Sviptingasamur lokadagur vetrar í Reykjavík

Stórbruni í miðbæ Reykjavíkur Þessi síðasti vetrardagur var sviptingasamur í Reykjavík. Stórbruninn í miðbænum eru auðvitað mikil og váleg tíðindi, sorgleg tíðindi og mjög dapurlegt að sjá það tjón sem varð í þessari viðkvæmu bæjarmynd sem hefur verið óbreytt síðan á nítjándu öld að mestu leyti, og í ofanálag flæddi svo vatn niður Laugaveginn í kvöld eftir heitavatnsæð brast og gufa lagði yfir nærliggjandi svæði.

Húsið við Austurstræti 22, þar sem skemmtistaðurinn Pravda var síðast til húsa og í denn hýsti m.a. hina sögufrægu verslun Karnabæ í íslenskri verslunarsögu, er eins og sjá mátti af fréttamyndum dagsins gjörónýtt. Það mun hafa verið byggt á árinu 1801. Það á sér mjög merka sögu og var fróðlegt að heyra þá meginpunkta hjá Magnúsi Skúlasyni. Það verður sjónarsviptir af því. Örlög Lækjargötu 2 eru óljós, húsið er auðvitað stórskemmt en þó óvíst hver framtíð þess verður. Það verður næsta verkefnið að huga að framtíð mála.

Mér hefur alltaf fundist þessi götumynd sjarmerandi. Hún átti sér merka sögu og það er sjónarsviptir af því, ekki síður og er önnur gömul hús hverfa. Ég tek heilshugar undir með Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarstjóra, að það verði að standa vörð um megingötumyndina og færa hana í sem líkast horf og við höfum þekkt hana alla tíð. Það má ekki gerast að uppbyggingu þessa svæðis verði klúðrað með byggingum sem eru of ólíkar þeim sem þar stóðu fyrir þennan bruna. Þetta er viðkvmt svæði í borgarmyndinni. Finnst reyndar enn frekar skrýtið til þess að hugsa að þetta hafi skeð.

Ég var í Reykjavík um síðustu helgi. Það er órjúfanlegur hluti helgarferðar í borgina að kanna næturlífið og skemmta sér vel. Það er reyndar svo sérstakt að á bakaleiðinni frá miðbæjarlabbinu í Bæjarins besta og þar sem ég kvaddi vini mína er ég leitaði mér að leigubíl aftur á hótelið varð mér starsýnt á götumyndina og hugsaði með mér hvað myndi gerast ef kæmi þar upp bruni. Enda varð mér brugðið þegar að ég heyrði af þessum bruna í útvarpinu fyrst í dag og las svo fréttir af netinu og horfði á netútsendinguna. Þetta er eflaust það sem margir hafa óttast en fáir voru viðbúnir undir.

En það er mikilvægt að horfa til framtíðar. Þetta er orðinn hlutur og framtíðin boðar að byggja þarf svæðið upp. Það er alveg ljóst að Austurstræti 22 sem átti þessa merku sögu var orðin nokkur hryggðarmynd undir lokin. Síðast þegar að ég fór þar inn mér til skemmtunar fyrir einhverju síðan fannst mér þetta hús orðin hálfgerð hryggðarmynd. Útlit hússins var komin öll úr skorðum og það var orðið teygt og sjoppulega dapurt að innan.

Það er mikilvægt að þetta svæði miðbæjarins verði sem líkast þeirri götumynd sem er í huga fólks og hefur verið alla tíð. Fyrst að svona hörmulega fór í þessum bruna þarf að nota tækifærið og gera upp þessa fallegu götumynd á ný. Ég treysti því að borgaryfirvöld vinni vel í þeim efnum og leiði málið með þeim hætti sem sómi er að.

mbl.is Slökkvistarfi lokið að mestu og hreinsunarstörf hafin í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Eg bið þig um að hugsa aldrei aftur svona aftur Stebbi minn .. Já slökkvilið og lögregla stóð sig vel í gær við björgunarstörf og enginn slasaðist sem var gott. En ég vona eins og þú að húsin verði byggð upp það er glæsilegt að sjá hvað vel hefur til tekist við uppbyggingu húsa við Aðalstræti.

Að lokum aðeins þetta ... Gleðilegt sumar kæri bloggvinur 

Herdís Sigurjónsdóttir, 19.4.2007 kl. 08:54

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Nei, svona á maður aldrei að hugsa Herdís mín, en svona er þetta. En þetta er átakanlega dapurt og vonandi mun ganga vel að byggja upp þar sem eftir eru rústir.

Gleðilegt sumar :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.4.2007 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband