Sturla Böðvarsson missir ráðherrastólinn

Sturla Böðvarsson Sturla Böðvarsson missir á morgun ráðherrastól sinn eftir að hafa verið í samgönguráðuneytinu í átta ár. Hann verður fyrir sömu vistaskiptum og Halldór Blöndal eftir að hafa leitt ráðuneytið jafnlangan tíma árið 1999. Báðir verða þeir forsetar Alþingis í þeirri stöðu. Það getur varla talist nein skömm að missa ráðherrastól eftir átta ára ráðherraferil, en engu að síður lítur Sturla greinilega á þessar breytingar sem áfall, enda er jú jafnan litið á ráðherrastólinn sem meira virði en forsetastóll þingsins.

Í seinni tíð hefur embætti forseta Alþingis öðlast meiri virðingarsess. Það hefur verið metið sem fullt ráðherraígildi. Forseti þingsins hefur einkabílstjóra og skrifstofu í þinghúsinu auðvitað og starfslið á sínum vegum þar með. Hann hefur semsagt öll þægindi og hlýtur sama virðingarsess og ef ráðherra væri. Þetta hefur samt alla tíð verið metið sem stöðulækkun. Það var Ólafi G. Einarssyni áfall að fá þann dóm að færast þangað árið 1995, það var líka áfall fyrir Halldór Blöndal að færast þangað, eftir sögulegan kosningasigur í Norðurlandskjördæmi eystra hinu forna, árið 1999 og líka fyrir Sólveigu Pétursdóttur fyrir fjórum árum.

Sturla má að mörgu leyti vel við una. Hann hefur fengið mörg tækifæri á stjórnmálaferli sínum og verið samgönguráðherra mjög lengi. Hann hefur líka unnið vel fyrir sitt fólk en verið mjög umdeildur utan þess svæðis. Nú verður það hlutverk hans að feta í fótspor fyrrnefndra ráðherra og yfirgefa ráðuneyti sitt og halda á vit starfsins í þinginu. Það felst í embætti þingforsetans að vera sáttasemjari. Forsetinn vinnur með þingflokksformönnum að starfi þingsins, hann þarf að vera maður sátta í erfiðum deilum og reyna að vera sameiginlegur fulltrúi allra afla eftir fremsta megni. Það verður athyglisvert að sjá Sturlu í því hlutverki.

Það hlýtur að vera áfall fyrir sjálfstæðismenn á Vesturlandi að missa ráðherra. En þeir eiga þó í kjördæminu ennþá einn ráðherra og það verður heldur betur þungavigtarráðherra, enda fær hann í sinn hlut sameinuð ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar. Einar Kristinn Guðfinnsson styrkist mjög pólitískt við að halda ráðherrastól, en hann kom inn í stjórnina þegar að Davíð Oddsson lét af ráðherraembætti haustið 2005.

Ég tel að flestir sjálfstæðismenn hafi átt von á því að Sturla yrði sá ráðherra sem myndi færast yfir í þinghúsið og taka við verkefnum þar. Hann hefur verið áberandi í sínum ráðherrastörfum við að t.d. klippa á borða og sprengja höft í gangnaframkvæmdum en fær nú annað og lágstemmdara hlutverk í steingráu húsi við að vera verkstjóri þingsins. Það er greinilega hlutverk sem hann tekur við með súrsætu brosi.

mbl.is Sturla: Ósáttur við að hverfa úr samgönguráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband