Ólafur F. og Vilhjálmur Þ. borgarstjórar til kosninga

Vilhjálmur Þ. og Ólafur F. Það er ánægjulegt að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn og Ólafur F. Magnússon hafi myndað nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Strax í upphafi hefur hann gert betur en 100 daga vinstrimeirihlutinn; lagt fram málefnasáttmála og plan að verkum þá 28 mánuði sem eru til borgarstjórnarkosninganna 2010.

Ólafur F. mun taka við embætti borgarstjóra á fimmtudag og verður áhugavert að sjá hann í því embætti, þar til að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tekur aftur við embættinu undir lok kjörtímabilsins og heldur inn í næstu kosningar sem borgarstjóri. Þeir hafa mikla reynslu af setu í borgarstjórn og eru traustir forystumenn í meirihlutanum og geta stýrt málum af krafti með tveggja afla meirihluta.

Það er greinilegt að Ólafur F. hefur fengið nóg af því að eiga við málefnalausan meirihluta og er ákvörðun hans fyllilega skiljanleg. Eðlilega er fýla í fyrri meirihluta. Það kom mér spánskt fyrir sjónir að sjá Björn Inga barma sér yfir því að hann hafi verið svikinn, fengið aðrar upplýsingar og ekki heyrt atburðarásina fyrir. Þetta er ekkert ósvipað því sem hann gerði sjálfur er hann stakk sjálfstæðismenn í októbermánuði og er kannski áhugaverð og nýstárleg lífsreynsla fyrir hann að lenda í því sama, fá rýtinginn í bakið, eins og hann hefur gert við svo marga aðra.

Það eru áhugaverðir tímar í borgarmálunum og líflegir mánuðir framundan. Ólafur F. og Sjálfstæðisflokkurinn felldu meirihluta R-listans í kosningunum fyrir tæpum tveim árum og eðlilegt að nú fái þeir tækifærið til að stjórna borginni. Til þess hafa þeir gott umboð kjósenda sem felldu R-listann frá völdum. Það hefði að mínu mati átt að mynda þennan meirihluta fyrir tveim árum - betra er þó seint en aldrei.

mbl.is Ólafur og Vilhjálmur stýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Þetta lítur þannig út fyrir mér að Ólafur sé ekki mjög traustur samstarfsaðili og einhvernveginn hefði mér fundist gáfulegra fyrir sjálfstæðismenn að efla sitt innra starf fyrir næstu kosningar og gjörsigra þær kosningar sem hefði átt að vera léttur leikur miðað við hve slakur og veikur þessi fráfarandi meirihluti var að þeirra mati. Ég myndi ekki veðja hárri upphæð á að þessi meirihluti haldi út kjörtímabilið.

Gísli Sigurðsson, 21.1.2008 kl. 21:43

2 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Sammála Gísla að ég veðja ekki hárri upphæð að þessi meirihluti haldi út allt kjörtímabilið.  Ég er sem betur fer ekki borgarbúi :) heldur af landsbyggðinni en mér finst í raun að Sjálfstæðismönnum hefði verið nákvæmlega sama hver gæti leppað þá bara ef að þeir væru í meirihluta borgarstjórnar, en gætið að þetta er mín skoðun og þarf því á engan hátt að endurspegla skoðun annara,  auk þess fanst mér Gísli Marteinn eins og oft áður eins og sprikklandi dúkkudrengur af kæti eins og að honum hefði verið réttur stór afmælispakki.  Aftur á móti fanst mér bæði Vilhjálmur og  Ólafur ansi þreytulegir.   En ég er þakklát fyrir hönd borgarbúa  með allt hið góða sem þessir meirihluti ætlar sér að gera, á ekki að lækka fasteignaskatta??  

Erna Friðriksdóttir, 21.1.2008 kl. 21:51

3 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég held Stefán,að þessi meirihluti standi á brauðfótum.Ólafur grét sáran þegar Vilhjálmur sveik hann eftir síðustu borgarstjórnarkosningar og tók Björn Inga í staðinn.Sé miðað við ítrekaðar viðræður Dags við Ólaf í dag,að ekkert væri að gerast í viðræðum hans við Sjálfstæðisfl.þá er meir en lítið að, að endurtaka ósannyndi sín a.m.k sex sinnum sama daginn.Er verðandi borgarstj.heill heilsu hugsa sjálfsagt margir uggandi um hag borgarinnar.Ég held að enginn eigi að fagna svona gjörningi og áhættan sem íhaldið tekur sé uggvænleg.

Kristján Pétursson, 21.1.2008 kl. 22:21

4 identicon

Húrra Reykjavík, til hamingju.

Það hlýtur að vera fjöður í hatt næstkomandi meirihluta, að gefa okkur málefnalistann strax, en ekki að bíða með það eins og núverandi stjórn gerði. ég er of glaður til að skrifa meira :)

mbk

Óli 

Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 22:49

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Meirihlutinn er ekkert veikari en áður þegar að vinstrimenn ákváðu að mynda meirihluta á oddastöðu Ólafs F. Magnússonar. Fyndið að vinstrimenn telji nú nýjan meirihluta veikari vegna stöðu Ólafs F, sem þeir sjálfir töldu geta verið traustan bakhjarl vinstrimeirihlutans. Það hefur verið ólga á þessu kjörtímabili. Það er sérstaklega skemmtilegt að sjá Björn Inga fá rýtinginn í bakið með þessum hætti. Hann virðist hafa misreiknað tafl sitt illa með meirihlutaslitum í október. En hann um það.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.1.2008 kl. 23:24

6 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Stebbi minn...ekki eins og strúturinn núna... auðvitað er þessi meirihluti enn veikari en sá sem fór frá núna...sem ég reyndar var sammála þér að væri veikur...eimitt vegna Ólafs og hann er eimitt í nýja meirihlutanum ef það hefur farið fram hjá þér... Nú erum við með tvo menn sem ætla að verða borgarstjórar fram til 2010... og þér finnst ekkert að því þó þú hefðir allt á hornum þér vegna bæjarstórafjöldans á Akureyri

En þarna bætist það við að ef Ólafur verður veikur eða forfallast...er meirihlutinn fallinn... þetta verður illa flókið og ef sá gamli var á brauðfótum er þetta deigfætur eða bara alls engar fætur.

Jón Ingi Cæsarsson, 21.1.2008 kl. 23:35

7 Smámynd: Félag Ungra Frjálslyndra

Félag ungra frjálslyndra lýsir yfir algerum stuðning við Ólaf F. Magnússon borgarfulltrúa F-Listans og fagnar því að grundvallarmálefni Frjálslynda flokksins séu nú að fá brautargengi í Reykjavík.

Félag ungra frjálslyndra fagnar því sérstaklega að nýi borgarmeirihlutinn ætli sér að viðhalda eign almennings á Orkuveitu Reykjavíkur og orkuauðlindum hennar.

Félag Ungra Frjálslyndra, 21.1.2008 kl. 23:37

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Hér á Akureyri var myndaður einn meirihluti í upphafi kjörtímabilsins þar sem fyrir lá að yrðu tveir bæjarfulltrúar á bæjarstjórastóli á kjörtímabilinu. Þeir urðu þrír. Það voru engin slit á þeim meirihluta á tímabilinu og því innansveitarkróníka tveggja flokka. Þarna erum við að tala um þrjá meirihluta í Reykjavík á innan við ári. Eðlilega leiðir það til frekari uppstokkunar en bara því að skipta um nefndaformenn. Það veistu sjálfur. Þetta hefur verið ólgutíð í Reykjavík. Nú hafa öll framboðin í Reykjavík setið í meirihluta á rúmum þrem mánuðum. Það eru umbrotatímar sem fylgja því og sögulegir tímar. Það hefur aldrei neitt gerst þessu líkt fyrr í borgarstjórn Reykjavíkur, enda var fyrsti meirihluti tímabilsins sá fyrsti í sögunni, utan vinstrimeirihlutans 1978-1982, sem var myndaður eftir kosningar en var ekki kosningabandalag eða meirihluti eins flokks.

Ólafur F. verður að standa og falla með forystu sinni. Nú fær hann tækifærið til að leiða borgarmálin og hann fær margt af sínu í gegn. Ekki þarf að undrast að Sjálfstæðisflokkurinn grípi fegins hendi tækifærið á að komast aftur í meirihluta þegar að fyrri meirihluti gefst upp málefnalaus og án samnings, en hann ríkti í hundrað daga án þess að geta samið um málefnin. Enda fellur hann á því umfram allt, greinilegt er að ergja var um stöðu frjálslyndra um nefndaskipan og valdastöðu. Svo fór sem fór.

En það er merkilegt hvað vinstrimenn eru fúlir í garð Ólafs en prísuðu hann í bak og fyrir, fyrir aðeins þrem mánuðum. Æi hvað þetta er annars fyndið.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.1.2008 kl. 23:43

9 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Nei Stebbi....ég treysti Ólafi aldrei....  flóttamenn sem skortir stefnufestu og heiðarleika er aldrei treystandi og það á við hann og er mér ekkert nýtt. Varla eru sjallar búnir að gleyma vingulshætti og athyglisýki Ólafs meðan hann var í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Nú hefur hann enn á ný farið á bak við samstarfsmenn sína í borgarstjórn og þeir eru einn að öðrum að sverja hann af sér.

Jón Ingi Cæsarsson, 22.1.2008 kl. 00:18

10 Smámynd: haraldurhar

  Stefán hvað álítur að líði langur tími þar til Vilhjálmur hafi gleymt málefnalistanum sem lagður var fram í dag?

haraldurhar, 22.1.2008 kl. 00:20

11 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þetta er einfalt mál mjög 'Olafur er bara komin heim aftur að minu mati,er Sálfstæðismaður að eðlisfari,og góður drengur að minu áliti/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 22.1.2008 kl. 00:25

12 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Stefán, ekki kalla mig vinstri mann. Ég er meira svona pólitískt viðrini sem er yfirleitt í stjórnarandstöðu. Mér finnst bara að valdið spilli þeim sem með það fer í formi fyrirgreiðslu og það að koma sínu fólki í góðar stöður eins og fáein dæmi eru nú þegar um, og það eiga eftir að verða miklu fleiri á þessum árum sem þessi ríkisstjórn situr, þá bæði kratar og sjálfstæðismenn.

Það sem ég sé í þessu er það að Ólafur hafði bakland í sínum lista í fyrri meirihluta en nú heyrist mér að það bakland sé ekki til staðar nema hjá formanni Frjálslyndra og Félagi ungra frjálslyndra. Ég man reyndar ekki betur en Ólafur hefði verið genginn úr þeim flokki fyrir kosningar. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort hann gengur í Sjálfstæðisflokkinn á kjörtímabilinu og hver verður þá varamaður fyrir hann? Er það ekki bundið við listann sem hann var kosinn fyrir?

Gísli Sigurðsson, 22.1.2008 kl. 08:29

13 identicon

Þú ert kominn á ansi hálan ís Stefán. Svona atburðir geta haft áhrif út fyrir Elliðaá. Þú ættir að leiðrétta við FUF (hélt að það væru ungir Framsóknarmenn) að Ólafur F. Magnússon er ekki mér vitandi flokksbundinn í Frjálslyndaflokknum þó hann sé með F í miðjunafni. Jafn mikill munur á honum og Frjálslyndaflokknum og KA og Þór.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 09:06

14 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Gísli Sig: Er ekki að kalla þig vinstrimann hér, heldur þá sem eru vinstrimenn og að gagnrýna myndun meirihlutans. Það verður auðvitað að ráðast hvernig gengur í þessum meirihluta. Það hefur verið upplausn í borgarmálunum síðan að Björn Ingi gekk á dyr. Það eina sem hann hefur nú grætt á því er að enda í minnihluta. Fyrri meirihluti vinstriaflanna náði aldrei að berja saman málefnaplagg og þarf ekki að undrast að Ólafur F, sem fékk ekki margt málefnalega í gegn, hafi farið á dyr. Hann fær mjög margt í gegn í nýjum meirihluta. Það blasir við öllum. Sjálfstæðisflokkurinn er að mynda meirihluta til að koma sínum verkum í gegn líka og þiggur auðvitað tækifærið að fara í meirihluta þegar að fyrri afl gefst upp.

HaraldurHar: Fullyrði ekkert um það. Þarna er þó myndaður meirihluti á málefnum út kjörtímabilið, ólíkt vinstrimeirihlutanum. Það eru 28 mánuðir til kosninga og eðlilegt að þessi meirihluti klári kjörtímabilið.

Gísli: Ég varð ekki var við að sjálfstæðismenn vildu nýja ríkisstjórn þó að Samfylkingin hafi myndað meirihluta framhjá sjálfstæðismönnum í haust. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki valdur að falli vinstrimeirihlutans. Þar á bæ áttu menn að byggja á málefnum og skrifa málefnasáttmála, en ekki halda svo lélega á málum sem raun bar vitni og felldi þá frá völdum. Ég veit bara að Ólafur F. er mjög traustur maður með alvöru málefni, t.d. Reykjavíkurflugvöll. Ég fagna því að meirihluti hafi verið myndaður í borginni sem sérstaklega snýst um að vernda völlinn á sama stað. Það er okkur ánægjuefni.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.1.2008 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband