Viðræður um Icesave opinberar eða í kyrrþey?

Góðs viti er að ráðherrar sendi bréf eða tali beint við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi um Icesave í stað þess að láta embættismenn um það. Ekki var það gáfulegt þegar Steingrímur J. Sigfússon sagði í gær að embættismenn myndu ræða við Breta og Hollendinga um fyrirvara Alþingis vegna Icesave-samninganna í kyrrþey!

Steingrímur vissi reyndar ekki í gær hvort hann eða forsætisráðherrann myndu taka málið beint upp í samtölum við stjórnmálamenn þar. Þvílík sorgarsaga... auðvitað eiga ráðherrar að taka málið beint upp við starfsbræður sína í stað þess að muldra bara hérna heima eða láta embættismenn um verkið.

Þessi bréfasending er gott skref... en betur má ef duga skal. Varla getur þessi stjórn setið áfram nái hún ekki að vinna fyrirvörum Alþingis stuðning í samtölum við viðsamjendur. Vilji Alþingis í Icesave-málinu er skýr og augljóst hvert verkefnið er.


mbl.is Bréf til Hollands og Bretland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fégráðugur barnsfaðir nýtir sér frægð Söru Palin

Mér finnst frekar auvirðilegt hvernig Levi Johnston, barnsfaðir Bristol, dóttur Söru Palin, fyrrum rikisstjóra í Alaska og varaforsetaefnis repúblikana, notar sér frægð hennar til að koma sér sjálfum á framfæri. Hann talar af vandlætingu um fjölskylduna sem hann hatar og sakar um yfirborðsmennsku en gleymir auðvitað að benda á þá staðreynd að hann er að skrifa sjálfur bók um þessa fjölskyldu og reyna að koma sér á framfæri utan Alaska, fá feril á silfurfati á frægð Söru. Frekar slappt.

Ég efast stórlega um að Sarah Palin sé fullkomin - hver er það annars? Er nokkuð okkar fullkomið? Ekki virðist frægð hennar dvína þó hún hafi látið af ríkisstjórastarfi í Alaska. Frjálslyndir líta greinilega á Söru sem ógn pólitískt... altént er síður minna talað um hana og verk hennar þó hún sé ekki lengur í pólitískt kjörnu embætti. Greinilegt er að demókratar líta á hana sem skaðlegan andstæðing í aðdraganda þingkosninga og forsetakosninga 2012.

Vissulega beinast sjónir flestra þó að 2012. Þrátt fyrir miklar vangaveltur eru þeir ekki svo margir sem eiga alvöru séns á útnefningu repúblikana þá; Mitt Romney, Mike Huckabee, Tim Pawlenty og Sarah. Sé ekki að aðrir blandi sér í það nema þá eitthvað mjög mikið muni gerast. Flest bendir til að Sarah Palin standi þar vel að vígi og muni leika lykilhlutverk í að byggja upp Repúblikanaflokkinn.

mbl.is „Palin á fátt sameiginlegt með ímyndinni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Helgason kjörinn formaður Heimdallar

Ég vil óska Árna Helgasyni til hamingju með sigurinn í formannskjörinu í Heimdalli, en úrslitin urðu ljós nú eftir miðnættið eftir langan aðalfund... þegar líflegri kosningabaráttu lauk í félaginu. Vissulega er það styrkleikamerki fyrir Heimdall að þar sé kosið milli frambjóðenda og þar sé mikill áhugi á að fara í stjórn. Hið allra besta mál.

Þeirra sem hlutu kjör bíður nú það verkefni að efla Sjálfstæðisflokkinn meðal ungra kjósenda og byggja hann upp til framtíðar. Ungliðahreyfingin er mikilvæg fyrir flokkinn sérstaklega nú þegar hann er í stjórnarandstöðu í fyrsta skipti í tæpa tvo áratugi og hefur fengið mikinn skell í alþingiskosningum. Þar er framtíðin í flokksstarfinu.

Eigi Sjálfstæðisflokkurinn að eflast þurfa allir ungliðar að standa sig í uppbyggingunni og hugsa um hag flokksins ofar öðru - hafa öflugt flokksstarf og gera flokkinn að traustum valkosti fyrir ungt fólk.


Bloggfærslur 3. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband