Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um málefni Háskólans á Akureyri í kjölfar niðurskurðar þar og uppstokkunar í vikunni. Minni ég á mikilvægi skólans fyrir okkur hér á Akureyri og hversu sterka stöðu hann hefur í vitund okkar hér - hann skiptir miklu máli og við munum óhikað verja stöðu hans. Ég geri mér grein fyrir því að það hefur verið þrengt að skólanum með þeim skrefum sem stigin hafa verið á þessu ári og það verður að horfast í augu við það. Þó að skólinn hafi styrkst mjög á seinustu árum með nýjum deildum verður að líta á hvert stefnir í kjölfar þessarar ákvörðunar sem kynnt var í vikunni. Oft er vissulega gott að hagræða en það er verra ef það stefnir stöðu skólans í tvísýnu. Við hér fyrir norðan skynjum allavega vel hversu stór partur samfélagsins skólinn er. Framtíð Eyjafjarðarsvæðisins og uppbygging hér veltur að stóru leyti á framtíð Háskólans á Akureyri. Við getum alls ekki horft þegjandi á stoðir skólans veikjast og bogna til.

- í öðru lagi fjalla ég um stöðuna í rústunum í R-listanum og vinnubrögð sumra þeirra sem þar standa eftir. Mikil innri barátta er greinilega í gangi í Samfylkingunni fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Fyrir skömmu birtist blaðagrein eftir formann Samfylkingarinnar og fyrrum borgarstjóri þar sem hún allt að því lýsir yfir frati á báða borgarfulltrúa flokksins, Stefán og Steinunni, og svo gott sem kallar eftir óflokksbundnu liði í forystu flokksins - greinilega átt þar við Dag B. Eggertsson sem hún handvaldi sem frambjóðanda óháðra í kosningunum 2002 og fékk ekki borgarstjórastólinn (þrátt fyrir trakteringar í þá átt) í fyrra frekar en Stefán Jón þegar Þórólfur hrökklaðist burt. En eymd Samfylkingarinnar er mikil í borgarmálum núna - virkar á mann óneitanlega eins og sökkvandi skip úti á sjó.

- í þriðja lagi fjalla ég um prófkjör Samfylkingarinnar á Akureyri og fer yfir merkilega sögu af kynjakvótum sem þar komst í hámæli er miðaldra stjórnmálamaður sló út unga konu í krafti kvótans. Það er undarleg auglýsing fyrir Samfylkinguna á Akureyri að þeir vísi 23 ára gamalli konu, sem áhuga hefur á stjórnmálum og hlotið lýðræðislegt kjör í fjórða sætið, niður og taki upp afdankaðan karlmann sem hefur verið sparkað í prófkjöri áður. Það er ekki nema furða að þessi staðreynd sé lítt auglýst af Samfylkingarfólki hér í bæ. Ef þessi niðurstaða sannar ekki hversu ruglaðir kynjakvótarnir eru, ja þá veit ég ekki hvað sannar það.


All the President's Men

All the President's Men

Í kvikmyndinni All the President's Men er rakin sagan af því hvernig tveimur rannsóknarblaðamönnum á The Washington Post, Carl Bernstein og Bob Woodward, tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Richard Nixon forseta Bandaríkjanna, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem á endanum lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, hinn 9. ágúst 1974. Þetta víðfrægasta pólitíska hneykslismál 20. aldarinnar hófst kaldhæðnislega helgina sem hann fagnaði sínum stærsta pólitíska sigri. Um miðjan júní 1972 er innbrotið í Watergate-bygginguna var framið var Nixon nýkominn frá Kína. Honum hafði tekist að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao þá um vorið. Við heimkomuna var hann hylltur eins og hetja og hann ávarpaði sameinaðar deildir Bandaríkjaþings. Sögulegum áfanga var náð: tekist hafði að opna leiðina til austurvegs og ennfremur sá fyrir lokin á Víetnamsstríðinu. Watergate-málið var klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu.

Watergate-málið var gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem urðu honum að falli og leiddi að mestu til einangrunar hans úr sviðsljósinu. Með fimni tókst óþekktum blaðamönnum á The Washington Post, Bernstein og Woodward, að halda málinu á floti, þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda til að þagga það niður. Litlu munaði að það hefði tekist. Hefði þeim ekki tekist að fá tryggan heimildarmann úr innsta hring til að leka í blaðið fréttum og meginpunktum málsins hefði það væntanlega aldrei komist upp. Þekktur var sá sem veitti upplýsingarnar sem veitti þeim leiðina á sporið, í miðpunkt málsins. Í þrjá áratugi var deilt um það hver væri heimildarmaður blaðsins. Alla tíð var þó vitað að sá sem lak upplýsingunum til blaðsins væri áhrifamaður í fremstu röð og með allar upplýsingar tiltækar. Upplýsingarnar sem heimildarmaðurinn veitti urðu sönnunargögnin sem leiddu til þess að Nixon varð að segja að lokum af sér forsetaembættinu og valdakerfi hans hrundi til grunna lið fyrir lið. Heimildarmaðurinn var jafnan nefndur Deep Throat og aðeins þrír menn vissu hver hann var: blaðamennirnir Carl Bernstein og Bob Woodward og Ben Bradlee ritstjóri The Washington Post.

Í kvikmyndinni All the President's Men, sem segir sögu alls málsins, var Deep Throat skiljanlega ekki sýndur nema í skugga, við sjáum hann aðeins í samtali við Woodward í bílakjallara. Til fjölda ára hafði því verið bæði deilt um hver heimildarmaðurinn var og ekki síður reynt af krafti að upplýsa það af öðrum fjölmiðlum. Það var ekki fyrr en undir lok maímánuðar 2005 sem hulunni var svipt af þessu mikla leyndarmáli seinni tíma stjórnmálasögu. Þá var upplýst að Mark Felt þáv. aðstoðarforstjóri FBI, hefði verið heimildarmaðurinn. Hann var í aðstöðu bæði til að vita alla meginpunkta málsins, gat svipt hulunni af leyndarmálum þess og var einnig illur Nixon því hann hafði ekki skipað hann forstjóra FBI árið 1972. Honum var því ekki sárt um örlög forsetans. Það er alveg ljóst að án heimildanna sem Deep Throat (Mark Felt) veitti hefði málið aldrei orðið þetta risamál og forsetinn hefði getað setið á valdastóli út kjörtímabil sitt. Því var líka kyrfilega haldið leyndu hver heimildarmaðurinn var og það var ekki fyrr en Felt sjálfur sté fram sem hið sanna kom í ljós.

Að mínu mati besta pólitíska kvikmynd 20. aldarinnar - hún er algjörlega einstök. Hún er einnig ein af allra bestu myndum úr blaðamennskunni sem gerðar hafa verið - segir frá sannri blaðamennsku og vinnsluferli stóru fréttarinnar með glæsilegum hætti og lýsir einnig metnaði blaðamannsins við að rækta getu sína í bransanum með vinnubrögðum sínum. Með eindæmum velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og frábærlega leikin úrvalsmynd sem skartar tveim af vinsælustu leikurum sinnar kynslóðar, þeim Robert Redford og Dustin Hoffman. Senuþjófurinn er þó Jason Robards sem sýnir stjörnuleik í hlutverki ritstjórans Ben Bradlee og hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína. Þetta er hiklaust ein af uppáhaldsmyndunum mínum - hef varla tölu á hversu oft ég hef séð hana. Er ein af þeim allra bestu sem blandar saman pólitík og sagnfræði. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hafi þeir ekki séð hana áður. Þið sem hafið séð hana - sjáið hana aftur! Pottþétt skemmtun fyrir stjórnmálafíklana.

Saga dagsins
1939 Þýska flutningaskipinu Parana var sökkt út af Patreksfirði. Áhöfnin yfirgaf skipið daginn eftir og var tekin til fanga af breska herskipinu Newcastle - var fyrsta skipið sem sökk hér í seinna stríðinu.
1946 Vestmannaeyjaflugvöllur formlega tekinn í notkun - þá eitt mesta mannvirki sinnar tegundar.
1963 Þriggja alda afmælis Árna Magnússonar handritasafnara, minnst - nýbygging við Háskóla Íslands nefnd eftir honum í tilefni dagsins. Þar eru geymd handrit Íslendinga, sem Danir afhentu okkur.
1973 Samningur við Breta um lausn landhelgisdeilunnar (varðandi 50 mílur) var samþykktur á þingi.
2002 Írak samþykkir að hlíta ályktun 1441 - ályktunin leiddi til þess að ráðist var í Írak í mars 2003.

Snjallyrðið
My definition of a free society is a society where it is safe to be unpopular.
Adlai Stevenson sendiherra (1900-1965)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og tíu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband