Umferðarslys og Hvalfjarðargöng

Mikil mildi er að vel fór í Hvalfjarðargöngunum áðan í þriggja bíla árekstri. Ég man vel eftir því að áður en göngin voru vígð var mikil talað um að þau yrðu slysagildra og varla treystandi að keyra þar um. Hrakspárnar voru miklar.

Eftir áratug hafa fá alvarleg slys verið þar og meira að segja þeir sem vöruðu við göngunum keyra þau frekar en fara Hvalfjörðinn. Þau hafa reynst trygg og traust - góður samgöngumáti.

Eflaust munu þau verða enn traustari samgöngumáti þegar hliðargöng verða komin í fyllingu tímans.

mbl.is Umferð beint um Hvalfjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður sannfæring Ögmundar snarbeygð?

Brátt ræðst hvort Ögmundur Jónasson verði hetja þeirra sem vilja jarðsyngja afleitan Icesave-samning Svavars Gestssonar og Steingríms J. Sigfússonar eða snarbeygður kokgleypir Samfylkingarinnar, sem þarf að gefa eftir sannfæringu sína í einu mesta hitamáli síðustu áratuga, væntanlega lýðveldissögunnar allrar. Ögmundur hefur lagt margt undir með því að taka slaginn. Falli hann á sverðið til að bjarga ríkisstjórninni, bjarga andliti Samfylkingarinnar og heilagrar Jóhönnu frá niðurlægjandi ósigri verður lítið eftir af hugrekki eða pólitískum sannfæringartóni Ögmundar.

Sífellt betur kemur klofningur vinstri grænna í þessu mikla hitamáli í ljós, fyrst og fremst átök Ögmundar við Steingrím J. Sigfússon og helstu stuðningsmenn hans, sem hafa kokgleypt pólitíska sannfæringu sína fyrir völdin og bitlinga. Örlög þeirrar baráttu fylgir með í þeim slag um sannfæringu þingmanna sem fram fer bakvið tjöldin. Ögmundur og fleiri þingmenn vinstri grænna beygðu sig í ESB-málinu en eiga augljóslega erfitt með að sætta sig við ofurefli Samfylkingarinnar í þessu máli, máli sem ræður örlögum flokka og stjórnmálamanna um árabil, tel ég.

Vinstri grænir eru lemstraðir eftir þetta samstarf. Þegar eitthvað bjátar á kemur Jóhanna fram og hótar, eftir fylgir svo Össur yfirformaður og talsmaður Samfylkingarinnar þegar hinn ósýnilegi forsætisráðherra er ekki til staðar. Þetta eru undarleg vinnubrögð og minna frekar á farsa en alvöru stjórnmál á örlagatímum.

Ögmundur á eflaust erfitt val fyrir höndum; hvort valdastólar eða sannfæring sé heiðarlegra hnoss í pólitísku lífi hvers stolts manns.


mbl.is Ríkisstjórn á suðupunkti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölskylda rifin upp með rótum

Borghildur Guðmundsdóttir stóð sig mjög vel í Kastljósi kvöldsins þegar hún talaði um þá afarkosti sem blasa við henni, að þurfa að rífa börn sín upp með rótum úr íslensku samfélagi og halda til Bandaríkjanna - án þess að hafa atvinnu- eða dvalarleyfi.

Hef mikla samúð með henni, enda eru aðstæðurnar mjög vondar og eiginlega verið að rífa fjölskylduna alla upp og haldið út í algjöra óvissu, sérstaklega fyrir hana þar sem alls óvíst er hvað gerist þegar hún þarf að fara úr landi eftir 90 daga.

Mér finnst þetta svolítið hranaleg vinnubrögð, enda er fjarri því augljóst að hún geti náð að koma undir sig fótfestu í Bandaríkjunum í þeim þrönga tímaramma, þegar hún hefur ekki einu sinni efni á farseðlunum.

Þetta var gott viðtal og ég tel að Borghildur hafi staðið sig vel. Vona að henni takist að klára þetta mál vel miðað við þessar erfiðu aðstæður.

mbl.is Íslenskri fjölskyldu vísað úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband