Borgarstjórn Reykjavíkur er alveg rúin trausti

Fundarsalur borgarstjórnarÞað er greinilegt að borgarstjórn Reykjavíkur er algjörlega rúin trausti eftir óstöðugleikatímbil síðustu mánaða og greinilegt að mikil óánægja er með hina kjörnu fulltrúa almennings. Könnun Gallups er áfellisdómur kjósenda yfir þeim óstöðugleika sem er uppi í borgarmálunum, en þar hefur ríkt ítalskt ástand og þrír meirihlutar og borgarstjórar setið síðustu mánuði.

Það eru sögulegir umbrotatímar í stjórnmálum í Reykjavíkurborg. Uppi er ástand sem aldrei hefur gerst áður. Þrátt fyrir að jafnmargir borgarstjórar hafi setið á þessu kjörtímabili og hinu síðasta er R-listinn lenti í vandræðum með borgarstjóramál sín; sögulega afsögn borgarstjóra vegna hneykslismáls og eftirminnileg starfslok þaulsetins borgarstjóra vegna innri sundrungar, eru borgarbúar óvanir því að óstöðugleiki sé uppi með þeim hætti að meirihlutar komi og fari. Því er ekki að neita að þetta er erfið staða en í þeirri stöðu reynir á þá sem fara með völdin.

Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista tók við völdum við mjög erfiðar aðstæður og mikið verkefni blasir við Ólafi F. Magnússyni, borgarstjóra, að sýna að meirihlutinn standi undir verkefninu og geti stýrt af krafti. Mér finnst það ekki óeðlilegt að kjósendur telji stjórnmálamenn ekki hafa staðið undir nafni - ekki getað fært stöðugleika í pólitísku starfi. Enn er langt til kosninga, rúmir 26 mánuðir, og fjarri því að afgerandi reynsla hafi komið á nýjan meirihluta og borgarstjórann eftir innan við hundrað daga við völd.

Það er eðlilegt að hver meirihluti fái sinn tíma og borgarstjórinn ennfremur. Á þessum ólgutímum er eðlilegt að rót sé á fylgi og fólk sé að átta sig. Um leið þarf reynsla að komast á meirihlutann og rykið að setjast. Þá fyrst kemur marktæk mæling á stöðu mála. En þetta er áfellisdómur. Einfalt mál. Nú reynir á kjörna fulltrúa.

mbl.is Aðeins 9% treysta borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það er ekki til setunar boðið, borgarstjónið hefur verk að vinna.

Sigurður Þórðarson, 1.3.2008 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband