Vandræðalegt fyrir Sigmund Erni og Samfylkinguna



Ég er ekki undrandi á því að þingflokksformaður Samfylkingarinnar hafi rætt stórundarlega framkomu Sigmundar Ernis Rúnarssonar, alþingismanns, á þingfundi í síðustu viku, við þingmanninn enda er málið vandræðalegt ekki síður fyrir flokkinn en Sigmund persónulega.

Eins og ég hef bent á er eðlilegt að velta fyrir sér hvort þingmaðurinn hafi verið ölvaður eða ekki starfi sínu vaxinn eftir framkomuna. Allir sem horfa á klippuna hér fyrir ofan hljóta að velta fyrir sér hvað sé að þingmanninum... hvað sé eiginlega málið með hann.

Þetta er óásættanleg framkoma, tel ég, á Alþingi, sérstaklega í mikilvægu máli á borð við Icesave. Hafi þingmaðurinn ekki verið ölvaður er eðlilegt að velta fyrir sér hvað hann sé að fara með framkomu sinni. Forsætisnefndin á auðvitað að ræða þetta.

Hvernig er hægt að gleyma fjórum milljörðum?

Ég man í svipinn varla eftir vandræðalegri mistökum en þeim að Lögmannsstofan hafi gleymt að lýsa fjögurra milljarða kröfu í Straum fyrir lífeyrissjóðinn Stapa hér á Akureyri. Þvílíkt endemis klúður - er hægt að hafa þetta vandræðalegra? Hvernig er það annars... hver á að taka ábyrgðina á þessum mistökum muni aðrir kröfuhafar ekki taka þessa kröfu gilda?

Ætlar Lögmannsstofan að taka það á sig eða yfirstjórn Stapa sem fylgdi málinu ekki eftir? Þetta er klúður af stærra taginu... sem ekki gleymist í bráð. Hvernig er hægt að gleyma fjórum milljörðum sisvona?

Dorrit og demantaveröldin

Mér finnst það virðingarvert að óskarsverðlaunaleikkonan Kate Winslet vilji leggja heimildarmyndinni Sólskinsdrengurinn lið. Kate er besta leikkona sinnar kynslóðar og hefur þann stjörnuljóma sem myndin þarf á að halda til að vekja athygli. Þátttaka hennar er til vitnis um hversu traustur karakter leikkonan er og hversu mjög henni er umhugað um málstaðinn og það sem fjallað er um í þessari vönduðu heimildarmynd.

Dorrit Moussaieff á heiður skilið fyrir að hafa náð að tryggja þátttöku Kate Winslet. Sambönd hennar meðal hinna frægu og ríku eru væntanlega óumdeild. Mikið hefði ég samt viljað að hún hefði beitt sér jafn ötullega bakvið tjöldin í Icesave-deilunni og reynt að milda átökin þar. En kannski eru samböndin bara í demantaveröldinni, ekki það að slíkt sé slæmt, heldur hefðu pólitísk sambönd skipt þjóðina ekki síður máli.

Einar Már Guðmundsson, skáld, hitti naglann á höfuðið í góðri ræðu á fundi um Icesave fyrr í þessum mánuði þegar hann spurði hvar sambönd forseta Íslands á alþjóðavettvangi væru, þegar á þeim væri virkilega þörf, þegar á reyndi fyrir þjóðina. Hann spurði hvort þau sambönd væru bara meðal demantafólksins sem Dorrit þekkti. Skarplega ályktað.

En kannski mátti Dorrit ekki beita sér í Icesave-málinu fyrir Ísland... bannaði ekki forsetinn henni að tala þegar hann var í viðtali sem endaði í hálfgerðu rifrildi fyrir framan blaðamanninn.


mbl.is Dorrit fékk Kate Winslet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlögin ráðast brátt í Icesave-málinu



Örlögin ráðast brátt í hinu risavaxna Icesave-máli í þingferlinu. Sögusagnir eru um að Bretar og Hollendingar ætli að sætta sig við fyrirvarana en fá þeim hnekkt fyrir dómi þegar á þá reynir. Þeir eru þá í raun orðnir marklausir eða haldlitlir í besta falli. Nú reynir á hvort þingið skerpir á fyrirvörunum eða kemur með einhverja lausn sem hentar þingmeirihlutanum í málinu.

Óþarfi er að minna þingmenn á að afstaða þeirra í þessu máli mun elta þá lengi... þarna er spilað með örlög þjóðarinnar næstu áratugi. Verði þeim á skrifast mistökin á þá sem samþykktu málið með haldlitlum fyrirvörum. Eðlilegt er að þingmenn reyni að vinna að sem hagstæðustu niðurstöðu fyrir Ísland og fólkið í þessu landi.

Eðlilegt er á lokaspretti þingumræðunnar að benda á góða klippu sem sýnir vel þá hringekju sem leiðtogar stjórnarflokkanna tóku fyrir og eftir undirskrift þessa afleita samnings sem Svavar Gestsson skrifaði undir því hann vildi ekki hafa þetta mál lengur hangandi yfir sér, eins og hann orðaði svo smekklega.

Fáir hafa tekið meiri áhættu í þessu máli en Steingrímur J. Sigfússon sem hefur tekið marga hringi frá því að hann varð ráðherra og beygt af leið sannfæringar og hugsjóna fyrir völdin.

mbl.is Funda um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband