Dr. Gunnar Thoroddsen 100 ára

Dr. Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra (1910-1983)
Í dag er öld liðin frá fæðingu dr. Gunnars Thoroddsens, fyrrverandi forsætisráðherra. Gunnar var samofinn valdaátökum og lykilstöðum innan Sjálfstæðisflokksins í áratugi - saga flokksins verður aldrei rituð án þess að nafn Gunnars verði þar ofarlega á blaði. Hann var einn af litríkustu og svipmestu pólitísku höfðingjum íslenskrar stjórnmálasögu. Gunnar starfaði ötullega innan flokksins allt frá unglingsárum til dauðadags, lengst af í forystusveit hans og með mikil völd.

Örlögin höguðu því þó þannig að á gamals aldri klauf hann sig frá vilja æðstu forystu Sjálfstæðisflokksins og hélt ásamt nánustu samherjum innan flokks til stjórnarmyndunar gegn vilja miðstjórnar, flokksráðs, landsfundar og þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Gunnar var rómaður fyrir leiftrandi ræðusnilld og var í senn heillandi og óvæginn. Hann var ekki óvanur því að honum væri sótt en svaraði ávallt fyrir sig.

Síðustu dagana hef ég notið þess að lesa listilega skrifaða ævisögu dr. Gunnars, ritaða af Guðna Th. Jóhannessyni, á aldarafmælisári hans. Bókin er auðvitað saga stjórnmála í hálfa öld, svo samofinn var dr. Gunnar öllum helstu lykilatburðum stjórnmálasögu Sjálfstæðisflokksins og þjóðarinnar sem heildar, hvort heldur sem er í hlutverki ráðherra, varaformanns Sjálfstæðisflokksins og um síðir forsætisráðherra. Hann var á sviðinu áratugum saman.

Gunnar var tengdur á alla staði stjórnmálaáhrifa flokkskjarnans og var samofinn sögu hans í 55 ár. Hann ferðaðist með Jóni Þorlákssyni, fyrsta formanni flokksins, á fyrstu árum flokksins við að byggja undirstöður hans sem hins öfluga flokks í stjórnmálalitrófinu. Hann varð þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Mýrasýslu þegar árið 1934, þá á 24. aldursári. Enn í dag er Gunnar yngsti þingmaður Íslandssögunnar.

Allt frá byrjun þóttu örlög hans ráðin. Þar væri komin ein helsta vonarstjarna flokksins og framtíð hans yrði mörkuð pólitískum sigrum. Það fór enda svo að honum voru falin mikil verkefni og talsverð ábyrgð í flokkskjarnanum allt frá upphafi á unglingsárum. Aldrei náði hann þó því markmiði að verða formaður Sjálfstæðisflokksins né heldur varð hann forseti Íslands, eins og hann stefndi svo markvisst að. Ósigrar hans mörkuðu hann þó í baráttunni fyrir því að ná á tindinn.

Ævisaga Gunnars er merkilegt og heillandi rit. Hvort heldur við að rifja upp hversu einlægur Gunnar var í metnaði sínum eða sem stjórnmálasaga heillar þjóðar. Gunnar var töframaður í klækjum stjórnmála, baráttunni fyrir því að ná æðstu metorðum. Refskák stjórnmálanna lék enginn betur en dr. Gunnar sem náði æðstu metorðum með sögulegum hætti, með því að snúa á forystumenn eigin flokks með einni kænskustu atburðarás íslenskrar stjórnmálasögu.

Bestu kaflar ævisögunnar, að mínu mati, eru um forsetakjörið 1968, þar sem Gunnar átti sinn stærsta ósigur, stjórnarmyndunin 1980, hans pólitíska sigurstund þar sem sögulegur sess var endanlega tryggður, en ekki síður veikindasaga Gunnars undir lok ævinnar. Gunnar greindist með hvítblæði undir lok ársins 1982. Tókst honum að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni og mörgum af nánustu stuðningsmönnum sínum í marga mánuði.

Það er auðvitað stórmerkilegt að forsætisráðherra gæti leynt þjóðinni mánuðum saman því að hann væri sjúkur af hvítblæði. Hann hélt sínu striki í gegnum lyfjameðferð og erfitt veikindastríð. Vissulega er það mesti persónulegi sigur Gunnars að halda getað haldið áfram sínum störfum þrátt fyrir erfið veikindi mánuðum saman og sigla fleyinu, stjórn sinni - þó laskað væri og illa farið við leiðarlok, allt til loka kjörtímabils. En sú barátta tók á, eins og lýst er í bókinni. Og hann hélt áfram of lengi í raun.

Þessi saga er rakin vel og traust af Guðna Th. Sagan er skyldulesning fyrir alla sem hafa áhuga á stjórnmálum. Sögulegt mat á Gunnari er traust og pólitísk saga hans í umgjörð þeirri sem Guðni hefur unnið að er engu lík. Þetta er ein besta ævisaga síðustu ára eða áratuga. Bók sem enginn má láta framhjá sér fara.

Eins og fram kom í upphafi eru það orð að sönnu að saga Sjálfstæðisflokksins verður ekki rituð án þess að nafn Gunnars Thoroddsens verði þar áberandi. Gunnar lagði ævistarf sitt í það að efla Sjálfstæðisflokkinn. Endalok ferilsins voru vissulega söguleg og hann endaði í því merkilega hlutskipti að mynda stjórn án stuðnings flokksins, umdeildur og jafnvel hataður af fjölda flokksmanna fyrir verk sitt.

Það voru átakatímar og ferlinum lauk Gunnar með einum mesta hvelli íslenskrar stjórnmálasögu. En verk hans og forysta skiptu flokkinn máli. Hann var einn litríkasti forystumaður Sjálfstæðisflokksins og verðskuldar sögulegan sess í pólitískri sögu flokksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Hef einnig lesið Gunnars sögu Thoroddsen líkt og bloggari. Tengdist fjölskylduböndum, þannig að frá árinu 1971 var hann kominn í "mitt lið".

Mér þykir leitt að hlusta á og lesa æ ofan í æ umfjöllun um "svik" hans við flokkinn. Sá maður mun gera flokknum okkar mikið gagn sem gengur af þeirri kenningu dauðri, að Gunnar Thoroddsen hafi svikið Sjálfstæðisflokkinn með því að gangast ekki undir fáránlegar væntingar forystunnar í aðdraganda hinna ópólitísku kosninga um forsetaembættið 1952.

Í leiðara Morgunblaðsins hinn 29. desember 2010 á hundraðasta afmælisdegi Dr. Gunnars, lætur höfundur þess getið að á tilteknum tímapunkti hafi Dr. Gunnar búið til fjarlægð milli sín og stjórnmálanna og sagt skilið við Bakkus eftir langa samfylgd.

Maðurinn sem kallaður var "silfurtunga íhaldsins" hafði þó aldrei á sínum ferli stundað þá ágætu iðju sem í nútímanum er kölluð nærbuxnablogg eða hreytt andstyggilegum athugasemdum í andstæðinga sína í gegnum aðra þá fjölmiðla sem nútíminn býður upp á. Það væri kannski ekki úr vegi að fleiri stjórnmálamenn tækju Dr. Gunnar til fyrirmyndar og segðu skilið við fjandvin sinn Bakkus :-)

Flosi Kristjánsson, 29.12.2010 kl. 20:40

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentið Flosi.

Stefán Friðrik Stefánsson, 29.12.2010 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband