Systkinin Björn og Valgerður saman á Alþingi

Valgerður Bjarnadóttir Systkinin Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Valgerður Bjarnadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sitja nú saman á Alþingi. Það gerist ekki á hverjum degi að systkini sitji saman á þingi fyrir tvo flokka. Síðast gerðist það er hálfbræðurnir Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, sátu saman á þingi 1999-2005, þá báðir í stjórnarliðinu.

Þar áður held ég að það hafi síðast gerst er systkinin Guðjón Arnar Kristjánsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir voru saman stutt á þingi kjörtímabilið 1991-1995; Guðjón Arnar fyrir Sjálfstæðisflokkinn en Jóna Valgerður fyrir Kvennalistann. Í seinni tíð man ég bara eftir tveim systkinum á þingi, en bæði voru þau fyrir sama stjórnmálaflokkinn; í fyrra tilfellinu voru það Ingibjörg Pálmadóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason sem voru á þingi eins og flestir muna fyrir Framsóknarflokkinn, en þau voru samferða á þingi í sex ár, 1995-2001, er Ingibjörg sagði af sér ráðherraembætti og þingsæti.

Í hinu seinna eru það bræðurnir Guðmundur Árni Stefánsson og Gunnlaugur Stefánsson, sem sátu saman á þingi í tvö ár, 1993-1995, fyrir Alþýðuflokkinn. En það eru sannarlega ekki mörg dæmi um að systkin hafi verið saman á þingi og í tveim ólíkum flokkum, þó vissulega séu Björn og Valgerður bæði í stjórnarliðinu. Valgerður kvæntist árið 1970, Vilmundi Gylfasyni, sem varð einn af litríkustu stjórnmálamönnum á vinstrivæng íslenskra stjórnmála á seinni hluta 20. aldar. Valgerður fylgdi Vilmundi í hans pólitísku verkefnum allt þar til yfir lauk með stofnun Bandalags jafnaðarmanna, en Vilmundur lést í júní 1983, langt um aldur fram.

Framboð Valgerðar í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir tæpu ári vakti nokkra athygli og hún varð þar í tíunda sætinu. Ég verð að viðurkenna að ég hafði beðið lengi eftir því að Valgerður færi í framboð, en ég kynntist henni fyrst sumarið 1996 er hún stýrði forsetaframboði Péturs Kr. Hafsteins en ég var í baklandi hans. Þá sá ég vel sjálfur hversu gríðarleg kjarnakona hún er. Hún er bæði vinnusöm og traust í öllum verkum, en í þeim efnum eru þau lík systkinin Björn og Valgerður svo sannarlega. Eftir áralanga þátttöku Völu í bakgrunni stjórnmálanna verður áhugavert að sjá hana loks á þingi.

Einnig hefur Erla Ósk Ásgeirsdóttir, formaður Heimdallar, tekið sæti á þingi nú. Fagna ég því að bætist í hóp ungliða Sjálfstæðisflokksins á Alþingi. Verður áhugavert að fylgjast með því hvaða mál Erla Ósk muni leggja fram á þingi á meðan að hún situr á þingi fyrir Birgi Ármannsson.

mbl.is Alþingiskonum fjölgar um þrjár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Albertína Friðbjörg

Ekki má gleyma bræðrunum Gunnari I. Birgissyni og Kristni H. Gunnarssyni, þó þeir séu reyndar aðeins hálfbræður.

Albertína Friðbjörg, 23.10.2007 kl. 11:25

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentið Albertína. Einhvernveginn tókst mér að steingleyma þeim bræðrum, þó hvorugur þeirra verði seint talinn ógleymanlegur í neinum skilningi þess orðs.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 23.10.2007 kl. 11:29

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Já, það er dálítð gaman af þessu. Þau eru skýrleiksfólk bæði tvö eins og þau eiga ætt til.  Stefán, manstu hvað þau eru mörg  systkynin? 

(ég meina börn Bjarna og Sigríðar) 

Sigurður Þórðarson, 23.10.2007 kl. 11:43

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þau eru fjögur systkinin; Björn, Guðrún, Valgerður og Anna.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 23.10.2007 kl. 12:06

5 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Takk fyrir þessa söguskýringu

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 23.10.2007 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband