Hringlandaháttur í málefnum Orkuveitunnar

Björn Bjarnason Með ólíkindum hefur verið að fylgjast með hringlandahættinum í Orkuveitu Reykjavíkur og REI undanfarna mánuði, ekki aðeins í valdatíð Sjálfstæðisflokksins, heldur allra annarra framboða í borginni síðasta hálfa árið. Mestu vonbrigðin hafa þó falist í því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki höndlað vel hlutskipti sitt sem leiðandi aðili í tveimur meirihlutum og satt best að segja mistekist að tryggja trausta forystu með einbeittum og góðum vinnubrögðum á vakt sinni.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, ritar góðan pistil um þessi mál á vefsíðu sína, sem ég mæli með. Hringlandahátturinn og klúðrið í Orkuveitunni hefur ekki aðeins verið á ábyrgð eins flokks heldur þeirra allra. Enda tel ég að öll framboð hafi brugðist með einum eða öðrum hætti síðustu mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn hafði öll tækifæri til að stjórna vel eftir tólf ára valdatíð R-listans, einkum innan Orkuveitunnar. Leyndarhjúpurinn yfir þessu fyrirtæki hefur síst minnkað í valdatíð Sjálfstæðisflokksins og er svo komið að vandræðagangurinn er kominn yfir öll mörk. Enginn virðist ná að rísa upp úr þessu risavaxna klúðri.

Fylgdist örlítið með fréttum í suðurferð minni. Allir eru hættir að skilja REI-málið, hafa týnt áttum í því og skilja hvorki upp né niður. Sjálfstæðisflokkurinn sem stærsti flokkurinn í borgarstjórn hefur sérstaklega brugðist í þeim efnum að tryggja farsæla forystu í borgarmálunum þegar að kemur að þessu fyrirtæki. Á vakt hans var fetað aftur til hinna fornu spillingardaga þegar að Lína.net varð til og Alfreð Þorsteinsson ríkti yfir Orkuveitunni. Sjálfstæðisflokkurinn stóð sig ekki betur og hélt sukkinu áfram. Í því felast vonbrigði sem erfitt er að gleyma fyrir þá sem hafa talað máli Sjálfstæðisflokksins fyrr og nú.

Fréttaviðtöl við kjörna fulltrúa nær ekki að koma REI-málinu og tengdum þáttum þess í skiljanlegt samhengi. Leiðaraskrif Moggans á fimmtudag voru heiðarleg og rétt, eins og ég hef hér áður bent á. Talað er í kross og enginn alvöru heildarsvipur er yfir lykilatriðum og eftir því sem fleiri tala verður vandræðagangur allra hlutaðeigandi æ meiri. Þetta mál er eitt stórt klúður og Sjálfstæðisflokkurinn ber á því mikla ábyrgð.

mbl.is Björn: Vandræðum OR sópað undir teppið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband