Virðingarleysi fyrir lögreglu

Enn og aftur berast fregnir af því að mótmælendur, aðgerðarsinnar, eða hvað þeir vilja kalla sig láti skap sitt bitna á lögreglunni. Í nýlegri tölfræði kom fram að árásir á lögreglumenn hefðu sjaldan eða aldrei verið fleiri en síðasta árið. Virðingarleysið fyrir lögreglunni virðist stundum algjört. Aðförin að henni í mótmælunum í janúar var lágkúruleg og engum til sóma, enda var augljóst að samhugur með lögreglunni jókst í kjölfarið.

Þeir sem þar starfa eru aðeins að sinna sinni vinnu og hafa ekkert af sér gert til að verðskulda slíka lágkúru. Ég vona að flestir sjái að lögreglan vinnur fyrir okkur öll og á að njóta virðingar landsmanna.

mbl.is Sparkað í höfuð lögreglumanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar gefa ekki eftir - samningur úr sögunni

Æ augljósara verður að Icesave-samningurinn hefur ekki stuðning á Alþingi. Hann hefur í raun verið sleginn út af borðinu með öllu tali um fyrirvara og breytingar. Illa var haldið á málum af samninganefnd Svavars Gestssonar - mörg alvarleg mistök gerð í samningsferlinu sem verða Íslandi dýrkeypt.

Enn verra er að hlusta á fjármálaráðherra neita að viðurkenna mistökin og þess í stað verja þau, vinna þar með gegn hagsmunum Íslands. Enn undarlegra er að sá maður kenni öðrum um samninginn sem er á pólitískri ábyrgð hans. Kastljósviðtalið við Steingrím J. var hálfgerð tragedía.

Nú er ljóst að Bretar munu ekki breyta samningnum. Varla furða svosem. Þeir höfðu fullnaðarsigur í baráttunni við lélega samninganefnd frá Íslandi og munu ekki beygja sig. Íslensk mistök í þessu samningsferli eru dýrkeypt og hafa mikil áhrif á framtíð málsins.

Ef einhver bógur væri í íslenskum stjórnvöldum myndu þau fara eftir heillaráðum Evu Joly og reyna að landa þessu máli með diplómatískum aðferðum þegar ljóst er að Icesave-samningurinn hefur ekki stuðning á Alþingi.


mbl.is „Það er búið að semja!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarahreyfingin splundrast á mettíma

Á örfáum mánuðum hefur Borgarahreyfingin koðnað niður í innri ólgu og átök - hefur sett Íslandsmet í sundrungu og ósamstöðu. Þetta eru pínleg örlög hreyfingar sem ætlaði eflaust að vera þekkt fyrir eitthvað annað en innri klofning - gat ekki enst sumarþingið einu sinni án þess að splundrast upp á Alþingi. Illa er komið fyrir fjögurra manna þingliði sem getur ekki haldið saman lengur en hálft ár.

En varla kemur þetta samt að óvörum. Þegar varð ljóst í maímánuði að innri mein voru undir niðri í hreyfingunni. Þau hafa samt sligað hreyfinguna og þinghópinn sérstaklega mun fyrr en flestum óraði fyrir.

Þegar ég skrifaði þessa grein í maí sá ég fyrir að Borgarahreyfingin lifði ekki kjörtímabilið... en átti varla von á að þetta yrði orðið svona súrt fyrir sumarlok.

En við hverju var að búast af hreyfingu sem myndaðist utan um óánægju og fá stefnumál, almennt orðuð.

mbl.is Enginn þingmaður mætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband