Hamingjuóskir til nýs borgarstjóra

Ólafur F. Magnússon og Hanna Birna Kristjánsdóttir Ég vil óska Ólafi Friðriki Magnússyni, borgarstjóra, til hamingju með embættið og vona að honum muni ganga vel í störfum sínum. Ólafur er fyrsti Akureyringurinn sem sest á borgarstjórastól, og var eiginlega kominn tími til. Í mínum huga hefur Ólafur alltaf verið hugsjónamaður, farið eftir sannfæringu sinni og hvikað hvergi í að tala fyrir málefnum sínum. Það sést á málefnasamningi nýs meirihluta þar sem hann hefur fengið margt fram.

Á fyrstu landsfundum Sjálfstæðisflokksins sem ég sat var Ólafur F. þar, þá vara- og borgarfulltrúi í Reykjavík fyrir flokkinn. Man vel eftir landsfundinum 2001 þar sem deilt var um Kárahnjúkavirkjun. Þar lét Ólafur sverfa til stáls í andstöðu gegn virkjuninni og varð undir. Hann hafði vissulega umdeildar skoðanir og þær fóru ekki saman með öllum öðrum í Laugardalshöll þá. Það var eftirminnileg umræða um tillögur andstæðinganna og Ólafur barðist af krafti. Hann varð undir í kosningunni og ákvað í kjölfarið að yfirgefa flokkinn. Þá sem alla tíð lét hann málefnin ráða og barðist fyrir sannfæringu sinni.

Ólafur F. Magnússon á átján ára feril að baki sem aðal- og varamaður í borgarstjórn Reykjavíkur og aðeins Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson setið lengur þar. Margir, þar á meðal ég, töldu að Ólafur ætti ekki möguleika á að ná kjöri í borgarstjórnarkosningunum 2002. Eftir að hann yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn myndaði Ólafur F. F-listann með frjálslyndum og var óháður fulltrúi í forystu framboðslistans á meðan að Margrét Sverrisdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, tók annað sætið sem flokksfulltrúi. Ólafur F. mældist ekki inni í borgarstjórn alla kosningabaráttuna en náði kjöri með eftirminnilegum hætti á fimmta tímanum á kosninganótt.

Þá kom fylgissveifla til F-listans og tryggði hann stöðu sína enn með utankjörfundaratkvæðum. Hafði hann verið farinn heim að sofa þá og taldi sig ekki lengur eiga von á að ná kjöri. Eru eftirminnilegar fréttamyndirnar frá þessari nótt þegar að Ólafur F. kom til baka í gleði stuðningsmanna sinna og ávarpaði þá. Þarna vann hann sigur á öllum skoðanakönnunum. Í kosningunum 2006 bætti F-listinn við sig nokkru fylgi og var ekki fjarri því að ná inn Margréti Sverrisdóttur í borgarstjórn. Hlaut listinn yfir 6000 atkvæði og 10% atkvæða - varð stærri en Framsóknarflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn og F-listinn felldi R-listaöflin frá völdum eftir tólf ára valdasetu.

Þrátt fyrir að Ólafur hafi verið valinn maður ársins 2001 á Rás 2 vegna málefnabaráttu sinnar í virkjunarmálinu hefði fáum órað fyrir því þegar að hann yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn og stökk í djúpu laugina að hann ætti eftir að verða borgarstjóri í Reykjavík og það í meirihlutasamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. En sú hefur nú orðið raunin. Það er ánægjulegt að sjá þennan fyrrum flokksfélaga sameinast að nýju sjálfstæðismönnum í borgarstjórn í samstarfi, en með sumum þeirra hefur hann unnið allt frá því að hann varð varaborgarfulltrúi í nafni flokksins.

Ég hef alla tíð borið nokkra virðingu fyrir Ólafi F. Magnússyni sem stjórnmálamanni, þó ekki hafi ég reyndar alltaf verið sammála honum. Hann hefur verið ötull talsmaður mannúðlegra áherslna og verið fulltrúi málefnalegrar stjórnmálabaráttu - látið málefnin tala og farið eftir sannfæringu sinni í pólitískri baráttu. Það er mikil áskorun fyrir hann að taka við borgarstjórastarfinu og ég vona að honum farnist vel. Nú þegar hefur hann fengið mörg mál í gegn og lætur verkin tala.

Það er til skammar hvernig hrópað var fúkyrðum og ómálefnalegu ógeði að Ólafi F. Magnússyni á borgarstjórnarfundi í dag. Ungliðar vinstriaflanna gerðu sig að fíflum með skrílslátum sínum í dag. Þau misstu algjörlega marks og fóru yfir strikið.

mbl.is Ólafur hyggst láta verkin tala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Við skulum vona að honum takist það.

Ásdís Sigurðardóttir, 24.1.2008 kl. 21:45

2 identicon

Mæltu manna heilastur Stefán minn. Þetta er almennilegt að lesa en ekki þessi endalausu fúkyrði og ofstæki í þessum vesalings vinstra pakki. Æ, ég held svei mér þá að þeim sé ekki alltaf sjálfrátt svei mér alla daga.

Stundum veit ég  ekki í hvað borg ég bý, þegar samfylkingargosar og þeirra fylgifólk eru að telja upp dásemdir Rlistanna beggja sálugu og þeirra gjörðir, ég kannst ekkert við þetta dásemdarraus þeirra, ég hef á þessum árum bara séð minni pening og meiri gjöld í þeirra tíð. Verð að segja, nei ég læt það vera, er kannski heldur gróft. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 23:29

3 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Þetta er góð upptalning af gjörðum Ólafs F. Ekki vissi ég að hann væri Akureyringur, hélt hann vera úr Hliðunum.

Vonandi vegnar honum vel, ég er pínu hrædd um að Margret eigi eftir að kvelja hann......vonandi ekki þó.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 25.1.2008 kl. 00:22

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

tek undir orð in um hamingjuóskir til nýs Borgarstjóra Ólafs F./Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 25.1.2008 kl. 00:59

5 Smámynd: Guðmundur Jóhannsson

Gaman að lesa þennan texta þinn Stefán.  Sorglegt var að hlusta á fulltrúa fráfarandi meirihluta verja þessi frammíköll og fúkyrði.  Svandís var barnaleg í kvöld og ekki að heyra þar væri stjórnmálamaður að tala, Þeir einfaldlega klúðruðu samstarfinu á þessum 100 dögum.  Svo þarf Dagur B lesa betur kosningalögin, sveitarstjórnarmenn eru kosnir til fjögurra ára.  Margret Sverrisdóttir er á góðri leið með að klára sinn feril líkt og Björn Ingi, hún vill greinilega ekki hafa áhrif og standa við það sem sett var fram fyrir kosningar.  Endalaust hatur hennar á Sjálfstæðismönnum villir henni sín líkt og föður hennar.

Guðmundur Jóhannsson, 25.1.2008 kl. 06:22

6 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Ólafur F tekur við embætti sem hann hefur engan stuðning til að gegna. Við sáum svipað þegar Sjálfsstæðismenn teygðu sig langt og settu Halldór Ásgrímsson í stól forsætisráðherra, stór sem hann hafði engan stuðning í. Við vitum hvernig það endaði.

Eggert Hjelm Herbertsson, 25.1.2008 kl. 08:09

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin Mundi, Halli og Guðrún Þóra.

Eggert: Ólafur tekur við embætti borgarstjóra með meirihluta borgarstjórnar á bakvið sig. Ég vil dæma Ólaf af verkum sínum en ekki fyrirfram. Hann verður að fá tíma og tækifæri til að sanna sig þessa fjórtán mánuði sem hann gegnir embætti borgarstjóra.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 25.1.2008 kl. 11:02

8 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Það augljóst að þeim sem þykir þetta gott og jákvætt eru þeir sem horfa á atburðarásina í gegnum flokkskírteini Sjálfstæðisflokksins. Það er ljótt hvernig Sjálfstæðismenn hafa notfært sér veikleika Ólafs F í þessu máli. Ég fann til með honum í Kastljósinu í gær.

Jón Ingi Cæsarsson, 25.1.2008 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband