Framsókn hikar - þreifingar hafnar um aðra stjórn?

Jón Sigurðsson og Geir H. Haarde Biðstaða er í viðræðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um myndun ríkisstjórnar á meðan að kjaftasögur verða sífellt háværari um að þreifað sé fyrir sér um samstarf Sjálfstæðisflokks við Samfylkingu eða VG. Það er svosem ekki óeðlilegt að staða mála sé könnuð en það er ljóst að mjög er nú beðið eftir því hver afstaða Framsóknarflokks er til stjórnarmyndunarmála.

Það er ljóst að greinilegt hik er innan Framsóknarflokksins yfir stöðu mála og engin ein afgerandi rödd sem heyrist um hvert flokkurinn skuli stefna eftir sögulegt afhroð í kosningunum á laugardag. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, kannar hug grasrótarinnar í flokknum en þar heyrast mjög ólíkar raddir. Eins og vel hefur komið fram er greinilegt að höfuðborgarkjarni flokksins vilji láta gott heita og horfa til uppbyggingar í kyrrþey en á landsbyggðinni eru þær raddir mjög háværar að flokkurinn eigi að sækjast eftir áframhaldandi áhrifum.

Það er ekki undarlegt að orðrómur sé um að Sjálfstæðisflokkurinn horfi í aðrar áttir. Það er greinilegt að bæði Samfylkingin og VG hafa sýnt afgerandi áhuga á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Árni Páll Árnason, alþingismaður, talaði mjög í þessa átt í Íslandi í dag í kvöld og Birgir Ármannsson, starfandi forseti Alþingis, útilokaði ekki að horft yrði til vinstri eftir samstarfsaðila í ríkisstjórn. Ennfremur hefur vel sést af tali Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar að á þeim bænum sé ekki fjarlægt að horfa til Sjálfstæðisflokksins.

Það er greinilegt á allri stöðu mála að vinstristjórn er úr sögunni. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur öll tromp á hendi og getur í raun valið sér samstarfskost, enda líta Samfylkingin og VG til sterks tveggja flokka samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Í raun eru aðeins þrír valkostir í stöðunni sýnist mér. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn allsstaðar inni í myndinni í tveggja flokka stjórn við þessa þrjá flokka. Því er ekki að neita að sterkari möguleikar eru fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar og þá möguleika verður að skoða hrökkvi Framsókn af stampinum.

Ég spái því að staða mála varðandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ráðist að mestu á morgun. Það er mikilvægt að fram komi frá Framsóknarflokknum afgerandi ein skoðun um hvert þeir vilja stefna. Það virðist vera mikið rót á afstöðu manna og mikill munur á afstöðu trúnaðarmanna um næstu skref. Það gengur varla mikið lengur. Umboð Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, er mun veikara í ljósi þess að hann er ekki í þingflokki Framsóknarflokksins og hann er veikari leiðtogi en ella. Fari Framsóknarflokkurinn ekki í ríkisstjórn er hann utan alls þingstarfs í raun og verður ósýnilegri en ella.

Það virðast vera tvær fylkingar innan Framsóknarflokksins um hvert skuli stefna. Það hlýtur að veikja flokkinn verulega sem samstarfskost haldi staðan áfram með óbreyttum hætti. Kannski verður sú skoðun ofan á að hrun flokksins í Reykjavík sé slíkt áfall að hann muni velja að sitja hjá. Hinsvegar blasir við að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og þingmenn hennar skipa nærri helming þingflokks Framsóknarflokksins og þar virðist vera skýr vilji um að halda áfram og sækjast eftir áhrifum.

Kannski er þetta skýrt merki um viss átök innan Framsóknarflokksins. Það er greinilegt að fari Framsóknarflokkurinn í stjórnarandstöðu verði Guðni Ágústsson forystumaður flokksins á þingi, enda varaformaður hans og talsmaður í ljósi þess að formaðurinn er ekki alþingismaður. Það má ekki gleyma því að Halldórsarmurinn fór í nokkra hringi í fyrrasumar til að leita að formannsefni til að koma í veg fyrir að Guðni Ágústsson tæki flokkinn yfir. Þetta er kannski angi þess að tekist sé á um framtíðina.

Framsóknarflokkurinn þarf að hugsa sín mál vel. Það er erfitt að spá um næstu skref. Það er þó ljóst að aðrir stjórnarkostir eru komnir í umræðuna og ekki hægt að útiloka að þeir verði mun meira áberandi en ella komist ekki brátt skýrari línur um afstöðu mála.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Kristbjörnsson

Guð Drottinn forði okkur Sjálfstæðum frá samstarfi við Fjandans vinstrið.

Páll Kristbjörnsson, 16.5.2007 kl. 00:11

2 Smámynd: Sveinn Valdimar Ólafsson

Tel að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að skoð aðra möguleika en Framsókn.  Það er kominn tími á að kljást við ný viðfangsefni.  D+S er spennandi kostur ef hægt að semja.

kær kveðja

Sveinn

Sveinn Valdimar Ólafsson, 16.5.2007 kl. 00:38

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg er ekki hissa að Framókn hiki/þó fyrr hefði verið/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 16.5.2007 kl. 01:17

4 Smámynd: Magnús Paul Korntop

D OG S FINAL CASE.

Magnús Paul Korntop, 16.5.2007 kl. 03:13

5 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Stefán... það sér það hver maður sem vill að Geir Haarde fer ekki í stjórn með einn í meirihluta og það er Árni Johnsen. Það er eiginlega pínlegt hvernig hann og flestir sjálfstæðismenn tala og fara með Árna. Hefði ekki verið heiðarlegra að setja hann útaf lista en gera svona ?

Jón Ingi Cæsarsson, 16.5.2007 kl. 07:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband