Dagný Jónsdóttir gefur ekki kost á sér

Dagný Jónsdóttir

Dagný Jónsdóttir, alþingismaður, ætlar ekki að gefa kost á sér í alþingiskosningunum að vori. Hún tilkynnti þetta á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, sem haldið er á Djúpavogi, í dag. Þetta teljast mikil tíðindi, enda hafði Dagný margoft lýst því yfir að hún ætlaði að fara aftur í framboð og bjuggust flestir við að hún myndi taka slaginn við Birki Jón Jónsson um annað sæti listans. Samkvæmt þessu er því orðið ljóst að báðir Austfirðingarnir innan Framsóknarflokksins í Norðaustri á þingi, Jón Kristjánsson og Dagný, verða ekki í kjöri að vori.

Dagný varð aðalstjarna Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum 2003. Henni var falin mikil ábyrgð og mikið bar á henni í baráttunni. Framsóknarflokkurinn skreytti öll auglýsingaspjöld sín með henni og hún var sá frambjóðandi sem mest var auglýstur í kosningunum þá. Mun minna bar á Valgerði Sverrisdóttur og Jóni Kristjánssyni en Dagnýju. Hún var sett fram sem baráttukona í baráttusæti og var Dagný vissulega táknrænn sigurvegari kosninganna, en með þessari taktík tókst bæði að tryggja henni þingsæti og ekki síður Birki Jóni sem datt inn í lok talningar.

Dagný var dugleg í sinni stjórnmálabaráttu. Hún var þó aldrei hugsjónastjórnmálamaður. Ég hef oft velt fyrir mér hennar pólitík og vil halda þeim skoðunum fyrir mig. En dugleg var hún, það verður ekki af henni tekið og hún vann mikið í baráttunni fyrir sig og sinn flokk. Sögusagnir eru nú um að Sæunn Stefánsdóttir, eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á þingi, verði í þriðja sæti flokksins í kosningunum. Öllum er væntanlega ljóst nú að Birkir Jón verður í öðru sætinu, enda eini þingmaður flokksins í kjördæminu sem fram fer auk leiðtogans Valgerðar.

Það stefnir svo sannarlega í spennandi kosningar hér í Norðaustrinu að vori og spennandi að sjá hvort að ritarinn Sæunn kemst inn ef hún skipar þriðja sætið. Enn er svo þeirri spurningu ósvarað hvort að Jakob Björnsson, fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, gefi ekki kost á sér og vilji komast á þingi. Skv. nýjustu könnun Gallups er Framsóknarflokkurinn með 20% fylgi í Norðausturkjördæmi og tvo þingmenn inni. Vissulega er það sögulega lítið fyrir Framsókn en þó mesta fylgið sem flokkurinn mælist með í kreppu sinni þessa mánuðina.

mbl.is Dagný Jónsdóttir býður sig ekki fram til þings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband