Dramatískt uppgjör á miklu umbrotaári

Ekki er laust við að það sé algjör gæsahúð að sjá trailerinn að myndinni Guð blessi Ísland - ekki óeðlilegt enda er myndin dramatískt uppgjör á miklu umbrotaári í sögu Íslands.... árinu þegar bankarnir féllu og pólitískur stöðugleiki varð að engu í kjölfarið. Táknrænt er að frumsýna myndina 6. október nk. þegar ár er liðið frá eftirminnilegu ávarpi Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Mér skilst að á sama tíma hefjist heimildaþáttaröð um sama umfjöllunarefni í Ríkissjónvarpinu.

Trailerinn er þess eðlis að allir munu vilja sjá þessa mynd... heyra í lykilpersónum hruns hins íslenska viðskiptalífs og pólitísku byltingunni sem fylgdi í kjölfarið... með litlum sýnilegum breytingum ári síðar, enda er enn deilt um hvað eigi að gera til hjálpar heimilunum og fyrirtækjunum í þessu landi. Við erum enn í svolítið undarlegri stöðu og alls óvíst hversu þungt áfallið verður. Sumir tala um að botni verði ekki náð fyrr en eftir einhver ár. Sjokkið sé ekki orðið algjört í þessu hruni.

Okkur öllum vantar heiðarlegt og hreinskiptið uppgjör á þessu mikla hruni, bæði með því að fræða okkur um allar staðreyndir og allt fari upp á borðið í því uppgjöri. Mikið vantar enn upp á það... enn fáum við bita hér og bita þar í hinni ógeðfelldu heildarmynd hrunsins. Enn er beðið uppgjörsskilum frá þeim nefndum og aðilum sem taka málið fyrir. Gott fyrsta skref er að fá heiðarlegt uppgjör í heimildarmyndaformi á því hvað gerðist fyrir og eftir hrun... gera upp hrunið.

Þessi mynd lofar góðu í því að gera upp anno 2008... örlagaárið mikla, og allt sem bæði fylgdi í kjölfarið og gerðist fyrir hrunið, enda augljóst að ekki er hægt að horfa til framtíðar fyrr en fortíðin hefur verið gerð upp.


mbl.is Tárfelldi yfir stiklu úr Guð blessi Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðist að velferðarkerfinu - tvöfaldur Ögmundur

Mikil aðför að velferðarkerfinu er framundan á næstu vikum - blóðugur niðurskurður á öllum sviðum, sem mun bitna mjög á viðkvæmum þáttum, bæði heilbrigðisgeiranum og menntakerfinu. Nú er það verkefni vinstrimanna að ráðast að þessum viðkvæmu þáttum og skera niður alveg miskunnarlaust. Um leið þarf vinstristjórnin að sýna loksins á spil sín í þeim niðurskurði sem hún hefur staðið frammi fyrir frá því hún tók við völdum og ákvað að gera planið hjá IMF að leiðarstefi sínu.

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra og formaður BSRB, er ekki öfundsverður í tvöföldu hlutverki sínu. Hann sem formaður stéttarsambands opinberra starfsmanna þarf nú sem heilbrigðisráðherra væntanlega að taka ákvarðanir sem leiða til uppsagna í opinbera geiranum og lækka laun opinberra starfsmanna, þegar heyrist af 3-10% launalækkunum hjá Stjórnarráðinu sem er augljóslega fyrsta skrefið - fróðlegt verður að sjá þegar enginn verður með hærri laun en Jóhanna.

Í næsta mánuði verður þing BSRB. Þar mætir sennilega ráðherrann blóðugur upp fyrir axlir eftir uppsagnir og niðurskurð í verkalýðsjakkafötunum sínum og flytur grafalvarlegur ræðu sína sem formaður BSRB. Þvílíkur farsi... verður hann með rauða rós í annarri hendi en niðurskurðarhnífinn í hinni? Er þetta ekki svipað og formaður LÍÚ væri sjávarútvegsráðherra?

mbl.is Starfsfólk óttast uppsagnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband