Guðbjartur sigrar - Anna Kristín fellur um sæti

Guðbjartur Hannesson Úrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Guðbjartur Hannesson, skólastjóri á Akranesi, sigraði í prófkjörinu og verður leiðtogi Samfylkingarinnar í kjördæminu í stað Jóhanns Ársælssonar, sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Guðbjartur hefur ekki áður setið á þingi og er því nýliði í þessum efnum. Guðbjartur hlaut fyrsta sætið með 477 atkvæðum. Ekki var langt á milli efstu manna, en alls sóttust fimm eftir fyrsta sætinu í þessu prófkjöri.

Í öðru sætinu varð Karl V. Matthíasson, sem hlaut 552 atkvæði í 1.-2. sætið. Karl ætti því að komast aftur á þing, en hann var þingmaður Vestfirðinga 2001-2003. Anna Kristín Gunnarsdóttir, alþingismaður, varð þriðja og með 582 atkvæði í 1.-3. sæti og Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi á Ísafirði, 790 atkvæði í 1.-4. sæti. 1668 greiddu atkvæði og voru 69 seðlar auðir og ógildir. Þetta eru merkileg tíðindi og boða nokkra uppstokkun.

Með þessu fellur Anna Kristín um sæti og er í raun komin í varamannsframboð og komin í óvissuna. Mjög merkilegt alltsaman, enda er Anna Kristín þegar farin að tala um tap kvenna í kjördæminu. Það er því ljóst að ekki eiga konur upp á pallborðið í kjördæminu, en Anna Kristín er eina þingkona kjördæmisins.

Auk þess datt Helga Vala Helgadóttir niður er leið á, en hún var fyrst þriðja og svo fjórða áður en hún datt út endanlega úr efstu sætum. Mikla athygli vekur að Sveinn Kristinsson, leiðtogi Samfylkingarinnar á Akranesi, komst aldrei á blað í talningunni og hljóta sárindi hans að vera nokkur er úrslitin liggja fyrir.

Það verður fróðlegt hver umræðan verður að prófkjöri loknu, en það hlýtur að teljast vonlítið fyrir Samfylkinguna að ná þrem inn í NV, miðað við að kjördæmið missir tíunda þingsæti sitt til kragans.

mbl.is Öll atkvæði talin í NV-kjördæmi; Guðbjartur sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband