Ríkisstjórnin heldur velli - sviptingar í kosningum

Úrslit kosninganna 2007 Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem setið hefur við völd í tólf ár, hélt velli í alþingiskosningunum 2007, en naumlega þó. Stjórnin hefur minnsta mögulega þingmeirihluta, 32 þingsæti, en það blasir við öllum að Framsóknarflokkurinn varð fyrir gríðarlegu áfalli í kosningunum við að tapa fimm þingmönnum og missti tvo ráðherra fyrir róða.

Framsókn missti þrjá þingmenn í Reykjavík og fékk engan þar kjörinn í fyrsta skipti í áratugi; missti Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra af þingi og Jón Sigurðsson, formaður flokksins, náði ekki kjöri. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, var eini þingmaður Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu, en lengst af nætur var hún þó fallin af þingi. Þingmenn Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, Birkir Jón Jónsson og Höskuldur Þórhallsson (sem komst inn eftir hörkuspennandi átök við Láru Stefánsdóttur), eru einu þingmenn flokksins undir fertugu.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 36,6% atkvæða, sem er 2,9 prósentustigum meira en í síðustu kosningum. Þetta fylgi tryggði flokknum þremur fleiri þingmenn en í kosningunum 2003. Samfylkingin hlaut 26,8% fylgi sem er 4,2 prósentum minna en í síðustu kosningum. Fékk flokkurinn þar af leiðandi tveimur mönnum færra en árið 2003. Vinstri grænir fengu 14,3% fylgi og níu þingmenn. Síðast fékk flokkurinn 8,8% og fimm þingmenn. Framsóknarflokkurinn fékk 11,7% atkvæða, sem er tap upp á sex prósent. Flokkurinn missir fimm menn. Frjálslyndir fengu fjóra menn eins og síðast og 7,2%, nær það sama og síðast. Íslandshreyfingin fékk aðeins 3,3%.

Miklar sviptingar voru í gegnum talninguna. Lokatölur komu fyrst á níunda tímanum og í Norðvesturkjördæmi, en vegna ýmissa vandræða tókst ekki að ljúka talningunni fyrr. Fyrstu tölur bentu til þess að stjórnarnandstaðan myndi ná þriggja þingmanna meirihluta en það forskot minnkaði niður í einn þingmann þegar líða tók á kvöldið og staðan varð gríðarlega tæp og þrisvar í gegnum nóttina snerist staðan stjórn eða stjórnarandstöðu í vil. En það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn bætti fylgi sitt mjög og telst sigurvegari kosninganna með VG. Framsókn er sá sem tapaði kosningunum klárlega.

En nú er spennunni lokið og ljóst hverjir ná inn. Reyndir stjórnmálamenn eins og Jón Magnússon og Ellert B. Schram, fyrrum formenn SUS, komust inn á þing fyrir nýja flokka sína. Sleggjunni að vestan, Kristni H. Gunnarssyni, tókst að ná endurkjöri þvert á allar skoðanakannanir, en hann kom hinsvegar inn á kostnað frjálslyndra í Kraganum og Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, féll í Reykjavík norður. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, náði á þing ásamt t.d. Ólöfu Nordal og Björk Guðjónsdóttur. Ég birti fulla nafnalista þingmanna hér á eftir.

Árni Johnsen hlaut mikið af útstrikunum í Suðurkjördæmi. Það var yfir fjórðungur atkvæðaseðla Sjálfstæðisflokksins í Suðrinu þar sem strikað hafði verið yfir nafn hans. Nær öruggt má telja að útstrikanir hafi verið svo margar að áhrif hafi á röðun framboðslistans, en það ræðst þó innan skamms. Jóhannes Jónsson í Bónus skoraði í auglýsingu á föstudag á kjósendur í Reykjavík suður að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Það blasir við að fimmtungur kjósenda flokksins þar hafi strikað yfir nafn Björns, en það hefur ekki áhrif á röðun listans þar þó.

Nú tekur við að mynda nýja ríkisstjórn. Heldur ólíklegt verður að teljast að sama stjórn sitji áfram, eftir tólf ára sögufræga setu í áralengd. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, þarf ekki að segja af sér eins og lengi stefndi í, en boltinn um hvað gerist hlýtur að vera hjá stjórnarflokkunum. Eflaust mun staðan ráðast fyrr en síðar með í hvað stefni, en óvissan er nokkur um framhaldið.

Kosninganóttin 2007 mun klárlega fara í sögubækur sem ein mest spennandi kosninganótt sögunnar. Mikil spenna og sviptingar gegnum nóttina og engin ládeyða í raun. Nú tekur við að tryggja landinu ríkisstjórn og hætt við að sviptingar verði ennfremur í stjórnarmyndun þar sem blasir við að ný ríkisstjórn muni koma til sögunnar eftir langt stöðugleikatímabil.

mbl.is Ríkisstjórnin hélt velli með minnsta mun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband