Engin fyrirsögn

Pallborðsumræður

Helgi Vilberg tók þessa fínu mynd af pallborðsumræðunum í Kaupangi í gærkvöldi fyrir Íslending - mátti til með að birta hana hér á vefnum. (Kristján Þór, ég, Sigrún Björk, Þóra og Jóna)

Þóra Ákadóttir gefur ekki kost á sér

Þóra Ákadóttir

Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri, hefur gefið út svohljóðandi yfirlýsingu:

"Ég hef tilkynnt félögum mínum í forystusveit Sjálfstæðisflokksins á Akureyri þá ákvörðun að gefa ekki kost á mér til endurkjörs í bæjarstjórnarkosningunum að vori.

Stjórnmálaafskipti mín hófust með því að taka sæti á framboðslista sjálfstæðismanna árið 1998 og ná kjöri sem varamaður í bæjarstjórn. Árið 2001 tók ég sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn og var þá kjörin forseti hennar. Í kosningunum 2002 skipaði ég annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins og hef verið forseti bæjarstjórnar frá upphafi kjörtímabilsins auk þess að vera varaformaður félagsmálaráðs og varamaður bæjarráðs, framkvæmdaráðs og fasteigna Akureyrar.

Vissulega kom til álita að halda áfram þessu stjórnmálastarfi enda er það bæði gefandi og skemmtilegt. Niðurstaðan var hins vegar sú að láta gott heita þegar yfirstandandi kjörtímabili lyki og gefa þar með öðrum færi á að spreyta sig á vettvangi bæjarmálanna. Sjálfstæðismenn eru í forystu á Akureyri og það er tilhlökkunarefni að fá tækifæri til að leggja verk okkar í dóm kjósenda.

Ég mun að sjálfsögðu taka þátt í að kynna starf og stefnu sjálfstæðismanna, stuðla að því að flokkurinn fái sem glæsilegast brautargengi í kosningunum 2006 og leggja flokknum áfram lið eftir mætti.
"

Þóra Ákadóttir

Ég vil er þessi yfirlýsing liggur fyrir þakka Þóru Ákadóttur fyrir gott samstarf í bæjarmálum hér á Akureyri. Ég hef þekkt Þóru mjög lengi. Meðan ég bjó á Dalvík var hún búsett þar og leiðir okkar hafa því mjög lengi legið saman. Þóra er mikil heiðurskona sem hefur unnið vel og dyggilega fyrir Sjálfstæðisflokkinn - sinnt þar lengi miklum verkefnum og skilað þeim öllum með mjög miklum sóma. Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð undrandi á þessari ákvörðun Þóru en virði hana að sjálfsögðu.

Þóra hefur verið í forystusveit okkar sjálfstæðismanna í tvö kjörtímabil. Hún tók sæti í bæjarstjórn fyrir fjórum árum er Valla (Valgerður Hrólfsdóttir) lést eftir erfið veikindi. Það var okkur áfall að missa Völlu, en hún tapaði erfiðri baráttu fyrir ólæknandi sjúkdómi, langt um aldur fram. Þóra hefur síðan verið enn meira áberandi í forystunni og varð svo forseti bæjarstjórnar er Sigurður J. Sigurðsson hætti í bæjarmálum síðla árs 2001 - skipaði svo annað sætið í kosningum 2002.

Þóra hefur sinnt þessum forystuverkum með glæsilegum hætti - hún kom inn í bæjarmálin í sigursveitinni 1998 - þegar við unnum af krafti fyrir forystuskiptum. Hún kom í bæjarstjórn svo á erfiðum tímamótum fyrir flokkinn og tók sæti Völlu með miklum sóma við þær erfiðu aðstæður sem fyrr er lýst. Hún hefur stýrt bæjarstjórn með tignarlegum hætti og sett svip á fundi bæjarstjórnarinnar. Ég vil þakka Þóru fyrir öll góðu samskiptin á þessum árum - góða viðmótið hennar, trygglyndið og heiðarleikann sinn sem hún hefur sett í öll verkefni sín.

Hún er heiðurskona sem hefur verið forréttindi að vinna með - við njótum krafta hennar áfram en með öðrum hætti. Kærar þakkir fyrir allt Þóra mín!

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins á Akureyri lauk í gærkvöldi. Seinasta kvöld skólans hófst með fyrirlestri Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, um stjórnskipan og stjórnsýslu. Fór hann yfir fjölda málefna í ræðu sinni og vék sérstaklega talinu að endurskoðun stjórnarskrár og málefni 26. greinarinnar eftir að forseti Íslands synjaði lagafrumvarpi staðfestingar sumarið 2004. Eins og kunnugt hefur Sjálfstæðisflokkurinn á landsfundi sínum ályktað um að efnisatriði greinarinnar skuli falla úr gildi við endurskoðunina. Urðu miklar umræður um málið og fékk Björn margar góðar spurningar frá fundarmönnum. Að loknu hléi fóru fram pallborðsumræður undir minni stjórn um bæjarmál.

Stýrði ég fundi - erindi fluttu Kristján Þór Júlíusson, Þóra Ákadóttir, Sigrún Björk Jakobsdóttir og Jóna Jónsdóttir. Kristján Þór fór yfir málefni kjörtímabilsins, Þóra fór yfir heilbrigðis- og öldrunarmál, Sigrún Björk um fjölskyldu- og menntamál og Jóna (sem á sæti í áfengis- og vímuvarnanefnd) fór yfir málefni fíkniefnavandans sem hefur verið til umræðu hér í bæ á seinustu mánuðum og leiðir til lausnar honum. Eftir framsögur stýrði ég fyrirspurnartíma. Flestar spurningar fékk að sjálfsögðu leiðtogi okkar, Kristján Þór bæjarstjóri. Voru líflegar og góðar umræður um bæjarmálin.

Að þeim loknum, á ellefta tímanum sleit Kristján Þór skólanum - en þetta var sjötta og seinasta kvöldið á velheppnuðu námskeiði um stjórnmál. Þakka ég öllum þeim sem komu fyrir góða samveru og góð kynni - margir komu nýir til leiks í starfið þarna og var gaman að kynnast þeim. Þetta verður skemmtilegur kosningavetur tel ég.

Saga dagsins
1907 Stytta af Jónasi Hallgrímssyni afhjúpuð í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu skáldsins. Styttan var eftir Einar Jónsson. Fyrst sett upp við Amtmannsstíg en síðar flutt í Hljómskálagarðinn.
1946 Jarðneskar leifar Jónasar Hallgrímssonar skálds, voru lagðar í moldu í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, á afmælisdegi hans. Jarðneskar leifar Jónasar lágu í kirkjugarði í Danmörku frá 1845.
1957 Nonnahús á Akureyri opnað sem safn er 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Sveinssonar, Nonna. Hann fór ungur til útlanda til náms og kom tvisvar eftir það heim, 1894 og 1930. Jón lést árið 1945.
1995 Dægurlagasöngkonan Elly Vilhjálms, lést, sextug að aldri - Elly var ein af allra bestu söngkonum landsins í fjöldamörg ár. Elly var árið 1999 valin besta söngkona aldarinnar í aldamótakönnun Gallups.
1996 Dagur íslenskrar tungu var í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur. Efnt var þá til málræktarþings og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar afhent fyrsta sinni, þau hlaut þá Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur.

Snjallyrðið
Á íslensku má alltaf finna svar
og orða þetta og hitt sem er og var
og hún á orð sem geyma gleði og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.

Á vörum okkar verður tungan þjál
þar vex og grær og dafnar okkar mál.
Að gæta hennar gildir hér og nú
það gerir enginn nema ég og þú.
Þórarinn Eldjárn rithöfundur (1949) (Íslenskt mál)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband