Davíð Oddsson verður ritstjóri Morgunblaðsins

Nær öruggt má nú teljast að Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, verði ritstjóri Morgunblaðsins síðar í vikunni. Sögusagnir um þetta hafa magnast í dag og forsvarsmenn Árvakurs hafa ekki slegið á þær. Því þarf varla sérfræðing til að sjá að þær eiga við rök að styðjast.

Auk þess þarf varla að undrast að nýir eigendur hafi leitað til Davíðs - bæði er hann traustur og leiftrandi penni. Hann lumar á ýmsum leyndarmálum sem eflaust munu síast út í blaðið á næstunni.

Þetta eru góðar fréttir fyrir dagblaðalesendur... búast má við líflegum leiðaraskrifum í Morgunblaðinu á næstunni og væntanlega verður engin lognmolla yfir þjóðmálaumræðunni.

Þegar Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, varð ritstjóri Fréttablaðsins var mikið talað um að þungi leiðaraskrifanna og vigt þeirra hefði aukist til muna.

Ekki þarf að efast um það þegar Davíð Oddsson fer að skrifa úr ritstjórastóli í Hádegismóum.

mbl.is Ekki búið að ráða nýjan ritstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atlaga vinstriaflanna að heimilunum í landinu

Vinstristjórnin sýnir sitt innra eðli og ráðleysi með því að auka álögur á íslenskan almenning gríðarlega á næstu vikum. Þvílíkt kjaftshögg framan í fólkið í landinu. Þetta veikir stöðu almennings og ekki óvarlegt að álíta að þeir Íslendingar sem eru ekki fastir í skuldafangelsi fari hreinlega að flýja land.

Fjölmargir sitja svo eftir í fangelsi heima hjá sér skuldum hlaðin og í fjötrum ástandsins. Þvílík framtíðarsýn í boði vinstriaflanna í landinu. Þetta eykur aðeins vanda fólksins í landinu og sligar heimilin, sem nógu illa voru stödd fyrir og í raun alveg á bjargbrúninni.

Þetta eru ekta vinstrisinnaðar lausnir, fyrst og fremst skólabókardæmi um hversu veruleikafirrt liðið er sem treyst var fyrir þjóðarskútunni. Gremja almennings er auðvitað mikil. Sumir töldu virkilega að vinstriöflin myndu bjarga heimilunum í landinu.

Ekki furða að varla var stafkrókur í stjórnarsáttmálanum um heimilin í landinu og aðgerðir til lausnar vandanum. Eina úrræðið er að auka vandann um allan helming. Þvílík vinnubrögð.

Nú sjáum við í raun hvað ríkisstjórnin meinti með skjaldborginni. Það voru auðvitað bara orðin tóm; frasi í kosningabaráttu og á fjölprentuð kosningaspjöld.

mbl.is Miklar skattahækkanir í farvatninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband