18.9.2009 | 20:45
Jóhanna fjarlæg og einangruð í fílabeinsturni
Aum er sú smjörklípa Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að kenna stjórnarandstöðunni um að trúnaður stjórnarinnar við Breta og Hollendinga hélt ekki. Jóhanna hefur sjálf misst málið úr höndum sér... í gærkvöldi sagði hún hægt að afgreiða Icesave-breytingar í dag, framhjá þinginu. Veruleikafirring forsætisráðherrans var algjör þá - hverjum dettur í hug að hægt sé að keyra málið áfram framhjá þinginu sem hefur sett lög um fyrirvarana, sem heild, sem hafnað var.
Ég vorkenni Jóhönnu. Henni hefur algjörlega mistekist það verkefni sem henni var falið... að verða leiðtogi sem stappaði stálinu í þjóðina og tæki af skarið í mikilvægum málum. Í staðinn hefur hún hopað inn í skel sína og er umkringd örfáum spunakörlum og samstarfsmönnum sem ekkert umboð hafa.
Þjóðin bar eitt sinn mikið traust til Jóhönnu en það gengur hratt á þann stuðning þessa dagana. Ofrausn er að búast við að þjóðin sætti sig við verkstjórn hennar mikið lengur - hún er ekki á vetur setjandi.
![]() |
Trúnaðarbrestur stjórnarandstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2009 | 20:37
Burt með leyndina - hvar er gegnsæið?
Vil annars hrósa InDefence fyrir að hafa verið á vaktinni í mikilvægum málum að undanförnu, sérstaklega Icesave... þar sem full þörf var á samtökum sem þora að hafa skoðanir og eru skipuð fólki sem hugsar um hagsmuni Íslands og sættir sig ekki við leynd og bakherbergja vinnubrögð stjórnvalda í Icesave-málinu frá hruninu.
![]() |
Segja stjórnvöld leyna Icesave-gögnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2009 | 15:30
Ólafur rekinn af Mogganum - Davíð ritstjóri?
Hávær orðrómur er um að Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, verði ritstjóri Morgunblaðsins í kjölfarið. Talað hefur verið um það í mörg ár sem möguleika að hann tæki við blaðinu. Ekki er það ósennilegt eins og staðan er nú að hann snúi aftur, enda lipur og góður penni.
![]() |
Ólafur lætur af starfi ritstjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2009 | 14:45
Borgarahreyfingin fuðrar upp á fimm mánuðum
Innan við fimm mánuðum eftir að Borgarahreyfingin náði fjórum mönnum á þing er hún orðin áhrifalaus - búin að missa þingmennina og öll tengsl inn á Alþingi. Þetta er mikið afrek, ein mesta sjálfstortímingarherferð í íslenskri stjórnmálasögu. Allir hafa lagt drjúga hönd á plóg í þessum endalokum. Egó þeirra sem tókust þar á var meira en hreyfingin gat þolað.... svo fór sem fór.
Þingmennirnir reyna nú að byggja upp nýja hreyfingu á bakvið sig - til að tryggja sér eitthvað pólitískt bakland í komandi verkefnum. Þar eru þau að mestu ein á báti og verða eflaust að hafa sig öll við til að halda velli lengur en kjörtímabilið, sem verður eflaust mjög stutt.
Fjórflokkurinn hefur aldrei staðið betur að vígi, tel ég. Í vor var árangur Borgarahreyfingarinnar talin boða stórtíðindi í íslenskri pólitík. Fimmti flokkurinn er gufaður upp og æ líklegra að þingmennirnir þrír endi í einum fjórflokkanna fyrr en síðar... ætli þau sér að halda þingsætunum lengur.
Þeir sem kusu Borgarahreyfinguna sem framtíðarafl eða tákn nýrra tíma hafa eflaust orðið fyrir vonbrigðum og sjá eftir að hafa kosið afl sem ekkert lím var í.
![]() |
Klofningur í Borgarahreyfingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2009 | 14:30
Auðvitað fer Icesave aftur inn í þingið
Mér finnst meira en lítið undarlegt að Steingrímur J. Sigfússon viðurkenni ekki sem staðreynd að Icesave-málið verði að fara aftur fyrir þingið. Fyrirvararnir voru festir í lög á Alþingi - allar breytingar verða að fara fyrir þingið til umræðu. Ríkisstjórnin hefur ekkert umboð til að breyta þeim einhliða eða sveigja fyrirvarana eftir þeirra hentugleikum. Þingræðið hefur forgang.
Alveg er það kostulegt að það fólk sem talaði fjálglega um þingræðið og virðingu Alþingis tali með þeim hætti að líklegt sé að þetta fari fyrir þingið. Sumir töluðu reyndar þannig í gær að fjárlaganefnd ein gæti tekið málið fyrir. Sumir hafa ekkert lært.
![]() |
Það er kominn september |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2009 | 00:50
Fyrirvörum hafnað - Icesave aftur til Alþingis
Alþingi var að störfum í allt sumar við að klára þetta mál. Þar tókst að breyta afleitum samningi Svavars Gestssonar umtalsvert - betrumbæta hann svo hugsað væri um íslenska hagsmuni. Þeir fyrirvarar voru lögfestir sem heild. Höfnun á einum eða fleiri lið laganna túlkast sem höfnun á íslenskum þingvilja. Með því fer málið auðvitað á upphafsreit, annað hvort fyrir þingið eða í nýjar samningaviðræður.
Ríkisstjórnin getur ekki túlkað sem smáatriði algjöra höfnun á einum veigamesta lið Icesave-málsins eins og það var samþykkt á Alþingi. Ártalið 2024 var traust skilaboð frá Alþingi um að málið yrði fest í allavega fimmtán ár, sem er allnokkur tími, og svo samið að nýju um það sem eftir stæði. Þetta var leið Alþingis til þess að koma í veg fyrir að Ísland yrði fest í skuldafangelsi áratugum saman.
Nú ræðst hvort ríkisstjórnin virðir þingviljann eða beygir hann algjörlega í duftið. Ekki á að gefa neinn afslátt í þessu máli. Látum ekki þessar þjóðir búllíast á okkur endalaust.
![]() |
Leggjast gegn fyrirvaranum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2009 | 00:20
Glæsilegt hjá stelpunum
Þetta lið getur staðið sig feiknarvel á góðum degi. Nú er bara að segja... áfram stelpur. Gangi ykkur vel!
![]() |
Fáheyrðir yfirburðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)