Ósýnilegi forsætisráðherrann

Ég er ekki undrandi á því að traust á Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, hafi hrunið á hálfu ári. Hún hefur verið algjörlega ósýnileg í embættisverkum sínum, talar ekki til þjóðarinnar og lokar sig af með fámennri hjörð samstarfsmanna. Hún hefur það ekki í sér að leiða þjóðina á örlagatímum, tala hreint út og koma fram sem sterkur leiðtogi þegar þörf er á honum.

Þetta er sláandi fall fyrir eina manneskju, sem hefur verið á þingi í yfir þrjá áratugi en hefur samt sem áður notið mikils trausts. En ég veit líka að margir væntu mikils af henni og hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum. Hún er að sligast í þessu embætti og ekki bætir úr skák fælni hennar við fjölmiðla, sem gerir það að verkum að hún virkar einangruð og fjarlæg.

Varla er við því að búast að hún tolli lengi úr þessu í embætti ef hún tekur sig ekki á - fer að tala til þjóðarinnar og standi undir því umboði sem henni var veitt í síðustu þingkosningum.

mbl.is Steingrímur nýtur mest trausts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðlaus verknaður - aðför að einkalífi fólks

Þeir sem ráðast að fólki í skjóli nætur eru í hefndarþorsta af einhverju tagi... vilja ráðast að einum manni en gleyma að bakvið hann eru fjölskylda og nágrannar sem ekkert hafa gerst af sér. Held að það hljóti að vera ömurleg lífsreynsla að tengjast þeim sem verður fyrir svona siðlausri aðför og þeir sem búa nærri hljóta að verða fyrir áfalli ekki síður.

Aðför að einkalífi fólks ber að fordæma. Hafi einhverjir eitthvað að athuga við verk þeirra sem ráðist er að er miklu betra að mótmæla með því að skrifa greinar gegn því sem þeir telja athugavert. Árás á húsnæði eins manns er árás á einkalíf hans, eiginkonu og börn. Þar er ekki bara ráðist að einni manneskju.

Þeir hafa veikan málstað fram að færa sem ráðast svona að fólki. Þetta er algjör aumingjaskapur... árás í skjóli nætur, árás frá fólki sem þorir ekki að standa við skoðanir sínar.

mbl.is Nágrönnum auðmanna líður illa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir heldur dauðahaldi í síðustu leifarnar

Nú blasir við að verslunarveldi Baugsfeðga verði tekið upp í skuldir. Þetta eru óumflýjanleg endalok fyrir menn sem eiga ekkert nema skuldir og verða að gera upp sínar skuldir. Fjarstæða er að setja reksturinn hér heima út fyrir sviga og eðlilegt að spurt sé hvort þeir séu borgunarmenn fyrir skuldum. Nú reynir á það þegar kröfuhafar reyna að taka verslunarveldið til að fá upp í skuldir.

Jón Ásgeir virðist enn í afneitun yfir hruni viðskiptaveldisins - viðtalið við hann í kvöld vekur spurningar um hvort hann sé að grínast í þjóðinni eða sé hreinlega í algjörri veruleikafirringu. Ekki getur hann kennt Davíð Oddssyni og Sjálfstæðisflokknum um þetta núna. Svona er það þegar menn missa andstæðinga sína... stundum sjá þeir eftir þeim.

Þetta er eðlilegur endir á flugi Baugsfeðga... allt tekur enda um síðir. Flóttinn frá skuldunum er dæmdur til að mistakast... þeir verða að taka skellinn á sig.


mbl.is Jón Ásgeir: Stenst enga skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband