Ólafur F. snýr aftur með læknisvottorð á vasann

Ólafur F. Magnússon Það vekur mikla athygli að Ólafur F. Magnússon, verðandi forseti borgarstjórnar, sé krafinn um læknisvottorð við endurkomu sína í borgarmálin nú um mánaðarmótin. Þetta hlýtur að vekja umræðu um hvort að borgin hafi krafist vottorðsins eða meirihlutinn sjálfur, sem Ólafur F. er hluti af. Ég verð að segja eins og er að ég man ekki eftir því að þetta hafi gerst nokkru sinni áður - þau eru þá allavega mjög fá dæmin um læknisvottorð kjörinna fulltrúa ef þau eru til staðar.

Hingað til hafa kjörnir fulltrúar haft umboð kjósenda í farteskinu í verkum sínum, sótt umboð í gegnum framboðslista sína sem kjósendur hafa kosið og til þess bær yfirvöld staðfesta að kosningum loknum með formlegum hætti. Annað þarf ekki að framvísa. Það hefur oft gerst að fólk taki sér leyfi frá störfum og svo snýr það bara aftur að eigin vilja, hvort sem leyfistímanum er lokið eður ei. Ólafur F. er kjörinn aðalfulltrúi í borgarstjórn Reykjavíkur og ætti ekki að þurfa að sækja umboð til lækna um endurkomu sína. Umræðan um eðli veikinda Ólafs F. Magnússonar minnkar ekki við þetta læknisvottorð, þó það sé læknir sem framvísar vottorðinu.

Mér finnst þetta eiginlega frekar niðurlægjandi fyrir Ólaf hvernig sem á er litið og varla verður hægt að líta á veikindi hans sem eðlileg. Það hefur reyndar merkilega lítið verið rætt um þessi veikindi, miðað við að Ólafur er einn oddamanna þessa veikburða vinstrimeirihluta og hefur mikil örlög í sinni hendi sem þessi oddamaður. Það skiptir þó máli hvort hann geri það sjálfviljugur að afhenda vottorðið eða krafinn um það.

Fréttaflutningurinn finnst mér þó frekar gefa til kynna að sú krafa komi innan úr Ráðhúsinu, sé það rétt verður það óhjákvæmilega að spurningu um traust milli aðila. Hvar er þá Ólafur F. staddur? Er hann það illa á sig kominn að læknisvottorð sé ofar sett en umboð hans frá borgarbúum úr síðustu kosningum? Af hverju nægir það umboð ekki fyrir hann til að snúa aftur til verkanna sem honum voru falin í kosningum?

mbl.is Ólafur F. látinn skila vottorði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ég sé ekkert óeðlilegt við að hann skili vottorði, rétt eins og allir aðrir á vinnumarkaði þurfa að gera. Er þetta ekki vinnan hans ?

Jónína Dúadóttir, 30.11.2007 kl. 08:20

2 identicon

Mér finnst það svona partur að þeirri friðhelgi sem rétt er að veita kjörnum fulltrúum að þeir megi lýsa sig veika án þess menn spyrji um ástæður þess. Þeir mega eiga sín veikindi í friði án þess að við séum að grufla í þeim. Flest varðandi hverskonar veikindi er það persónulegt að mér finnst rétt að við látum það í friði.

Sigurður Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 08:34

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Óli er amk. örugglega kominn með ágætis ástæðu til að slíta samstarfinu!

Þorsteinn Siglaugsson, 30.11.2007 kl. 08:53

4 identicon

Þeir eru kannski bara svona hræddir að hann slíti samstarfinu. En er það ekki bara óskhyggja hjá okkur, losnum við nokkuð við þennan meirihluta á næstunni. Vona það samt, þau eru ekki einu sinni búin að sýna okkur málefnaskrá.

mbk

Óli

Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 08:59

5 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Það er ekkert verið að biðja hann að greina frá því hvað var að honum, enda er það aldrei tekið fram á vottorðinu og kemur engum við. Það er bara verið að biðja hann að sýna vottorð sem staðfestir það, að hann sé orðinn nógu frískur til að geta stundað vinnuna sína.

Jónína Dúadóttir, 30.11.2007 kl. 09:01

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Jónína: Þetta hefur aldrei gerst áður og er enn athyglisverðara í því ljósi. Ólafur F. var kjörinn af borgarbúum sem borgarfulltrúi og hefur umboð þeirra þar til annað er ákveðið með kosningum. Hann ætti ekki að þurfa að sækja það umboð milli kosninga til lækna nema þá að hann sé lífshættulega slasaður að mínu mati eða vafi leikur á hvort hann sé vinnufær vegna alvarlegs sjúkdóms. Að mínu mati er þetta stórundarlegt mál, enda er eðlilegt að um það sé fjallað í fjölmiðlum.

Sigurður: Ólafur F. er opinber persóna, verðandi forseti borgarstjórnar og oddamaður meirihlutans. Í ljósi þessa læknisvottorðs eru þessi veikindi orðin opinber, fæ ekki betur séð.

Þorsteinn: Vissulega.

Ólafur: Kannski er það málið, veit ekki. Samt er þetta stórundarlegt mál í alla staði, enda aldrei komið fyrir áður að kjörinn fulltrúi sæki umboð til lækna um pólitíska framtíð sína, nema þá að vafi leiki á hvort hann sé hreinlega starfhæfur.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.11.2007 kl. 09:04

7 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ég get ekki séð það þannig að hann sé að sækja umborð til lækna um pólitíska framtíð sína og finnst það nú eiginlega að taka dálítið djúpt í árina. Þegar ég kem úr löngu veikindafríi frá minni vinnu þá þarf ég að sýna fram á að læknirinn minn telji ráðlegt að ég fari að vinna aftur..... Mér finnst ekkert skrítið við þetta og þó það hafi aldrei komið fyrir áður....

Jónína Dúadóttir, 30.11.2007 kl. 09:28

8 Smámynd: Ragnar Ólason

Sammála þér Stebbi, Þetta er ekki eins og venjuleg vinna hann er kjörinn fulltrúi og sækir umboð sitt til kjósenda eins og þú segir.

Ragnar Ólason, 30.11.2007 kl. 10:59

9 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Hvað sem öllu þessu líður finnst mér þetta mál ekki eiga erindi í fjölmiðla en einhver hefur viljað að um það yrði fjallað á opinberum vettvangi sjálfsagt til að menn gætu velt sér upp úr hvers lags veikindi maðurinn þjáðist af.
Ég man ekki eftir því að læknisvottorð, hvernig svo sem þau eru til komin,  hafi verið gerð að fréttaefni.

Kolbrún Baldursdóttir, 30.11.2007 kl. 13:39

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér finnst fráleitt hvernig þetta mál er blásið upp í fjölmiðlum. Það hefur iðulega gerst að stjórnmálamenn hafi þurft að taka sér frí vegna veikinda eins og annað fólk.

Ólafur Thors fór í veikindafrí í nokkra mánuði að læknisráði og sneri aftur og aldrei var talað um vottorð þegar hann tók aftur við af Bjarna Benediktssyni.

Nú nýlega flutti Einar Karl Haraldsson ræðu fyrir Össur og þyrla sótti forseta Íslands til Snæfellsness. Enginn talaði þá um vottorð og ekki heldur þegar forsetinn axlarbrotnaði.

Mér finnst það einkamál Ólafs F. hvort hann hefur samráð við kollega sína hvað snertir heilsufar og einnig einkamál hans hvort hann kýs að framvísa vottorði við endurkomu sína.

Ég segi bara: Hættum þessu kjaftæði og leyfum manninum að eiga jól og áramót í friði.

Ómar Ragnarsson, 30.11.2007 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband