Ólafur F. gjörsamlega genginn af göflunum

Framganga Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa, á borgarstjórnarfundi í dag í garð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, er til skammar og honum ekki til sóma. Maðurinn virðist gjörsamlega genginn af göflunum ef marka má orðaforða hans í ræðu á borgarstjórnarfundinum og þá níðvísu sem hann las upp gegn Hönnu Birnu. Ætli Ólafur F. að reyna að ná endurkjöri í borgarstjórn á svona trixum er ekki von á málefnalegri og merkilegri kosningabaráttu af hans hálfu.

Eitt af lykilatriðum stjórnmálamanna vilji þeir vera trúverðugir er að vinna af einlægni og trúverðugleika, sýni að þeir séu traustsins verðir. Framganga Ólafs F. á þessum fundi í dag styrkir ekki stöðu hans sem stjórnmálamanns og vekur aðeins spurningar um hvort hann gangi heill til skógar.


mbl.is Ólafur víttur á borgarstjórnarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórhallur Gunnarsson segir upp hjá RÚV

Brotthvarf Þórhalls Gunnarssonar frá Ríkisútvarpinu eru mikil tíðindi. Hann hefur verið áberandi sem ritstjóri Kastljóssins frá upphafi í því formi sem þátturinn er nú og sem dagskrárstjóri frá því stofnunin var hlutafélagavædd. Hann hefur verið nánasti samstarfsmaður Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, og hlýtur ákvörðunin að vera mikið áfall fyrir hann, enda valdi hann Þórhall sér við hlið sem dagskrárstjóra og sótti hann til Stöðvar 2 til að stýra Kastljósinu haustið 2005 eftir að Logi Bergmann hafnaði því boði.

Ákvörðun Þórhalls vekur spurningar um hvað sé framundan hjá Ríkisútvarpinu, ekki aðeins hvernig dagskrárstefnan breytist þar heldur hvernig sparnaðaráformin verði. Væntanlega verður farið í blóðugan niðurskurð á dagskrárgerð Sjónvarpsins. Þá kemur væntanlega í ljós hvað er höggvið af og hverju er breytt. Væntanlega mun Sjónvarpið finna illilega fyrir þeim niðurskurði og eðlilegt að spurt sé hvort Þórhallur hætti vegna niðurskurðar í Sjónvarpinu.

Kannski á að fara að breyta Kastljósinu og umgjörð þessa flaggskips Sjónvarpsins í dagskrárgerð. Ef svo verður verður ákvörðun Þórhalls örugglega skiljanlegri.

mbl.is Þórhallur hættir á RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfnum Icesave-samningnum 6. mars

Ég fagna því að ríkisstjórnin tók ekki þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave af íslensku þjóðinni. Nú getur hún tjáð sig afdráttarlaust í kosningunni 6. mars. Ég ætla að vona að það verði góð þátttaka og landsmenn muni hafna þessum samningum afdráttarlaust, umfram allt hafna með því vinnulaginu við gerð fyrri samninga og lélegum vinnubrögðum íslenskra stjórnvalda.

Þetta er í sjálfu sér ekki flókið mál. Íslenska þjóðin hefur í valdi sínu hvort þessum samningum og skuldbindingum verði hafnað eður ei. Ég tel þetta gullið tækifæri fyrir íslensku þjóðina til að taka málin í sínar hendur og taka af skarið um hver þjóðarviljinn er í málinu.

mbl.is Kosið 6. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband