Slökknar á lífi fréttastöðvarinnar NFS

NFS

Sem 110% fréttafíkill verð ég að viðurkenna það fúslega að ég sé verulega eftir NFS, fréttastöð 365-miðla. Fjölmiðlalitrófið missir vissan glampa núna þegar að slökknar yfir tilveru hennar. Það var vissulega nokkuð merkilegt að sjá það þegar að Sigmundur Ernir Rúnarsson og Edda Andrésdóttir kvöddu í gærkvöldi NFS. Það var greinilega erfið stund fyrir þau, sérstaklega auðvitað Sigmund Erni sem fréttastjórnanda stöðvarinnar alla þá tíu mánuði sem hún var í loftinu. Það var þungt yfir fréttaþulunum og það sást vel á bakgrunninum þar sem ljósin á fréttastofunni í Skaftahlíðinni höfðu verið dempuð. Andrúmsloftið var lævi þrungið og engin gleði á andlitum fréttaþulanna.

Á skjánum hjá mér er svart þar sem áður var NFS. Lífið hefur slökknað þar yfir í orðsins fyllstu merkingu. Það verður að segjast alveg eins og er að skaði er af missi þessarar stöðvar. En þetta er tilraun sem var reynd og hún mistókst í þessari mynd. Það er hin kalda niðurstaða. Við sem erum fréttafíklar og njótum ítarlegra fréttaskýringa og diskúteringa um stjórnmál, þjóðmál í öllum myndum, söknum þessa góða kosts í fréttaumfjöllun. Það er bara þannig. En kannski var það alla tíð óhófleg bjartsýni að halda það að fréttastöð geti lifað á Íslandi í baráttu við allt hitt afþreyingarefnið, snöggsoðnu tónlistarmyndböndin og annað af þeim kalíber.

Ég vorkenni öllum þeim fjölda eðalfólks sem fengu uppsagnarbréf í gær og misstu starf sitt. Ég vil þó segja við þetta fólk að ég var einn þeirra sem hafði gaman af NFS og ég mun sakna stöðvarinnar. Ég mun sakna þess sem þau gerðu á NFS. Við sem dýrkum fréttir og kjarnann í fréttaumfjöllun söknum þess að geta ekki stillt á hana til að sjá eitthvað merkilegt gerast í beinni. Það verður reyndar merkilegt að sjá hvað tekur við. Greinilegt er að fréttir verða bara sagðar á Stöð 2 hér eftir inni í Íslandi í bítið, á hádegi og svo á slaginu 18:30 í slottinu þar sem kvöldfréttatími NFS var áður þar sem fréttapakki dagsins var áður zoom-eraður saman.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég dáðist að Lóu Aldísardóttur og félögum hennar sem stóðu vaktina síðustu klukkutíma NFS. Þau stóðu sig ótrúlega vel miðað við aðstæður. Það hefði verið hreinlegast að loka stöðinni strax kl. 17:00. Sérstaklega fannst mér átakanlegast að sjá fimmfréttatímann. Þar var alvaran yfir öllu og í bakgrunninum voru fréttamennirnir og tilvera þeirra á þessum svarta föstudegi þeirra. Allt var þetta í beinni - þetta var frétt dagsins og hún gerðist á fréttastofunni. Svona getur oft tilveran verið hörð og það er svosem engin ný frétt að fjölmiðlaheimurinn er ekki tryggasta atvinnugrein sögunnar.

En já þessi tilraun mistókst. Verður hún reynd aftur? Tæplega, og þó, maður skyldi svosem aldrei segja aldrei. Reyndar verður fróðlegt að fylgjast nú með því sem við tekur. En já, ég mun sakna NFS. Ég væri varla heiðarlegur við sjálfan mig og fréttanefinu mínu ef ég segði þetta ekki. Þeim sem voru á NFS óska ég góðs og vona að þau eflist við þennan mikla mótvind. En já það er svo sannarlega svart á NFS núna. Over and out!

mbl.is Tuttugu sagt upp hjá NFS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er missir af NFS. Mér fannst þessi tilraun ekki vera fullreynd þegar ákveðið var að hætta henni, það hefði verið hægt að ná mun meiri útbreiðslu en raunin varð. Af einhverri ástæðu var ákveðið að takmarka sendingar NFS við stafrænt dreifikerfi 365 miðla á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, það kom undirrituðum ekki vel enda fátækur námsmaður sem hefur ekkert við áskriftarstöðvar 365 að gera og það virtist óhóflegt vesen að ná sér í stafrænan myndlykil bara til þess að geta horft á NFS. Markmið stöðvar á borð við NFS sem byggir á auglýsingatekjum á auðvitað að vera eins aðgengileg og mögulegt er, að vera allsstaðar, alltaf. Það er furðulegt að sama fólkið og stendur á bakvið velgengni Fréttablaðsins hafi ekki áttað sig á þessu.

Bjarki (IP-tala skráð) 23.9.2006 kl. 15:09

2 Smámynd: Pálína Erna Ásgeirsdóttir

Sammála síðasta ræðumanni

Pálína Erna Ásgeirsdóttir, 23.9.2006 kl. 17:32

3 Smámynd: Sigrún Sæmundsdóttir

'Eg er sammála ykkur, þetta var ekki fullreynt og eins náði sending NFS ekki nóu víða, átti að vera eins og skjðár1 að nást án myndlykils. Ég sakna stöðvarinnar, horfði töluvert á hana.

Sigrún Sæmundsdóttir, 23.9.2006 kl. 19:10

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Er sammála ykkur öllum. Virkilega góð skrif hjá þér Bjarki.

kv. Stefán Fr.

Stefán Friðrik Stefánsson, 23.9.2006 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband