Valdapólitíkin heldur líminu í vinstristjórninni

Augljóst er að mjög hefur gengið á pólitískt kapítal vinstristjórnarinnar í dag eftir afsögn Ögmundar Jónassonar. Jóhanna og Steingrímur voru mjög þreytuleg í kvöld - mikið hefur gengið á. Samstarfið heldur enn en augljóst að límið er farið að gefa sig mjög - undirstöðurnar gliðna. Aðeins virðist valdapólitíkin lifa eftir sem lím á milli Samfylkingarinnar og VG og sumpart óttinn við að eftirmæli stjórnarinnar verði glundroði vinstrimanna á örlagastundu.

Vandræðagangurinn er samt algjör. Aldrei hefur verið full samstaða innan vinstristjórnarinnar með Icesave - samið var í júní án þingmeirihluta og sumarið fór í að klára það mál. Þar þurfti að friða alla vinstri græna og lægja öldur í ólgunni. Ögmundur lék þar lykilhlutverk. Hann hefur nú tekið hatt sinn og staf - sættir sig ekki við næstu skref og lætur ekki beygja sig. Virðingarvert það. Held að afstaða hans sé til marks um innri mein stjórnarinnar.

Þau innri mein eru meiri en látið hefur verið uppi. Þau innanmein hverfa ekki með brotthvarfi Ögmundar en magnast eflaust frekar en hitt. Ögmundur hefur nú frítt spil, enda utan ráðherrastóls og getur sagt meira. Hann hefur eflaust fjarri því sagt sitt síðasta. Ergó: stjórnin lifir en hún stendur tæpt. Þar eru mikil innanmein sem munu ekki hverfa, heldur magna.

Svo verður að ráðast hversu lengi límið heldur. Eflaust er það ofrausn að spá stjórninni löngu lífi. Vinstrimenn eru auðvitað dauðhræddir við að glundroðakenningin verði að veruleika - vinstrimönnum sé ekki treystandi fyrir neinu. En hitt er orðið augljóst mál að vinstrimenn eiga erfitt með að höndla verkefnið. Verkstjórnin er auðvitað engin og klúðrið augljóst.

mbl.is Fær Steingrímur umboð í kvöld?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk upplausn - vinstristjórn á brauðfótum

Upplausnarblær er yfir íslenskum stjórnmálum á þessum degi. Vinstristjórnin er á algjörum brauðfótum og stendur mjög illa. Ögmundur er maður að meiri að fara - sætta sig ekki við hvað sem er. Hann er hugsjónamaður sem getur borið höfuðið hátt að standa og falla með sannfæringu sinni. Jóhanna hefur greinilega látið sverfa til stáls.

Ummæli hennar í gær um að hún hefði fengið nóg báru þess merki að hún væri að tukta til vinstri græna, til að sætta sig við Icesave-breytingar án alvöru þinglegrar meðferðar. Ögmundur gerir rétt að sætta sig ekki við það. Svo verður að ráðast hvort aðrir hafa bein í nefinu.

mbl.is Var ekki að fórna sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur Jónasson segir af sér vegna Icesave

Ögmundur Jónasson á að mínu mati heiður skilið fyrir að hafa sagt af sér sem heilbrigðisráðherra vegna Icesave. Þarna fer ráðherra sem fer eftir sannfæringu sinni og lætur hugsjónirnar ráða för. Þetta er merki um drengskap og pólitískan kraft sem við höfum ekki séð lengi. Þó ég hafi oft verið ósammála Ögmundi pólitískt virði ég mikils að hann skuli hafa tekið þá ákvörðun að láta sannfæringuna ráða í þessu risavaxna máli. Hann er maður að meiri.

Þessi ríkisstjórn er mjög illa stödd í þessu Icesave-máli. Hún hefur gliðnað, virðist ráða illa við vandann. Augljóst er að þrýst er á að klára Icesave til að bjarga pólitísku andliti Jóhönnu Sigurðardóttur og Samfylkingarinnar. Ögmundur hefur þorað að taka af skarið í þessu máli, leitt andstöðu innan hennar og verið ófeiminn við að láta hjartað ráða för.

Er þessi ríkisstjórn á vetur setjandi, þegar lykilmenn innan samstarfsins geta ekki unnið hennar og velja frekar að fara en sætta sig við hvað sem er. Kannski verður Ögmundur bjargvættur VG í þessu samstarfi þar sem þeir hafa samið af sér hugsjónirnar oftar en tölu verður á komið.

mbl.is Ögmundur segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband