Framsókn í sókn - mikil spenna á lokasprettinum

Könnun (9. maí 2007) Mikil fleygiferð er á fylgi stjórnmálaflokkanna skv. nýjustu raðkönnun Gallups þrem dögum fyrir alþingiskosningar. Framsóknarflokkurinn er að því er virðist í ótrúlegri sókn á lokaspretti kosningabaráttunnar og ef marka má stökkið milli daga að stefna í að endurtaka lokasprettinn mikla í kosningabaráttunni 2003, þar sem tapaðri skák var snúið við. Af sveiflum allra raðkannana til þessa er ljóst að úrslit kosninganna eru hvergi nærri ráðin.

Fylgi VG, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks dalar umtalsvert milli daga í raðkönnun Gallups. Kannanir verða birtar alla virka daga fram til alþingiskosninganna á laugardag og ramma inn vikuna á föstudag í síðustu skoðanakönnun Gallups fyrir kosningar. Fylgi VG heldur sífellt áfram að minnka og mælist nú aðeins 14,5%, tveim prósentustigum meira en í gær og eru aðeins níu menn inni í nafni flokksins, aðeins fjórum fleiri en komust á þing í kosningunum 2003. Þetta er mikið fall fyrir VG frá fyrri könnunum en hæst fóru þeir í tæp 28% í mars.

Samfylkingin er aftur að tapa fylgi eftir stökk síðustu dagana - mælist með 25% og 17 alþingismenn, þó aðeins þrem færri en í kosningunum 2003. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 35,9% og 24 alþingismenn - tveim fleirum en í kosningunum 2003 og rúmum tveim prósentustigum yfir kjörfylginu þá. Þetta er nokkuð fall milli daga hinsvegar hjá Sjálfstæðisflokknum í raðkönnun Gallups. Hann hefur misst sjö prósentustig á þessum tveim dögum og virðist vera að missa fylgi til Framsóknarflokksins. Þessi sveifla er með kostulegasta sem maður sér og ef þetta gengur eftir mun þessi uppsveifla Framsóknar jafnvel verða enn eftirminnilegri en 2003.

Framsóknarflokkurinn mælist með heil 14,6% - það er aðeins þrem prósentustigum undir kjörfylginu, þingmennirnir mælast núna níu, aðeins þrem færri en í kosningunum 2003. Þetta er besta könnun Framsóknarflokksins á formannsferli Jóns Sigurðssonar, sem hefur ekki alltaf átt sjö dagana sæla sem formaður frá því að Halldór Ásgrímsson yfirgaf forystu flokksins. Þetta er besta könnun Framsóiknarflokksins á þessu kjörtímabili. Man ekki betri könnun fyrir þá árum saman. Vonir þeirra vaxa. Frjálslyndi flokkurinn er að mælast með 6,6% og fjóra þingmenn, standa nærri kjörfylgi og eru með sama fjölda og eftir kosningarnar 2003.

Staðan er mjög spennandi. Óvissan um hvað gerist á laugardaginn eykst enn eftir því sem sveiflurnar verða meiri. Fylgið er svo sannarlega á fleygiferð. Ríkisstjórnin heldur naumlega velli í þessari könnun, hefur 33 þingsæti. Framsókn hefur níu þingmenn og Sjálfstæðisflokkurinn 24 þingmenn. Þetta eru miklar sveiflur milli daga en stjórnin stendur mun betur að vígi í dag, enda var hún mæld fallin í gær.

Það eru aðeins þrír dagar til alþingiskosninga. Þetta verða dagar spennu og pólitískra átaka - það er barist um hvert atkvæði. Uppsveifla Framsóknarflokksins milli daga er með hreinum ólíkindum. Er Framsókn að leika eftir afrekið mikla vorið 2003? Verður Jón Sigurðsson eftir allt saman sigurvegari og gerir það sem flestum þótti fyrir aðeins nokkrum dögum óhugsandi? - að sigla framsóknarfleyinu heilu i land? Það verður fróðlegt að sjá.

Mjög margir eru þó enn óákveðnir. Þeir ráða örlögum frambjóðenda, flokka og formanna þeirra á laugardaginn. Þetta verða líflegir þrír sólarhringar, svo mikið má allavega segja!

mbl.is Fylgi Framsóknarflokksins tekur stökk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Jón Sigurðsson hefur tekist að sameina flokkinn á ný auk þess að vera mjög
traustur og stefnufastur stjórnmálamaður. Hann er að uppskera það í dag.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 9.5.2007 kl. 13:52

2 Smámynd: Gunnar Jóhannsson

Kannski hefur dr. Helgi Tómasson rétt fyrir sér þegar hann reiknar út úrslit kosninga:

  • Framsóknarflokkurinn16%
  • Sjálfstæðisflokkurinn 36%
  • Vinstri Græn 14%
  • Frjálslyndi flokkurinn 5%
  • Samfylking 28%


Þessi niðurstaða hans er a.m.k. ótrúlega nærri lagi í dag.

Gunnar Jóhannsson, 9.5.2007 kl. 14:14

3 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ef framsókn verður með 10% á morgun þá verður Jón formaður líklega að sundra flokknum. Eigum við bara ekki að bíða eftir laugardeginum og spyrja að leikslokum?

Sigurður Sveinsson, 9.5.2007 kl. 15:13

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Guðmundur Jónas: Jóni er að takast á lokasprettinum að hljóta virðingu fólks og er að sanna sig sem klettur í hafinu fyrir flokkinn. Svo er maskína flokksins einfaldlega komin í gang. Það verður mikill varnarsigur fyrir flokk og formann komist Framsókn í 15%.

Ragnar: Það verður spennandi að sjá hvernig fer. Þetta er alveg ótrúleg sveifla sem sést þarna. Fróðlegt að sjá hvort hún haldi á morgun.

Gunnar: Gæti verið, verður áhugavert að sjá hvort þessi spá Helga verði hin eina sanna er yfir lýkur.

Sigurður: Það er auðvitað spurt að leikslokum. Þetta verða líflegir þrír dagar og kannanir sýna að það er ekkert gefið.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 9.5.2007 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband