Vonbrigði í Finnlandi

Mikil vonbrigði eru að stelpunum hafi mistekist að komast í átta liða úrslitin á EM í Finnlandi. Þær spiluðu mun betur í dag en í leiknum gegn Finnlandi en það dugði einfaldlega ekki. Auðvitað vonuðu allir að árangurinn yrði betri á þessari fyrstu úrslitakeppni íslensks knattspyrnulandsliðs. Væntingarnar voru miklar og því er áfallið eflaust meira.

En stelpurnar geta samt verið stoltar yfir því að komast á mótið. Staða kvennaboltans hefur styrkst mikið hér á Íslandi á síðustu árum vegna velgengni landsliðsins. Þær hafa byggt upp traust og gott lið og það starf heldur áfram þrátt fyrir vonbrigðin miklu í Finnlandi.

mbl.is Ísland úr leik á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málefnaleg orðræða er mikilvægari en ofbeldi

Ég er sammála Hannesi Hólmsteini að við eigum frekar að stunda orðræðu og málefnalega gagnrýni frekar en beita ofbeldi. Mér finnst þeir sem beita ofbeldi frekar auvirðilegir, ef það er þeirra eina leið til að tjá sig. Aðförin að Hannesi Hólmsteini dæmir sig sjálf... hún er frekar lágkúruleg. Ég skil vel að reiði sé í samfélaginu, en það er miklu heillavænlegra að beina henni í farveg málefnalegrar orðræðu og tjáskipta, heldur en að skemma eigur fólks eða ráðast að því.

Allir vita að Hannes Hólmsteinn Gissurarson er umdeildur maður, rétt eins og svo margir fleiri í þessu samfélagi. Þeir sem telja Hannes Hólmstein stóra sökudólginn í þeirri vitfirringu og brjálæði sem gekk hér á fram að hruninu eru á villigötum. Eflaust eru margir ósammála skoðunum hans, en ofbeldi gegn honum og þeim skoðunum er frekar ómerkilegt og dæmir sig eflaust sjálft.

Öllum er frjálst að hafa sínar skoðanir og tjá þær. Málefnaleg gagnrýni og heiðarleg skoðanaskipti eru samt miklu líklegri til árangurs en ofbeldið.

mbl.is Aðsúgur að Hannesi Hólmsteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undrabarnið missir ofurlaunin

Þegar Jón Sigurðsson varð forstjóri FL Group, þegar Hannesi Smárasyni var sparkað út, var hann nefndur undrabarnið. Ofurlaunavitleysunni var samt haldið áfram og undarlegt að fyrst nú ári eftir hrunið sé tekið á þeim vinnubrögðum sem viðgengist hafa í ráðningarsamningum sem eru fjarri öllum veruleika ársins 2009.

Þetta er eitthvað svo 2007 þessi vitleysa sem hefur viðgengist og ætti að heyra sögunni til. Þetta er ágætt fyrsta skref í þeim efnum og ekkert óeðlilegt að sjálft undrabarnið taki á sig árið 2009.


mbl.is Laun framkvæmdastjóra Stoða lækka um 70%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Ernir biðst loksins afsökunar

Sigmundur Ernir Rúnarsson, alþingismaður, gerir rétt í því að biðjast afsökunar á dómgreindarleysi sínu og alvarlegum mistökum í þingsal fyrir viku. En það gerir hann nokkrum dögum of seint og eftir vandræðalegar tilraunir til að fara með málið út í móa. 

Vörnin um að hann hafi ekki kennt áhrifa af drykkju og hann hafi aðeins drukkið tvö rauðvínsglös var pínleg í meira lagi - stórundarlegt að vanur fjölmiðlamaður skuli hafa haldið að ráðlegt væri að svæfa málið með því að ljúga sig út úr því.

Með því að leggja spilin á borðið styrkir hann stöðu sína vissulega... hann er samt skaddaður á eftir. Bæði það að fara á þetta golfmót í boði banka og fara svo til vinnu slompaður er dómgreindarleysi hjá þingmanni.

Þetta er örugglega ekki þau nýju vinnubrögð sem við krefjumst af nýjum þingmönnum... en það er líka kominn tími til að setja siðareglur sem taka á svona málum.

Lágmarkskrafa er að þingmenn mæti til vinnu edrú og séu með á hvað þeir eru að segja og gera... þetta er skammarlegur barnaskapur hjá fullorðnu fólki.


mbl.is Sigmundur Ernir baðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifir Jackson eftir dauðann eins og Presley?

Sögusagnir um að Michael Jackson hafi stigið út úr líkbíl eftir dauða sinn fyrir tveimur mánuðum minnir ískyggilega á hinar lífseigu kjaftasögur um að Elvis Presley, fyrrum tengdafaðir hans, hafi ekki dáið í ágúst 1977 heldur lifi góðu lífi fjarri Graceland - hafi sviðsett dauðann til að eiga notaleg efri ár. Spurning hvort Jackson hafi viljað líf utan sviðsljóssins og sett allt heila dæmið af stað sem show til að auka vinsældir sínar og styrkja stjörnustöðu sína eftir alla erfiðu skandalana.

Þetta er svo fjarstæðukennt að það hljómar eflaust satt fyrir einhverja. Margir trúðu því virkilega í fjöldamörg ár að Presley hafi lifað góðu lífi eftir dauðann: gerðir voru þættir og skrifaðar bækur þar sem reynt var að styrkja þessa samsæriskenningu... sem var samt svo brjálæðislega absúrd og vitlaus. Sama leikinn á nú að reyna að leika eftir með Jackson.

Efast um að Jackson hafi viljað allt setja á svið allt showið sem hefur fylgt eftir dauðann.... allar kjaftasögurnar um einkalíf hans og börnin sem grasseruðu upp á sömu stund og fleiri keyptu plöturnar hans, hlustuðu á lögin hans og rifjuðu upp stjörnuljómann sem var löngu gleymdur. Held að þessi samsæriskenning sé jafn absúrd og var með Elvis.

Nema þá að þetta sé allt eitt show.... en heldur betur þarf að spinna vel til að geta leikið þann leik með alla þátttakendur frá upphafi til enda á réttum stað í réttri rullu.


mbl.is Jackson lifandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband