Ný ríkisstjórn tekur við völdum á Bessastöðum

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur tekið við völdum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum. Það er mikil uppstokkun sem verður í ríkisstjórn með ráðherraskiptunum í dag. Með þessum ríkisráðsfundi er tólf ára stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lokið og langt stöðugleikatímabil farsællar stjórnar á enda og nýtt skeið í íslenskum stjórnmálum tekur við.

Sjö nýjir ráðherrar taka nú við embætti; Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, Kristján L. Möller, samgönguráðherra, Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra. Fyrir eru í stjórn sem fyrr; Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Það er kaldhæðnislegt að margra mati að fráfarandi ríkisstjórn og makar þeirra borðuðu bleikju í hádeginu í boði forseta Íslands. Sumir álitsgjafar hafa nefnt ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar bleikjuna með kómískum og skemmtilegum hætti. Það verða viðbrigði fyrir framsóknarmenn að yfirgefa ríkisstjórnina væntanlega. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði reyndar brosandi við fjölmiðlamenn er hann kom til ríkisráðsfundar fyrir hádegið að honum liði nú sem hann væri jafn frjáls og efnilegur hestur án hnakks og beislis og gæti skeiðað um með eigin blæ.

Nú taka nýjir ráðherrar við lyklavöldum í ráðuneytum sínum úr hendi forvera sinna. Ég óska nýrri stjórn velfarnaðar og vona að henni farnist vel. Þetta er sterk stjórn með mikinn og traustan stuðning, gott umboð. Það verður vel fylgst með verkum hennar og hvernig hún setur sín mál fram. Ef marka má stjórnarsáttmálann má eiga von á nýjum og ferskum tímum í íslenskum stjórnmálum með þessum ríkisstjórnarskiptum.

mbl.is Ný ríkisstjórn tekur við völdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Sæll

Við skulum nú vona að stöðugleikinn haldi nú áfram þrátt fyrir endurnýjunina. Annars held ég að nú sé gósentíð í vændum fyrir fréttamenn með Guðna svona beislislausann. Hann á eflaust eftir að láta ófá gullkornin falla.

Kv.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 24.5.2007 kl. 15:52

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Guðni er mjög öflugur stjórnmálamaður. Það hefði verið heilladrýgra fyrir Halldór í fyrra að segja af sér formennsku og hleypa Guðna bara að. Er viss um að flokkurinn hefði náð betri árangri í vor undir hans forystu.

Sá að þú svaraðir mér á síðunni þinni. Við skulum endilega vera í bandi. Vertu alveg ófeiminn að senda mér póst eða komment og við skulum stefna á að hittast þegar að þú átt leið um hér.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.5.2007 kl. 16:12

3 Smámynd: Davíð Þór Kristjánsson

Sammála þessu Guðmundur, Guðni er skemmtilegur stjórnmálamaður og mjög svo vinsæll í sínu kjördæmi af öllum flokksmönum. Hefði verið farsælla að hann leiddi flokkin held ég. Líst ágætlega á núverandi stjórn þó ég vilji stíga varlega til jarðar. Það á eftir að reyna á það og hvort samstaða ríki alltaf á milli þessara flokka á eftir að koma í ljós.

Ég er ánægður með ráðuneytisskipan þó ég setji spurningamerki við Kristján Möller sem samgönguráðherra ? en þeir höfðu víst ekki úr mörgu að velja. Líst vel að fá Guðlaug sem vinsælan þingmann í heilbrigðismálin, þó ekki sé víst að hann verði vinsæll lengi í þessu ráðuneyti :) sem þekkt er fyrir að drepa þingframa.

 Einkarekstur er það sem koma skal í heilbrigðisgeiranum og það er frábært skref til framfara, ég gæti haldið endalaust áfram. Over and out.

Davíð Þór Kristjánsson, 24.5.2007 kl. 16:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband