Engin fyrirsögn

Geir og Þorgerður Katrín kjörin í forystu

Geir H. Haarde formaður SjálfstæðisflokksinsÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins

36. landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk í Laugardalshöll á sjöunda tímanum í kvöld. Geir Hilmar Haarde utanríkisráðherra, var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum í stað Davíðs Oddssonar, sem gegnt hafði formennsku í 14 ár og verið forsætisráðherra landsins samfellt í 13 ár, 1991-2004. Greidd voru 1148 gild atkvæði í kosningunni og hlaut Geir 1083 eða 94,3% gildra atkvæða. 23 aðrir sjálfstæðismenn hlutu samtals 65 atkvæði. Auðir seðlar voru 40.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, var kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins á fundinum í stað Geirs, sem gegnt hafði embættinu í sex ár, frá árinu 1999. Þorgerður Katrín hlaut 728 atkvæði eða 62,3%. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, hlaut 424 atkvæði eða 36,3%. 10 aðrir sjálfstæðismenn fengu samtals 16 atkvæði.

9 konur náðu kjöri í miðstjórnarkjöri í dag, en kosið var um 11 sæti. Er þar um talsverð tímamót að ræða, enda hafa aldrei jafnmargar konur náð kjöri á landsfundi í miðstjórn. Kjör hlutu: Birna Lárusdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir, Grímur Gíslason, Magni Kristjánsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Björk Guðjónsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Stefanía Katrín Karlsdóttir og Sigríður Ásthildur Andersen.

Fjölmargar ályktanir voru samþykktar - hvet ég lesendur til að kynna sér þær.

Saga dagsins
1890 Magnús Stephensen landshöfðingi, tók formlega í notkun síma er lagður var á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar - um var þá að ræða fyrstu málþráðarlagningu sem lögð hafði verið hér á Íslandi.
1902 Landakotsspítali í Reykjavík var formlega tekinn í notkun - var reistur af St. Jósepssystrum.
1952 Írafossstöðin við Sog var vígð - um var að ræða eitt mesta mannvirki hérlendis til þess tíma.
1978 Pólski kardinálinn Karol Józef Wojtyla kjörinn páfi - hann tók sér nafnið Jóhannes Páll II páfi. Hann sat á páfastóli samfellt í 27 ár, frá árinu 1978 til dauðadags árið 2005. Aðeins tveir sátu lengur.
1984 Presturinn Desmond Tutu hlýtur friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttuna gegn aðskilnaðarstefnu.

Snjallyrðið
En er ég kom sem barn til byggða heim,
þá barst mér það til eyrna fyrr en varði,
að horfinn væri úr hópnum einn af þeim,
sem hjartað þráði mest í föðurgarði.
Og alltaf falla fleiri mér kærir í þann val,
og fram hjá streyma ár, og dagar hverfa,
og gömlum bæjum fækkar fram í dal,
en fremstu nafir holskeflunnar sverfa.

Ef finn ég anga föðurtúnin græn,
þá fagnar vori hjartans dýpsti strengur.
En það skal vera þökk mín öll og bæn,
og þó ég deyi, skal hann óma lengur.
Þá birtist mér í heiðri himinlind
öll horfin fegurð, er ég man og sakna.
Er geisladýrðin gyllir fjöll og tind,
skal gleði mín í fólksins hjörtum vakna.

Því get ég kvatt mín gömlu föðurtún
án geigs og trega, þegar yfir lýkur,
að hugur leitar hærra fjallsins brún,
og heitur blærinn vanga mína strýkur.
Í lofti blika ljóssins helgu vé
og lýsa mér og vinum mínum öllum.
Um himindjúpin horfi ég og sé,
að hillir uppi land með hvítum fjöllum.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Föðurtún)

Í minningu þess manns sem kenndi mér það sem mest er um vert - að skynja, segja hug sinn allan til manna og málefna, verja sig af öllum krafti gegn þeim sem sækja að og vera trúr grunninum. Það sem hann kenndi mér met ég mikils. Fyrst og fremst kenndi hann mér það að vera sterkur og kraftmikill - aldrei hvika frá settu marki eða markmiðum. Hann var sterkur allt til loka - sannur og öflugur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og níu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband