afrek það. Var ekki sagt að allt myndi lagast ef þar yrði tekið til?

Eftir hálft ár eru vandamálin að mestu leyti óleyst. Mikið af klúðri hefur orðið á vakt þeirra sem ætluðu að breyta öllu og bæta. Verst af öllu er að gamaldagspólitík vinstriaflanna er algjör. Þeir hafa aukið mátt framkvæmdavaldsins og koma fram við Alþingi af skammarlegum yfirgangi.

mbl.is Algjört hrun í afkomu ríkissjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband