Magnús Árni víkur - hvað varð um Sigmund?

Magnús Árni Skúlason átti að segja sig úr bankaráði Seðlabankans fyrr í dag, þegar ljóst var að honum væri ekki sætt, frekar en reyna að koma sér úr vandanum með pínlegum afsökunum og ásökunum í garð blaðsins sem sagði frá staðreyndum málsins. En hvað varð um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins? Af hverju tók hann ekki fyrr á þessu máli með því að slá það út af borðinu þegar um hádegisbil.

Þetta er vandræðalegt mál fyrir Framsóknarflokkinn og hinn nýja formann. Hann átti að klára þetta mál sjálfur en ekki láta það dankast gegnum daginn og bíða eftir að Magnús Árni viki sjálfur með vandræðalegri tilkynningu sem viðurkennir ekki pínleg vinnubrögð hans og er í ásökunartón gagnvart fjölmiðlum.

Framsókn reynir að hreinsa sig af spillingarstimpli en er samt á bólakafi í svo pínlegu máli. Nýr formaður var hvergi sýnilegur í umræðunni við að klára það fumlaust og traust.

mbl.is Fer fram á lausn frá störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu þingmennirnir yfirgefa Borgarahreyfinguna?

Vandséð er hvernig Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari geti verið þingmenn Borgarahreyfingarinnar áfram eftir ósigur þeirra í kosningu um lög hreyfingarinnar. Niðurstaðan virðist fela í sér að hreyfingin sé algjörlega ótengd þingmönnunum, enda verða þeir að velja á milli hreinna afarkosta og lögum sem þau geta ekki samþykkt.

Í raun má segja að hreyfingin hafi liðið undir lok í deilumáli Margrétar og Þráins Bertelssonar fyrir nokkrum vikum - eftir það hefur hún varla verið starfhæf og óeiningin augljós bak við tjöldin. Þingmennirnir standa nú frammi fyrir því að vinna eftir lögum sem þau telja óaðgengileg eða fara ella úr hreyfingunni.

Fari þingmennirnir burt er hreyfingin í raun búin að vera enda hefur hún þá ekki lengur nein tengsl við þingið og stendur eftir sem hópur þeirra sem standa utan þingflokksins. Þetta eru kostuleg endalok á grasrótarframboðinu, sem fór úr tengslum við grasrótina á innan við hálfu ári.

mbl.is Tillaga þingmanna féll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sættir Framsókn sig við svona vinnubrögð?

Vandséð er hvernig Magnús Árni Skúlason geti setið áfram í bankaráði Seðlabankans eftir uppljóstranir um vinnubrögð hans. Nú reynir á hvernig hin nýja forysta Framsóknarflokksins tæklar svona vandræðalegt mál, hvort þeir sætta sig við verklagið eða taka á svona vandræðamáli ákveðið og fumlaust strax. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er sem formaður Framsóknarflokksins í þeirri stöðu að verða að taka af skarið strax, af eða á með bankaráðsmanninn.

Fyrir nokkrum mánuðum var gerð tillaga um Magnús Árna í annað sætið á framboðslista Framsóknar í Reykjavík norður - Sigmundur Davíð stillti honum upp í sætið á eftir sér. Eins og flestir muna fór Alfreð Þorsteinsson þar í pontu og gerði út af við uppstillinguna með þeim orðum að óþarfi væri fyrir Framsókn að sækja inn spillingu í flokkinn. Magnús Árni dró framboðið til baka.

Þetta er vandræðaleg staða fyrir Framsóknarflokkinn - flokk sem hefur á bakinu gamlan spillingarstimpil og hefur reynt mjög ákveðið að hreinsa hann af sér, t.d. með kynslóðaskiptum í forystu og flestir forystumenn gömlu tímanna hafi vikið af sviðinu. Þarna reynir á hvort það var ekta eður ei.


mbl.is Gegn markmiðum Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband