Siðlaus verknaður - aðför að einkalífi fólks

Árásin á hús Rannveigar Rist og annars fólks að undanförnu er siðlaus verknaður. Aðför að einkalífi fólks ber að fordæma. Hafi einhverjir eitthvað að athuga við verk Rannveigar er miklu betra að mótmæla við vinnustað hennar eða skrifa greinar gegn því sem þeir telja athugavert. Árás á húsnæði Rannveigar er árás á einkalíf hennar, eiginmann og börn hennar. Þar er ekki bara ráðist að einni manneskju.

Þeir hafa veikan málstað fram að færa sem ráðast svona að fólki. Þetta er algjör aumingjaskapur... árás í skjóli nætur, árás frá fólki sem þorir ekki að standa við skoðanir sínar.

mbl.is Skrifuðu illvirki á húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfellisdómur yfir ríkisstjórn og Seðlabanka

Álit Hagfræðistofnunar um Icesave-málið er risastór áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og Seðlabanka Íslands. Skýrsla Seðlabankans er reyndar alveg hökkuð í spað og kemur í ljós að hún var pólitískt pantað álit fyrir forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann til að reyna að koma þessu Icesave-máli gegnum þingið. Æ betur verður augljós sú staðreynd að Íslendingar munu ekki geta staðið undir skuldbindingum vegna Icesave.

Auðvitað er það rétt hjá Hagfræðistofnun að hér verður fólksflótti að óbreyttu. Þetta er það sama og Eva Joly sagði í góðri grein sinni um helgina.... grein sem varð til þess að hún var rökkuð niður af spunameistara og upplýsingafulltrúa Jóhönnu Sigurðardóttur. Enn hefur forsætisráðherrann ekki komið fram og sett ofan í við aðstoðarmann sinn. Ekki er einu sinni reynt að lágmarka skaðann hjá þessu liði.

Þetta var reyndar vondur dagur fyrir þessa arfaslöku vinstristjórn, sem virðist endanlega að spila út. Fyrir utan að vinnubrögð Jóhönnu og Steingríms eru tætt niður lið fyrir lið í skýrslunni ræður viðskiptaráðherrann sér aðstoðarmann úr Landsbanka Björgólfsfeðga sem hjalaði útrásartóninn allt þar til hrundi yfir hann og félagsmálaráðherrann staðfestir loks að skjaldborgin fyrir almenning er engin.

Þetta er ekki beysið. Þessi vinstristjórn er að fjara út hraðar en jafnvel svartsýnustu menn spáðu fyrirfram.


mbl.is Mesta hættan fólksflótti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband