Samfylkingin tapar fylgi - ríkisstjórnin dalar

Ingibjörg Sólrún og Geir H. Haarde Nýjasta könnun Gallups hlýtur að vera mikið áhyggjuefni fyrir Samfylkinguna. Flokkurinn missir sjö prósentustig milli mánaða og er nú kominn undir kjörfylgið. Fylgi vinstri grænna eykst og eru þeir nú komnir yfir 20% - aðeins munar fimm prósentustigum á fylgi vinstriflokkanna. Hinir stjórnarandstöðuflokkarnir bæta óverulega við sig og Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu.

Apríl var erfiður mánuður fyrir Samfylkinguna. Deilt var einkum á ráðherra flokksins í utanríkis-, umhverfis- og samgöngumálum auk þess sem sótt var að velferðaráherslum flokksins. Samfylkingin hefur verið minnt æ ofan í æ á skoðanir sínar á eftirlaunalögunum í aðdraganda síðustu þingkosninga þar sem fram kom að flokkurinn myndi beita sér af krafti fyrir breytingum. Er svo komið að margir kjósendur Samfylkingarinnar eru óánægðir með flokkinn.

Þó að Sjálfstæðisflokkurinn haldi velli fylgislega séð í nýjustu könnun Gallups vekur mikla athygli að persónulegt fylgi Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, minnkar um þrjátíu prósentustig frá síðustu sambærilegri könnun fyrir nokkrum mánuðum. Fylgi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, dregst einnig umtalsvert saman. Jóhanna Sigurðardóttir er enn vinsælasti ráðherrann, en missir tíu prósentustig frá síðustu könnunum. Óvinsælasti ráðherrann, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, mælist aðeins með átta prósentustiga stuðning þjóðarinnar.

Stóru tíðindin eru þó þau að hveitibrauðsdögum hinnar voldugu ríkisstjórnar, sem hefur 43 sæti á þjóðþinginu, er sannarlega lokið. Hún mældist með yfir 80% stuðning í upphafi en hefur nú fallið niður í 58%. Hefur fylgi stjórnarinnar minnkað umtalsvert á frekar skömmum tíma. Ekki virðist þó Sjálfstæðisflokkurinn tapa á niðursveiflu ríkisstjórnarinnar, heldur virðist Samfylkingin ein taka það fylgistap á sig og virðist nú stefna í svipaðar mælingar og í aðdraganda síðustu þingkosninga þegar að vinstriflokkarnir mældust á pari og VG bætti mjög við sig.

Samfylkingin var að segja má í draumastöðu eftir síðustu kosningar, með öll spil á hendi þrátt fyrir fylgistap í kosningum og komst loksins í ríkisstjórn eftir langa eyðimerkurgöngu. Greinilegt er þó að kjósendur fella áfellisdóm yfir verkum Samfylkingarinnar. Hið mikla fylgistap síðustu vikna var fyrirsjáanlegt og hafa merki þess sést í Fréttablaðskönnunum að undanförnu.

Hef fundið það vel að Samfylkingarfólk hefur ekki verið ánægt með verk síns fólks í ríkisstjórn. Það hefur vel komið fram í bloggskrifum og vangaveltum manna á meðal í samfélaginu. Kannanir nú staðfesta þá umtalsverðu niðursveiflu og eðlilegt að spurt sé hvort að flokkurinn endurvinni sér traust þeirra sem hafa snúið við honum baki.

mbl.is Fylgi við Samfylkingu og ríkisstjórn minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það sem er jákvætt við þessa skoðanakönnun er að Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu.
Samfylkingin er að tapa fylgi til vg og flokkurinn verður að fjarlægast þann öfgaflokk á komandi misserum enn meira.
Framsóknarflokkurinn er að fara í gegnum mikil ákök vegna esb þar sem formaður og varaformaður tala út og suður varðandi esb og enginn veit hvort Birkir Jón sé í evrópunefndinni fyrir Guðna eða Valgerði. Uppgjör í þeim flokki er óumflýgjanlegt og 10% flygi er í mínum huga það hæsta sem þessi flokkur getur búist við að fá.
Flokkur sem er ekki stjórntækur og hefur það eina fram að færa að vera á móti öllum framförum og með forræðishyggju að leiðarljósi að 20% séu reiðubúin að henda atkvæði sínu er rannsóknarefni.
Ég treysti því að Jón Magnússon klári Frjálslynda fyrir næstu kosningar.

Óðinn Þórisson, 1.5.2008 kl. 20:04

2 identicon

Best væri fyrir alla að binda enda á þetta vonlausa stjórnarsamstarf sem allra fyrst. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að komast í frí. Greinilegt að valdþreyta og valdhroki hrjá orðið flokkinn sem auk þess er nánast stjórnlaus. Betra hefði verið ef Sjálfstæðismenn hefðu tekið VG með sér í stjórn eftir síðustu kosningar. Samfylkingin ætti að hugsa sinn gang vandlega og íhuga hvort ekki væri rétt að athuga samstarf við VG og Framsókn þar sem Ingibjörg yrði forsætisráðherra. Það er örugglega betri kostur fyrir flokkinn, en tærast upp í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

leibbi (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 20:36

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þessi könnun sýnir mér einfaldlega að kjósendur Samfylkingar eru hugsandi fólk.  Það sama er alls ekki hægt að segja um kjósendur sumra flokka

Sigrún Jónsdóttir, 1.5.2008 kl. 20:40

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Manni kemur þetta ekki á óvart,og næst munum við fara eitthvað niður lika nema eitthvað kraftaverk komi til,þetta er að mer fynnst höfuðlaust/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 1.5.2008 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband