Skelfing Framsóknarflokksins að ná hámarki

Guðni Ágústsson Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum þrem vikum fyrir alþingiskosningar. Hann er enn að mælast með lítið fylgi og ekkert ber á neinni uppsveiflu þar. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, er greinilega orðinn ansi skelkaður og farinn að undirbúa sig og sína undir hið versta. Fylgi upp á minna en 10% mun án nokkurs vafa þýða stjórnarandstöðu fyrir Framsóknarflokkinn, augljós ábending kjósenda um að hann eigi að pása sig og taka sér hvíld frá setu í ríkisstjórn. Tölurnar segja sína sögu vel.

Það verða auðvitað tíðindi fái Framsóknarflokkurinn rauða spjaldið með þessum hætti, hrein og afgerandi skilaboð landsmanna um að fara í stjórnarandstöðu. Allir sem þekkja pólitíska sögu og staðreyndir hennar vel vita að allt undir 10% fylgi fyrir Framsókn þýðir það. Framsóknarflokkurinn hefur verið forn flokkur valda og áhrifa. Hann hefur setið nær samfellt í ríkisstjórn frá sumrinu 1971; aðeins ef undan er skilið tvenn tímabil, 1979-1980, er minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sat og er fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Viðeyjarstjórnin - stjórn sjálfstæðismanna og krata, sat 1991-1995.

Formenn Framsóknarflokksins áratugum saman hafa verið menn valda, menn sem hafa getað krafist oddastöðu í íslenskum stjórnmálum. Þeir hafa getað krafist mikils í stjórnarsamstarfi, þeir hafa sprengt ríkisstjórnir og myndað nýjar um leið án hiks, gott dæmi er þegar að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk haustið 1988. Þessi staða markar nýjan grunn fyrir Framsóknarflokkinn verði hún að veruleika. Hún myndi marka formann Framsóknarflokksins sem hornkarl í íslenskum stjórnmálum, flokksleiðtoga sem skipti engu máli. Það yrði vissulega ný staða, en Framsókn hefur alltaf annaðhvort verið marktækt afl í ríkisstjórn eða leiðandi í stjórnarandstöðu.

Það blasir við öllum að fari Framsóknarflokkurinn niður í 5-7 þingsæti er hann kominn í biðstöðu, settur í endurhæfingu á meðan að hann byggir sig upp. Þetta er staða sem verður ekki túlkuð með öðrum hætti en sem sögulegt afhroð. Það yrði enda svo. Það er greinilegt af viðbrögðum Guðna Ágústssonar að honum er mjög brugðið. En því má ekki gleyma að Framsókn hefur stundum tekið kosningar á 10-20 dögum, jafnvel færri en tíu dögum. Öll munum við eftir ævintýralegum lokaspretti Framsóknarflokksins í kosningunum 2003, er hann sneri tapaðri skák sér í vil. Hann varð örlagaafl við stjórnarmyndun að kosningum loknum.

Þegar að 22 dagar eru til kosninga og sama down-staðan birtist æ ofan í æ verður kosningasérfræðingum og stjórnmálaspekúlöntum hugsað til þess hvort að þessir 22 dagar geti orðið tímabil sama viðsnúnings. Það yrði að ég tel metið sem algjör varnarsigur færi Framsóknarflokkurinn upp fyrir 12% úr þessu. Hann hefur ekki mælst með meira en 11% fylgi í háa herrans tíð í könnunum Gallups og góð ráð eru orðin dýr fyrir þennan forna flokk valda og áhrifa. Byrjað er að auglýsa Jón Sigurðsson í löngum sjónvarpsauglýsingum sem klettinn í hafinu í stjórnmálum með sama taktfasta blænum og var í tilfelli Halldórs og Steingríms. En trúir einhver því að hann verði jafn sterkur leiðtogi og þeir?

Guðni Ágústsson talar í þessu vefviðtali við Moggann með þeim hætti að Sjálfstæðisflokkurinn sé stikkfrí. Þessi ummæli og þessi örvænting ráðherra flokks í vanda eru með ólíkindum. Ég tel að staðan kristalli vel að landsmenn treysti Sjálfstæðisflokknum, þjóðin treystir Geir H. Haarde sem leiðtoga á næstu fjórum árum. Kannski er þjóðin að fella dóm yfir vandræðagangi Framsóknar sem hefur ekki borið barr sitt eftir að hún samdi sig í forsætisráðherrastól með umdeildum hætti.

Þjóðin er vissulega að fella mjög þungan dóm yfir Framsókn, en þar á bæ væri hollt að líta í eigin barm um stund, tel ég.

mbl.is Guðni: Sjálfstæðisflokkurinn virðist stikkfrí í umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Guðni sagði líka í þessu viðtali að Framsókn fari ekki í samstarf með Sjálfsstæðisflokknum nái þeir ekki amk 17% fylgi - sem er ólíklegt miðað við stöðuna í dag.

Eggert Hjelm Herbertsson, 20.4.2007 kl. 15:11

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þeir fara ekki í stjórn með þetta fylgi, punktur, Eggert minn. Ætla vinstriflokkarnir að bjarga þeim með þetta down-fylgi? Það er reyndar stór spurning.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.4.2007 kl. 15:15

3 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Þeir fóru í stjórn borgarinnar með ykkur og þá aðeins með 6% fylgi.....þannig að maður veit aldrei.

Eggert Hjelm Herbertsson, 20.4.2007 kl. 15:25

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það voru frekar fáir kostir í boði eftir þær kosningar tel ég. Samfylkingin hafði nær algjörlega útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn fyrir þær kosningar. Persónulega hefði ég talið það samstarf vænlegt, enda stærstu flokkarnir, en vissulega miklir pólar. Hér á Akureyri voru hlutirnir unnir með skynsömum hætti. Hér hefði Sjálfstæðisflokkurinn getað tekið Odd og Jóhannes með sér í meirihluta, sem hefði kannski verið viðeigandi, en við fórum eftir úrslitum kosninganna. Fyrst var reynd vinstristjórn en það gekk ekki upp, eins og ég átti von á. Niðurstaðan varð samstarf stóru flokkanna, stóra samsteypa. Það var mynstrið sem varð sterkast í þeirri erfiðu stöðu sem uppi var. Í Reykjavík sögðu vinstriflokkarnir allt að því nei við Sjálfstæðisflokkinn sem auðvitað tók annan kost í stöðunni. Vilhjálmur vann þá meirihlutamyndun skynsamlega og hratt, enda féll R-listinn í þeim kosningum, flokkarnir á bakvið hann.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.4.2007 kl. 15:41

5 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Spái því að Framsókn fái am.k. tíu þingmenn. Rétt hjá Guðna að Sjáfstæðisflokkurinn hefur ekki fengið eins mikla gagnrýni. Það er vegna þess að hinir flokkarnir vilja komast í ríkisstjórn hvað sem það kostar. Málefnin eru bara svoan sýningaratriði.

Guðni hlýtur að sjá í gegnum þessi óimerkilegheit þegar hann hugsar sig um.

Ef stjórnin fær meirihluta þá er það krafa um að hún haldi áfram. Ekki getur Guðni horft fram hjá því þegar honum rennur reiðin.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 20.4.2007 kl. 15:49

6 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Aðferð Sjálfstæðisflokksins að fara þegjandi í gegnum kosningarnar virðist vera að virka vel hingað til amk. Forystumenn benda bara á það sem gert hefur verið og segjast ætla að halda áfram, óskilgreint. Flokkurinn stendur vel í skoðanakönnunum svo hvert afgerandi stefnumál gæti flæmt frá, svo auðvitað gerir flokkurinn það.

Býst samt við að kjósendur muni óska eftir skýrari svörum í ýmsum málum þegar nær dregur, sem mun hafa áhrif á fylgið

Gestur Guðjónsson, 20.4.2007 kl. 16:47

7 Smámynd: Óðinn Þórisson

Þetta mun ráðst mikið á því hvort Jón komist inn eða ekki.
Ef hann kemst ekki inn skiptir í raun og veru engu máli hvort stjórnin haldi velli eða ekki,  framsókn er þá á leið í stjórnarandstöðu.
Hvort Framsókn nái að töfra eitthvað fram á síðustu metrunum verður spennandi að fylgjast með, enginn skildi afskrifa þá.

Óðinn Þórisson, 20.4.2007 kl. 20:27

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nokkuð frést af því strákar hvort hann Geir sé farinn að búa okkur undir svona- hvað heitir það nú aftur, já uppbyggingu þarna í Íran? 

Árni Gunnarsson, 20.4.2007 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband