Vondur dagur fyrir Framsóknarflokkinn

Jón Sigurðsson og Siv FriðleifsdóttirÞetta var svo sannarlega mjög vondur dagur fyrir Framsóknarflokkinn. Hálfum mánuði fyrir alþingiskosningar virðist hvert klúðrið reka annað á viðkvæmum tímapunkti. Dramatísk ólga ríkir greinilega innan flokksins vegna klaufalegs verklags við formannsskipti í Landsvirkjun og umræðan um ríkisborgararétt kærustu sonar Jónínu Bjartmarz er flokknum vond á lokaspretti kosningabaráttu.

Það er nú ekki mikil áberandi reisn yfir þessum stjórnarformannsskiptum hjá Landsvirkjun. Það sjá allir að Jóhannes Geir fer algjörlega hundfúll af velli. Hann hefur talað frekar opinskátt miðað við aðstæður; sagt og gefið til kynna með afgerandi það sem allir sjá, að sparkað hafi verið í hann og það ansi fast á viðkvæman stað - margir spyrja sig af hverju það var gert. Skýringar Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, þess efnis að Jóhannes Geir hefði einfaldlega búinn að vera of lengi eru hjákátlegar í besta falli og eru einhver platástæða. Það sést langar leiðir.

Það er freistandi að halda að Jóhannesi Geir hafi verið sparkað vegna þess að hann hafi mögulega verið talsmaður þess að breyta rekstrarfyrirkomulagi Landsvirkjunar og stokka stöðu mála upp. Það að honum hafi ekki verið leyft að taka eitt ár enn og fylgja Kárahnjúkavirkjun, einu allra stærsta verkefni formannsferils síns, allt til enda vekur altént mjög mikla athygli. En svo fór sem fór. Mér fannst allavega orðalag formanns Framsóknarflokksins í dag mjög undarlegt og skil satt best að segja ekki hver ástæðan er. Þetta með að Jóhannes Geir hafi verið búinn að vera of lengi hljómar mjög kostulega sem ástæða.

Svo sést langar leiðir að Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, er hundfúl með þessa breytingu og stöðuhækkun Páls Magnússonar, varaþingmanns hennar. Kergjan milli manna í Suðvesturkjördæmi á kjörtímabilinu er öllum í fersku minni og allir muna hvernig staðan var í Kópavogi. Það er eitthvað sem gleymist reyndar seint, t.d. þegar að annað framsóknarkvenfélag var stofnað í sveitarfélaginu og allt fór þar upp í hund og kött eftir að höfðinginn þeirra mikli, Sigurður Geirdal, féll snögglega frá. Í kvöld sást á Stöð 2 þar sem Siv strunsaði frá myndavél augljóslega fjarri því alsæl með tíðindin í Landsvirkjun.

Málið tengt Jónínu Bjartmarz er ekki mjög gott. Allar lýsingar eru frekar ófagrar, hvernig svo sem mögulega að var staðið. Þetta er mjög gruggugt mál. Ekki bætir það fyrir flokknum í Reykjavík altént. Þetta er ekki vænlegt mál fyrir neinn flokk á lokaspretti kosningabaráttu. Þarna berjast bæði Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz fyrir því að hljóta þingsæti. Kannanir hafa sýnt þau bæði utan þings um þónokkuð skeið. Það hefur ekki birst könnun sem sýnir þingmenn flokksins í Reykjavík, Guðjón Ólaf og Sæunni, inni. Það verður fróðlegt hvernig fer að lokum.

Framsóknarflokkurinn hefur verið þekktur fyrir að taka kosningar á 10-20 dögum, jafnvel færri en 10 dögum, lokaspretturinn hefur verið þeim drjúgur. Á lokasprettinum í kosningabaráttunni 2003 sneri Framsóknarflokkurinn tapaðri skák við með undraverðum hætti, mjög eftirminnilegum. Fylgst verður vel með hvernig lokaspretturinn verður nú. Það verður mikill varnarsigur fari flokkurinn yfir 13% fylgi og fengi fleiri en átta þingmenn eins og komið er málum. Þá var Halldór Ásgrímsson í brúnni, reyndur og traustur leiðtogi. Jón Sigurðsson hefur ekki sömu vigt.

15 dagar eru ekki langur tími - en geta orðið heil eilífð í kosningabaráttu, sérstaklega fyrir flokk í mikilli varnarbaráttu. Það verður svo sannarlega áhugavert að greina þessa daga og örlög Framsóknarflokksins eftir það tímabil þegar að úrslit eru ljós. Þessi klúðurslegu mál eru vandræðaleg og þungbært veganesti inn á viðkvæman lokasprett.

Það má fullyrða með vissu að vel verði fylgst með pólitísku heilsufari Framsóknarflokksins næstu 15 dagana og því hver dómur þjóðarinnar verður á örlagadeginum 12. maí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband