Flottur listi hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík

Sjálfstæðismenn í Reykjavík stilltu upp sterkum og sigurstranglegum lista í prófkjöri í gær. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, fær mjög góða kosningu í leiðtogasætið - hún nýtur virðingar og trausts flokksmanna og borgarbúa fyrir sköruglega frammistöðu í embætti borgarstjóra í kjölfar mikilla átakatíma og hefur náð að lægja öldur og vera sá leiðtogi sem stýrir málum af festu og ábyrgð. Kjörsókn í prófkjörinu er ágæt, einkum í ljósi þess að enginn leiðtogaslagur var.

Júlíus Vífill fær góðan stuðning í annað sætið og græðir á því að Gísli og Tobba börðust bæði um annað sætið. Gísli Marteinn fellur niður listann eftir að hafa tapað naumlega slagnum um annað og þriðja sætið. Slagurinn um annað sætið var barátta þeirra fyrst og fremst, eins og vel sést af tölunum. Mjög hefur verið sótt að Gísla Marteini og fáir sem hafa orðið fyrir harðari pólitískri aðför að persónu sinni á síðustu árum en hann, oftast með mjög ómerkilegum hætti.

Tobba tók talsverða áhættu með að sækjast eftir öðru sætinu og hefði eflaust fengið góða kosningu í þriðja sætið hefði hún tekið þann slag, en hún var djörf í sinni baráttu og hækkar upp listann, þó ég hefði viljað sjá hana ofar. Kjartan hefur eins og áður traust pólitískt bakland og stuðningsmannahóp - hefur setið í borgarstjórn lengst allra sjálfstæðismanna nú þegar Vilhjálmur Þ. hættir eftir 28 ára setu þar.

Geir Sveinsson kemur sterkur inn á framboðslistann, efstur nýliðanna, og getur mjög vel við unað. Mér fannst það talsverður hroki hjá Geir að lýsa óánægju með útkomuna. Eflaust talar þar keppnismaðurinn Geir, sem var handboltafyrirliði árum saman og mikill íþróttakappi með mikið keppnisskap. Hann á hinsvegar ekki að láta svona klaufaleg ummæli og á að vita betur en þetta. Vond byrjun vægast sagt!

Áslaug og Hildur koma sterkar inn í hóp efstu frambjóðenda og munu verða mikilvægur hluti kosningabaráttunnar fyrir sjálfstæðismenn. Í heildina mjög sterkur listi sem á að geta gert góða hluti. Ég óska sjálfstæðismönnum góðs gengis í kosningunum í vor. Þetta er listi sem getur á góðum degi tekið borgina traust.

mbl.is 18 atkvæðum munaði á Kjartani og Gísla í 3. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur sigur Guðmundar Baldvins

Framsóknarmenn hér á Akureyri völdu rétt með því að kjósa Guðmund Baldvin Guðmundsson sem leiðtoga sinn. Sigur hans er traustur og afgerandi - úrslitin koma ekki að óvörum enda er Mundi vandaður og traustur maður. Enginn vafi leikur á því að hann er maðurinn sem Framsókn þarf til að rétta sinn hlut eftir hið sögulega afhroð árið 2006 og mun eflaust ná að laða til sín mikið fylgi.

Úrslit prófkjörsins í heildina markast af mikilli uppstokkun. Sitjandi bæjarfulltrúi hættir og nýju fólki er treyst fyrir uppbyggingu flokksstarfsins. Mundi fær afgerandi umboð til að leiða það starf á meðan hinir leiðtogaframbjóðendurnir fá báðir mikinn skell.

Gerður Jónsdóttir, bæjarfulltrúi 2002-2006, sem féll naumlega úr bæjarstjórn í síðustu kosningum, fær mikinn skell og Hannes Karlsson náði ekki flugi í leiðtogaframboði sínu. Petrea Ósk og Sigfús Karlsson ná bæði settu marki, fá trausta kosningu.

Þetta er framboðslisti sem getur því sótt fram. Er ekki markaður af fortíðinni og hefur talsverð sóknarfæri, ekki ólíkt Samfylkingunni sem vann mikið fylgi í síðustu bæjarstjórnarkosningum, hafði ekki bæjarfulltrúa og gat sótt fram óhikað.

mbl.is Guðmundur sigraði í prófkjöri Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband